Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 96 . mál.


99. Tillaga til þingsályktunar



um útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Eggert Haukdal,


Sturla Böðvarsson, Svanhildur Árnadóttir, Árni R. Árnason,


Árni M. Mathiesen.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera könnun á þeim kostum sem í boði eru til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna kringum landið með hliðsjón af þeirri tækniþróun sem orðið hefur á sviði ljósvakamiðlunar.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt. Það er því endurflutt nær óbreytt.
    Móttökuskilyrði sjónvarps eru mjög misjöfn á fiskimiðunum umhverfis landið. Þau eru allgóð frá Faxaflóa austur að Ingólfshöfða, afleit út af Austurlandi og gloppótt fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum og suður fyrir Snæfellsjökul. Skilyrðin eru þó skárri þegar háþrýstisvæði er yfir landinu.
    Móttökuskilyrði útvarps eru einnig mjög misjöfn. Langbylgja heyrist víðast hvar, þó illa út af Vestfjörðum og á Breiðafirði. Miðbylgja heyrist út af Norðausturlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi. Rás 2 heyrist þar sem sjónvarp næst. Erlendar stöðvar yfirgnæfa langbylgju og miðbylgju þegar dimmir.
    Það er tvímælalaust mikið öryggismál að bæta sendingar útvarps til fiskimiðanna. Farsíminn virkar þar sem sjónvarp næst og heldur víðar. Þegar hann virkar ekki er eina sambandið við land í gegnum talstöð. Ef hún bilar er ekkert samband hægt að hafa í land og ekki hægt að fylgjast með aðvörunum um hættu, t.d. fárviðrisspám og tilkynningum um ís.
    Tækniþróun á sviði sjónvarps og útvarps er mjög ör. Á síðustu árum hefur fleygt fram gervihnattatækni og annarri útsendingartækni. Má þar nefna fregnir af tilraunum með fjölrása sjónvarpssendingar í Bandaríkjunum. Einnig kann að vera fýsilegt að skoða möguleika á notkun gervihnattasendinga fyrir hljóðvarp og sjónvarp sem þjónað geti dreifikerfi innan lands og bætt þjónustu við sjómenn á hafi úti.
    Ekki skal á það lagður dómur hverjir kostir eru vænlegastir, en með hliðsjón af því hve tækni á þessu sviði hefur fleygt fram telja flutningsmenn fyllstu ástæðu til að íslensk stjórnvöld láti hið fyrsta fara fram athugun á því hvaða leiðir eru hagkvæmar til bóta í þessum efnum.


Fylgiskjal.


Sjónvarpsskilyrði á fiskimiðunum umhverfis landið.



(Repró, kort. á bls. 5153 í 20. hefti 1992-93.)