Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 106 . mál.


109. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fimm manna nefnd til að endurskoða lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga, einkum ákvæði 12. gr.

Greinargerð.


    Í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944 er þess sérstaklega getið að óheimilt sé að nota þjóðfána Íslendinga á umbúðir eða í auglýsingar á vörum.
    Flutningsmenn telja að ákvæði þetta eigi ekki lengur við nein rök að styðjast og að gæðavörur íslenskrar framleiðslu, sem til útflutnings séu ætlaðar, geti og eigi að bera glögg einkenni Íslands. Því eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að heimilt verði að nota íslenska þjóðfánann t.d. á umbúðir varnings sem framleiddur er hér á landi, enda gæti slík merking haft áhrif til landkynningar.
    Flutningsmenn telja það í hæsta máta eðlilegt og við hæfi að t.d. bæklingar til kynningar á landi og þjóð og til upplýsingar fyrir ferðamenn séu áprentaðir með íslenska þjóðfánanum.
    Með tilvísun til þess sem að framan greinir þykir flutningsmönnum rétt að benda á að m.a. ættu fulltrúar útflutningsráðs og ferðamála að eiga aðild að væntanlegri nefndarskipun.