Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 131 . mál.


144. Frumvarp til laga



um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


    Lög þessi gilda um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

2. gr.


    Með lánastofnun er í lögum þessum átt við félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér, eða hafa heimild í lögum eða samþykktum til þess að afla sér, í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, sbr. þó 9. gr.
     Lánastofnun er óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og stunda aðra starfsemi en þá sem fjallað er um í lögum þessum.

II. KAFLI


Stofnun og starfsleyfi.


3. gr.


    Óheimilt er að hefja starfsemi lánastofnunar nema að fengnu starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skráning í hlutafélagaskrá veitir ekki sjálfkrafa rétt til að hefja slíka starfsemi. Ráðherra getur bundið starfsleyfi því skilyrði að hefjist starfsemi hlutaðeigandi stofnunar ekki innan tiltekins tíma eftir veitingu leyfisins falli það úr gildi.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir hlutafélagsins og jafnframt upplýsingar um stofnendur, hlutafé, hluthafa og hlut hvers um sig, svo og aðrar upplýsingar og gögn sem nánar skal fyrir mælt í reglugerð sem ráðherra setur.
     Áður en ráðherra afgreiðir umsókn um starfsleyfi skal hann leita umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     Birta skal tilkynningar um starfsleyfi lánastofnana í Lögbirtingablaði.
     Um veitingu starfsleyfis til lánastofnana, synjun umsókna um starfsleyfi og afturköllun starfsleyfis gilda að öðru leyti ákvæði II., III. og XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

4. gr.


    Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir hér á landi geta verið stofnendur lánastofnunar.
     Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir búsetuskilyrði 1. mgr. Ráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

5. gr.


    Lánastofnun verður ekki stofnuð með lægra hlutafé en 400 milljónum króna og skal hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ecu miðað við kaupgengi hennar 11. maí 1993.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að stofna eignarleigufyrirtæki, sbr. 9. gr., með 80 milljóna króna hlutafé hið lægsta og skal það aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi tekur sömu breytingum og um getur í 1. mgr.

6. gr.


    Um stofnun lánastofnunar fer að öðru leyti eftir ákvæðum um stofnun hlutafélagsbanka í II. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

III. KAFLI


Stjórnun og starfsemi.


7. gr.


    Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum lánastofnunar samkvæmt því sem lög og samþykktir stofnunarinnar ákveða.
     Stjórn lánastofnunar skal kjörin af hluthöfum á aðalfundi. Hún fer með málefni félagsins milli hluthafafunda. Stjórnin skal skipuð eigi færri en þremur mönnum og jafnmörgum til vara.
     Stjórn lánastofnunar ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri hlutaðeigandi stofnunar og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hennar sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.
     Um stjórnendur og stjórnun lánastofnunar gilda að öðru leyti ákvæði um stjórn viðskiptabanka og sparisjóða í 38.–43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

8. gr.


    Starfsemi lánastofnana felst í því að veita lán í eigin nafni og afla sér í því sambandi fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Til starfsemi þeirra telst einnig að veita þjónustu sem er í eðlilegum tengslum við slíka lánastarfsemi. Nánar tiltekið felst starfsemi þeirra í:
    Útlánastarfsemi, m.a.:
         
    
    neytendalánum,
         
    
    langtímaveðlánum,
         
    
    kröfukaupum og kaupum skuldaskjala og
         
    
    viðskiptalánum.
    Fjármögnunarleigu.
    Greiðslumiðlun.
    Útgáfu og umsýslu greiðslumiðla, t.d. greiðslukorta, ferðatékka og víxla.
    Að veita ábyrgðir og tryggingar.
    Viðskiptum fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
         
    
    greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
         
    
    erlendan gjaldeyri,
         
    
    framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
         
    
    gengisbundin bréf og vaxtabréf og
         
    
    verðbréf.
    Þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskiptum tengdum slíkum útboðum.
    Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjöf og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
    Peningamiðlun.
    Stjórnun og ráðgjöf varðandi samval verðbréfa.
    Vörslu og ávöxtun verðbréfa.
    Upplýsingum um lánstraust (lánshæfni).
    Útleigu geymsluhólfa.
Um verðbréfaviðskipti lánastofnana gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.
     Lánastofnunum er heimilt að stunda vátryggingastarfsemi með stofnun dótturfyrirtækis.
     Þeim er einnig heimilt að stunda aðra starfsemi en um ræðir í 1. mgr., enda sé slík hliðarstarfsemi í eðlilegu framhaldi af meginstarfsemi þeirra. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki bankaeftirlitsins sem jafnframt getur ákveðið að hún skuli stunduð í sérstöku félagi.
     Um starfsemi lánastofnana fer að öðru leyti eftir ákvæðum V. kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að undanskildum ákvæðum um innlánsreikninga og innlánsskilríki.

9. gr.


    Með eignarleigufyrirtæki er átt við lánastofnun sem hefur eignarleigu að meginstarfsemi sinni, óháð því hvernig sú starfsemi er fjármögnuð. Með eignarleigu er átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Eignarleigufyrirtæki er þó einnig heimilt að veita þjónustu á þeim sviðum sem talin eru upp í 1. mgr. 8. gr., enda verði þar aldrei um að ræða meginstarfsemi viðkomandi fyrirtækis.
     Ráðherra getur að fenginni tillögu bankaeftirlitsins sett nánari reglur um eignarleigustarfsemi þar sem m.a. koma fram skilgreiningar á hinum ýmsu flokkum eignarleigu og þau atriði sem að lágmarki skal kveðið á um í eignarleigusamningum.

IV. KAFLI


Eigið fé, ársreikningur, endurskoðun, slit og samruni.


10. gr.


    Eigið fé lánastofnunar skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af áhættugrunni, þ.e. heildareignum hlutaðeigandi félags og liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli sem Seðlabankinn setur.
    Um eigið fé lánastofnana gilda að öðru leyti ákvæði VI. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði um laust fé viðskiptabanka og sparisjóða gilda þó ekki um lánastofnanir heldur fer um það samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.

11. gr.


    Um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil lánastofnana fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

12. gr.


    Um slit lánastofnana eða samruna við aðrar stofnanir fer samkvæmt ákvæðum VIII. og IX. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

V. KAFLI


Starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis.


13. gr.


    Erlendar lánastofnanir, sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og hlotið hafa starfsleyfi lögbærra yfirvalda í því ríki, geta stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þess efnis frá eftirlitsaðilum í heimaríkinu. Útibúinu er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til, enda sé hlutaðeigandi stofnun heimiluð slík þjónusta í heimaríki hennar.
     Stofnunum sem um ræðir í 1. mgr. er einnig heimilt að veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús þegar bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum eftirlitsaðilum í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar. Þessum stofnunum er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til skv. 8. gr., enda hafi eftirlitsaðilar í heimaríki þeirra staðfest að starfsleyfið taki til slíkrar þjónustu.
     Um heimildir erlendra lánastofnana, annarra en um ræðir í 1. mgr., til starfsemi hér á landi fer eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Um starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi gilda að öðru leyti ákvæði XI. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

14. gr.


    Lánastofnanir, sem hlotið hafa starfsleyfi ráðherra skv. 3. gr. og óska eftir að starfrækja útibú í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu tilkynna það bankaeftirlitinu ásamt upplýsingum um:
    í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú,
    lýsingu á starfsemi útibúsins, skipulagi og fyrirhugaðri starfsemi,
    heimilisfang útibúsins og
    nöfn stjórnenda þess.
     Óski lánastofnun að veita þjónustu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að stofna þar útibú skal tilkynna það bankaeftirlitinu. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki eigi í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
     Hyggist lánastofnun hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
     Um starfsemi innlendra lánastofnana erlendis fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

VI. KAFLI


Eftirlit.


15. gr.


    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi lánastofnana sé í samræmi við ákvæði laga, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir hlutaðeigandi stofnana. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.
     Bankaeftirlitið skal rannsaka fjárhag lánastofnana sem skulu veita allar þær upplýsingar sem eftirlitið telur nauðsynlegar. Í þeim mæli sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegt til að meta fjárhagsstöðu lánastofnunar hefur það rétt til að afla upplýsinga og framkvæma vettvangsrannsókn hjá tengdum fyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum.

16. gr.


    Eftirlitsaðilum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra stofnana hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til bankaeftirlitsins.

17. gr.


    Bankaeftirlitinu er heimilt að banna erlendri lánastofnun með aðalstöðvar í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins að stunda starfsemi hér á landi hafi hlutaðeigandi stofnun brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða samþykktum og reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármála- og lánastofnanir, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot samkvæmt tilmælum eða viðurlögum þessara laga.
     Málsmeðferð skv. 1. mgr. fer að ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við á.

18. gr.


    Bankaeftirlitið skal halda skrá yfir starfandi lánastofnanir og útibú þeirra. Í skránni skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar um hlutaðeigandi stofnun. Allar breytingar á áður skráðum upplýsingum, þar á meðal fjölgun eða fækkun útibúa, skulu tilkynntar bankaeftirlitinu fyrir fram.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


19. gr.


    Starfandi lánastofnunum við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það hlutafé sem mælt er fyrir um í 5. gr. er heimilt að halda áfram starfsemi sinni, enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laganna. Nú fer eigið fé niður fyrir framangreind mörk og er þá bankaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeignandi stofnun hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli stofnunin ekki skilyrðin um eigið fé að liðnum veittum fresti skal starfsleyfi hennar afturkallað samkvæmt ákvæðum II. kafla, sbr. ákvæði XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Yfirtaki nýir aðilar starfsemi lánastofnunar, sem starfar skv. 1. mgr., skal eigið fé stofnunarinnar hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 1. eða 2. mgr. 5. gr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.

20. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. falla Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna ekki undir ákvæði laga þessara.

21. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

22. gr.


    Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum greiðist af hlutaðeigandi lánastofnun.

23. gr.


    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

24. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirtalin lög og lagaákvæði:
1.    Lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi.
2.    2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4.–9. gr. laga nr. 48/1966, um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóð).
3.    2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4.–9. gr. laga nr. 45/1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    
Lánastofnanir, sem falla undir skilgreiningu laga þessara og starfandi eru við gildistöku þeirra, skulu hafa aðlagað starfsemi sína ákvæðum laganna eigi síðar en 1. janúar 1995. Þar til sú aðlögun hefur farið fram er þeim óheimilt að opna útibú eða bjóða fram þjónustu sína í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ekki skylt að breyta félagsformi lánastofnunar, sem starfandi er við gildistöku laga þessara, í hlutafélag. Starfandi lánastofnun, sem breytt er í hlutafélag og skattlögð hefur verið samkvæmt lögum um skattskyldu innlánsstofnana, skal skattlögð þannig áfram.

II.


    
Til og með 31. desember 1995 gilda ákvæði laga þessara um stjórnun og starfsemi, sbr. III. kafla, ekki um Iðnþróunarsjóð að því leyti er fer í bága við ákvæði samnings ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs sem gerður var í Reykjavík 12. desember 1969 og ákvæði laga nr. 9/1970 um staðfestingu á þeim samningi. Þangað til er sjóðnum óheimilt að opna útibú eða bjóða fram þjónustu sína í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarpið var flutt á 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt.

1. Reglur Evrópubandalagsins um lánastofnanir.
    
Evrópubandalagið hefur í tilskipunum sett ítarlegar reglur um stofnun og starfsemi lánastofnana (e. credit institutions). Með lánastofnunum er átt við félög og stofnanir sem veita lán í eigin nafni og fjármagna starfsemi sína með innlánum eða útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldbindingum til almennings. Jafnframt er þeim heimil ýmiss konar fjármálaþjónusta önnur, svo sem fjármögnunarleiga, greiðslumiðlun, útgáfa greiðslukorta og ferðatékka, veiting ábyrgða og trygginga, viðskipti með verðbréf og erlendan gjaldeyri fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini, þátttaka í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipti tengd slíkum útboðum, varsla og ávöxtun verðbréfa og ráðgjöf. Hér er því um að ræða alhliða fjármálafyrirtæki.
     Með þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði skuldbindur Ísland sig til að lögfesta sams konar reglur um lánastofnanir og gilda innan Evrópubandalagsins. Helstu tilskipanir Evrópubandalagsins á þessu sviði eru:
     Tilskipun 77/1980/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um stofnun og rekstur lánastofnana.
     Tilskipun 89/646/EBE um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um stofnun og rekstur lánastofnana og um breytingu á tilskipun 77/1980/EBE.
     Tilskipun 83/350/EBE um eftirlit með lánastofnunum á samstæðugrundvelli.
     Tilskipun 89/299/EBE um eigið fé lánastofnana.
     Tilskipun 89/647/EBE um eiginfjárhlutfall lánastofnana.
     Tilskipun 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana.
     Tilskipun 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð.
     Tilskipun 92/121/EBE um stórar áhættur lánastofnana.
     Samkvæmt skilgreiningum Evrópubandalagsins eru seðlabankar undanþegnir reglum um lánastofnanir, svo og póstgíróstofur og félög og stofnanir sem aðildarríkin óska sérstaklega eftir að verði undanþegin reglunum vegna eðlis starfsemi þeirra. Dæmi um slíkar stofnanir eru íbúðalánasjóðir.

2. Aðlögun innlendrar löggjafar að ákvæðum EES-samningsins.
    
Skipta má lánastofnunum í tvo meginflokka. Annars vegar lánastofnanir sem heimild hafa til að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þessar stofnanir kallast innlánsstofnanir og til þeirra teljast hér á landi viðskiptabankar og sparisjóðir, auk þeirra hafa innlánsdeildir samvinnufélaga, Póstgíróstofan og Lánastofnun sparisjóðanna hf. tekið við innlánum. Hinn meginflokkur lánastofnana er stofnanir sem ekki fjármagna starfsemi með innlánum frá almenningi heldur útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Helstu dæmi um slíkar stofnanir hér á landi eru sjóðir sem veita svokölluð stofnlán eða fjárfestingarlán og eignarleigufyrirtæki.
     Vegna eðlis innlánsstofnana var ákveðið að við aðlögun á gildandi löggjöf hér á landi að ákvæðum EES-samningsins skyldu sett um þær sérstök lög. Frumvarp til laga um viðskiptabanka og sparisjóði var lagt fram og samþykkt á 116. löggjafarþingi og tóku ný lög gildi 1. júlí 1993. Samhliða frumvarpi til þeirra laga var lagt fram frumvarp til laga um allar aðrar lánastofnanir. Það náði hins vegar ekki fram að ganga og er því lagt fram að nýju.

3. Stofnanir hér á landi sem stunda lánastarfsemi.
    
Þegar hefur komið fram að skipta má stofnunum sem veita útlán hér á landi í tvo meginflokka: innlánsstofnanir og hins vegar allar aðrar lánastofnanir. Helstu stofnanir og sjóðir sem hér um ræðir eru:
     Innlánsstofnanir. Til innlánsstofnana teljast þrír viðskiptabankar og 31 sparisjóður. Einnig teljast Póstgíróstofan og Lánastofnun sparisjóðanna hf. til innlánsstofnana. Þá hafa innlánsdeildir samvinnufélaga tekið við innlánum.
     Fjárfestingarlánasjóðir. Samkvæmt flokkun Seðlabanka Íslands eru starfandi fjárfestingarlánasjóðir þessir: Byggðastofnun, Byggingarsjóður ríkisins og veðdeild Landsbanka Íslands, Byggingarsjóður verkamanna, Ferðamálasjóður, Fiskveiðasjóður Íslands, Framkvæmdasjóður Íslands (hefur hætt útlánum), Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður, Landflutningasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Stofnlánadeild samvinnufélaga, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóður) og veðdeild Búnaðarbanka Íslands (lög nr. 34/1979, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands voru felld úr gildi með lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði).
                  Allar þessar stofnanir og sjóðir hafa verið settar á stofn með sérstökum lögum. Í meginatriðum skiptast sjóðirnir í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða fjárfestingarlánasjóði sem hið opinbera starfrækir til að sinna sérstökum samfélagslegum verkefnum. Dæmi um sjóði af því tagi eru Byggðastofnun, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna og Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Hins vegar er um að ræða fjárfestingarlánasjóði sem tengjast ákveðnum atvinnugreinum. Dæmi um slíka sjóði eru Ferðamálasjóður, Fiskveiðasjóður Íslands og Iðnlánasjóður. Sjóðir í þessum flokki hafa það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og umbótum í hinum ýmsu atvinnugreinum með því að lána fé til fjárfestingar, veita styrki og fjárfesta í eigin fé fyrirtækja. Mörgum þessara sjóða hafa verið tryggðar tekjur af sérstökum álögum á viðkomandi atvinnugrein eða lögbundin framlög í fjárlögum. Hin síðari ár hafa hins vegar lögbundin framlög í fjárlögum ýmist verið skert verulega eða felld algerlega niður.
                  Núorðið eru flest lán þessara sjóða á eðlilegum markaðskjörum, enda fjármagna þeir starfsemi sína að langmestu leyti með lántökum á almennum markaði, ýmist innan lands eða utan.
     Aðrir lánasjóðir. Hér er ýmist um að ræða opinbera sjóði og sjóði í einkaeigu. Þeir gegna svipuðu hlutverki og þeir sjóðir sem taldir eru upp í b-lið, þ.e. að veita lán til ýmiss konar fjárfestinga og framkvæmda á tilteknum sviðum. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á sjóðum í þessum flokki en hér skal þeirra helstu getið:
                   Sjóðir stofnaðir með lögum: Bjargráðasjóður, Fiskræktarsjóður, Framkvæmdasjóður aldraðra, Framkvæmdasjóður fatlaðra, Hafnabótasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna, Orkusjóður, Stofnfjársjóður fiskiskipa, Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa og Útflutningslánasjóður.
                   Aðrir sjóðir: Fjárfestingarlánasjóður stórkaupmanna, Almenni stofnlánasjóðurinn (á vegum Kaupmannasamtaka Íslands), Stofnlánasjóður matvörukaupmanna, Stofnlánasjóður skó- og vefnaðarvörukaupamanna og Stofnlánasjóður raftækjasala.
     Eignarleigufyrirtæki. Hér er um að ræða nokkur fyrirtæki sem stofnuð hafa verið á grundvelli laga nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi. Auk eignarleigustarfsemi, eins og hún er skilgreind í lögunum, er þessum fyrirtækjum heimilt að hafa með höndum skylda starfsemi á sviði fjármálaþjónustu, þó ekki verðbréfamiðlun eða rekstur verðbréfasjóðs.
    Af þessari upptalningu er ljóst að hér á landi starfa fjölmargar stofnanir sem veita lán. Nokkrar þeirra falla þó utan við skilgreiningu EES-samningsins á lánastofnun vegna þess að þeim er ekki heimilt að afla fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Dæmi um slíkar stofnanir eru Fiskræktarsjóður, Framkvæmdasjóður aldraðra, Framkvæmdasjóður fatlaðra, Stofnfjársjóður fiskiskipa og Útflutningslánasjóður. Aðrar stofnanir falla strangt til tekið undir skilgreininguna vegna ákvæða í lögum, sem um þær gilda, um að þær geti aflað sér fjár með lántökum þótt þær hafi kosið að afla ekki lánsfjár með útgáfu skuldabréfa til almennings. Dæmi um stofnanir af þessu tagi eru Bjargráðasjóður, Hafnabótasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Orkusjóður.
     Loks skal þess getið að í viðauka IX við EES-samninginn, þar sem fjallað er um fjármálaþjónustu, er kveðið á um að byggingarsjóðir ríkisins séu undanþegnir ákvæðum samningsins um lánastofnanir. Allar aðrar lánastofnanir hér á landi falla hins vegar undir ákvæði hans.

4. Meginefni frumvarpsins.
    
Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði almennar reglur um starfsemi lánastofnana, annarra en viðskiptabanka og sparisjóða.
     Hugtakið lánastofnun er skilgreint þannig í 2. gr. frumvarpsins: „Með lánastofnun er í lögum þessum átt við félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér, eða hafa heimild í lögum eða samþykktum til þess að afla sér, í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, sbr. þó 9. gr.“ Í 9. gr. er tekið fram að eignarleigufyrirtæki falli í öllum tilvikum undir ákvæði frumvarpsins, óháð því hvernig þau afla fjár til starfsemi þeirra. Þótti þetta nauðsynlegt þar sem nú þegar eru í gildi lög um eignarleigustarfsemi sem taka til allra eignarleigufyrirtækja hér á landi, en í frumvarpi þessu er lagt til að þau falli úr gildi.
     Í skilgreiningunni á lánastofnun felst að til lánastofnana teljast öll félög og stofnanir hér á landi sem hafa heimild í lögum eða samþykktum til að veita lán í eigin nafni og afla til þess fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Þetta þýðir með öðrum orðum að félög og stofnanir, sem annaðhvort hafa ekki heimild til lántöku og fjármagna starfsemi sína t.d. með framlögum í fjárlögum og ávöxtun eigin fjár eða hafa einungis heimild til að taka lán hjá öðrum lánastofnunum, falla utan skilgreiningarinnar. Þetta á þó ekki við um eignarleigufyrirtæki eins og þegar hefur verið rakið.
     Í frumvarpinu er lagt til að um stofnun, stjórnun, starfsemi, eigið fé, ársreikning, endurskoðun, slit, samruna, starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis og eftirlit með starfsemi lánastofnana gildi sömu ákvæði og fram koma í lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sem samþykkt voru á 116. löggjafarþingi og tóku gildi 1. júlí 1993. Er í frumvarpinu farin sú leið að nefna helstu ákvæði á hverju fyrrgreindra sviða en vísa að öðru leyti til viðkomandi kafla í lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði. Var þessi leið valin með hliðsjón af því að samkvæmt ákvæðum EES-samningsins eiga að gilda sömu reglur um starfsemi allra lánastofnana hvort sem um er að ræða viðskiptabanka og sparisjóði eða aðrar lánastofnanir.
     Í frumvarpinu er lagt til að lánastofnanir verði einungis stofnaðar sem hlutafélög. Ákvæði þetta tekur eingöngu til lánastofnana sem stofnaðar eru eftir gildistöku laganna og kemur ekki í veg fyrir að starfandi lánastofnanir sem lúta öðru félagsformi, geti starfað áfram. Kveðið er á um þetta í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I. Veittur er frestur til 1. janúar 1995 til að aðlaga starfsemi starfandi lánastofnun að ákvæðum laganna og er það í samræmi við þann aðlögunarfrest sem Íslandi er heimill á þessu sviði samkvæmt EES-samningnum. Þó gildir sú regla um aðlögunarfrestinn að hlutaðeigandi stofnun er óheimilt að opna útibú eða veita þjónustu sína í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í sumum tilvikum kann sú leið að verða farin vegna eðlis hlutaðeigandi lánastofnunar að breyta lögum um eða samþykktum fyrir hana á þann veg að hún falli utan gildissviðs laganna. Lánasjóður íslenskra námsmanna og Bjargráðasjóður eru ágæt dæmi um lánastofnanir þar sem þetta gæti komið til álita. Báðir þessir sjóðir sinna samfélagslegum verkefnum og afla sér ekki fjár á almennum markaði þrátt fyrir lagaheimild þar að lútandi.
     Í frumvarpinu kemur fram að viðskiptaráðherra fari með framkvæmd laganna. Í þessu felst að hann fer með málefni er lúta almennt að starfsemi þeirra stofnana sem fjallað er um í frumvarpinu, svo sem leyfisveitingar, eigið fé, ársreikning, endurskoðun og eftirlit. Er það talið eðlilegt þar sem viðskiptaráðherra fer þegar með málefni annarra stofnana á innlendum fjármagns- og lánamarkaði, svo sem Seðlabanka Íslands, viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, verðbréfasjóða og eignarleiga. Í þessu felst hins vegar ekki að viðskiptaráðherra taki við málefnum einstakra lánastofnana af öðrum ráðherrum þegar um er að ræða lánasjóði í eigu ríkissjóðs, t.d. eins og Fiskveiðasjóð Íslands og Landflutningasjóð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


     Í kaflanum eru tvær greinar, 1. og 2. gr., og í þeim er gildissvið frumvarpsins ákveðið.
Það tekur til lánastofnana, annarra en viðskiptabanka og sparisjóða. Um er að ræða félög og stofnanir sem veita lán í eigin nafni og afla sér í því sambandi fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Með vísun til 9. gr. er þó gerð sú undantekning að ein tegund lánastofnana, þ.e. eignarleigufyrirtæki, fellur ávallt undir gildissvið frumvarpsins óháð því hvernig fjármögnun þeirra er háttað. Skilgreininguna ber að túlka þannig að undir hana falli allar stofnanir og félög sem hafa til þess heimild í lögum og samþykktum að afla sér fjár með þeim hætti sem tilgreindur er í skilgreiningunni, þó svo að þær nýti sér ekki og hafi jafnvel aldrei nýtt sér þá heimild heldur afli fjár með öðrum hætti, t.d. framlögum úr ríkissjóði, tekjum af mörkuðum tekjustofni eða beinum lántökum hjá ríkissjóð eða öðrum stofnunum og félögum.
     Í lokamálsgrein 2. gr. er tekið fram til að taka af allan vafa að lánastofnunum er óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Er það í samræmi við einkarétt til þeirrar starfsemi sem viðskiptabönkum og sparisjóðum er veittur í lögum um þær stofnanir.

Um II. kafla.


     Í kaflanum eru fjórar greinar, 3.–6. gr. Í þeim er kveðið á um stofnun og starfsleyfi lánastofnana. Fyrirmyndin að greinunum er sótt til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
Í frumvarpi til þeirra laga var að finna ítarlegar athugasemdir við hliðstæðar greinar.
Lagt er til að lánastofnanir verði einungis stofnaðar sem hlutafélög. Er það í samræmi við þró
un síðustu ára en þegar sett hafa verið almenn lög um nýjar stofnanir á fjármagnsmarkaði hefur sú leið verið farin að krefjast þess að þær væru stofnaðar sem hlutafélög. Nægir í því sambandi að nefna verðbréfafyrirtæki og eignarleigur. Þá má benda á áform ríkisstjórnarinnar um að breyta ríkisviðskiptabönkunum tveimur í hlutafélagsbanka.
     Í ákvæðum kaflans felst ekki að skylt sé að breyta starfandi lánastofnunum ríkisins í hlutafélög, sbr. einnig 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þeim verði breytt í hlutafélög.
     Í 5. gr. er kveðið á um lágmarkshlutafé í lánastofnun, bæði við stofnun og ávallt síðar. Lagt er til að það verði 400 milljónir króna og að fjárhæðin breytist í samræmi við breytingar á kaupgengi ecu frá útgáfudegi laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Er þetta gert til að tryggja fullkomið samræmi milli þessara laga. Er þessi lágmarksfjárhæð í samræmi við ákvæði í reglum Evrópubandalagsins á þessu sviði sem er 5 milljónir ecu.
     Í reglum Evrópubandalagsins er stjórnvöldum heimilað að lækka fyrrnefnda lágmarksfjárhæð fyrir tilteknar tegundir lánastofnana en þó aldrei niður fyrir 1 milljón ecu. Í 2. mgr. 5. gr. er lagt til að þessi heimild verði nýtt og lágmarkshlutafé eignarleigufyrirtækja ákveðið 80 milljónir króna. Er þetta einkum gert í ljósi ákvæða í 8. gr. frumvarpsins um að meginstarfsemi eignarleigufyrirtækja sé takmörkuð við eignarleigu. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum núgildandi laga nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, en í þeim er kveðið á um 10 milljóna króna hlutafé.
     Í lokagrein kaflans er kveðið á um að um stofnun lánastofnunar fari að öðru leyti eftir ákvæðum um stofnun hlutafélagsbanka í II. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Í frumvarpi til þeirra laga var að finna ítarlegar athugasemdir við þær greinar sem lúta að stofnun hlutafélagsbanka og vísast til þeirra um frekari skýringar á ákvæðum kaflans.

Um III. kafla.


     Í kaflanum eru þrjár greinar, 7.–9. gr. Í 7. gr. er fjallað um stjórnun, í 8. gr. almennt um starfsemi lánastofnana og í 9. gr. um starfsemi eignarleigufyrirtækja sem er ein tegund lánastofnana.

Um 7. gr.


    Í 1. og 2. mgr. er kveðið á um að hlutahafafundur fari með æðsta vald í málefnum lánastofnunar samkvæmt því sem lög og samþykktir stofnunarinnar ákveða. Er það í samræmi við ákvæði laga um hlutverk hluthafafunda. Jafnframt er tilgreint að stjórn stofnunarinnar skuli kjörin af hluthöfum á aðalfundi, að hún fari með málefni félagsins milli hluthafafunda og að hún skuli skipuð þremur mönnum hið fæsta. Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði er gert ráð fyrir að stjórn hlutafélagsbanka (bankaráð) sé skipuð fimm mönnum hið fæsta. Í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 9/1993, er gert ráð fyrir að stjórnarmenn verðbréfafyrirtækis séu að minnsta kosti þrír.
     Í 3. mgr. er kveðið á um ráðningu framkvæmdastjóra og á þetta ákvæði að sjálfsögðu bæði við um nýjar stofnanir sem stofnaðar verða á grundvelli laganna og starfandi lánastofnanir.
     Loks er í 4. mgr. tekið fram að um stjórnendur og stjórnun lánastofnunar gildi að öðru leyti sameiginleg ákvæði um stjórn ríkisviðskiptabanka, hlutafélagsbanka og sparisjóða í IV. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Í þeim kafla er m.a. að finna ákvæði um búsetu- og hæfisskilyrði daglegs stjórnanda. Hann skal vera fjárráða, hafa óflekkað mannorð og aldrei hafa verið sviptur búi sínu. Þá skal menntun hans eða starfsreynsla og starfsferill vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti sinnt störfum sínum á forsvaranlegan hátt. Þá er daglegum stjórnanda óheimilt að sitja í stjórn annarrar lánastofnunar. Í kaflanum er einnig kveðið á um helstu verkefni stjórnar, fundi stjórnar og lögmæti þeirra. Einnig er þar að finna bann við setu daglegs stjórnanda í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan eigin stofnunar eða þátttöku í atvinnurekstri að öðru leyti nema lög kveði á um að um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem hlutaðeigandi stofnun á aðild að. Loks er í kaflanum kveðið á um þagnarskyldu stjórnenda og starfsmanna.

Um 8. gr.


    Í greininni kemur fram í hverju starfsemi lánastofnunar felst. Eins og þegar hefur komið fram felst hún í því að veita lán í eigin nafni og afla sér í því sambandi fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Henni er einnig heimilt að veita þjónustu sem er í eðlilegum tengslum við slíka lánastarfsemi. Starfssvið lánastofnana er í greininni sundurliðað í þrettán þætti. Þar er um að ræða sömu þætti og teljast til starfssviðs viðskiptabanka og sparisjóða. Eini munurinn á starfssviði þessara stofnana er sá að viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að taka við innlánum frá almenningi en öðrum lánastofnunum ekki. Að öðru leyti getur starfsemi þeirra verið sú sama. Af liðunum þrettán má ráða að lánastofnanir geta verið alhliða fjármálastofnanir og veitt fjölbreytilega þjónustu, mun fjölbreyttari en allir starfandi lánasjóðir hér á landi geta samkvæmt gildandi lögum.
     Í lokamálslið 1. mgr. er tekið fram að um verðbréfaviðskipti lánastofnana gildi eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti. Í þeim eru m.a. ákvæði um tryggingarskyldu verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja og innherjaviðskipti og ákveðnar hæfiskröfur gerðar til verðbréfamiðlara og framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækja. Þykir eðlilegt að ákvæði af þessu tagi nái til verðbréfaviðskipta lánastofnana og fyrirsvarsmanna slíkra viðskipta innan lánastofnana.
     Í 2. mgr. er lagt til að lánastofnunum verði heimilað að stunda vátryggingastarfsemi en einungis með stofnun dótturfyrirtækis. Er þetta í samræmi við þróun víða erlendis þar sem skilin milli hefðbundinnar fjármálaþjónustu og tryggingastarfsemi hafa verið að hverfa. Endurspeglast þetta í reglum Evrópubandalagsins.
     Í 3. mgr. er kveðið á um að lánastofnanir geti stundað aðra starfsemi en þá sem um ræðir í 1. mgr. enda sé þar um að ræða hliðarstarfsemi í eðlilegum tengslum við meginstarfsemi þeirra. Megintilgangurinn með ákvæði af þessu tagi er sá að auðvelda lánastofnunum að laga sig að breyttum markaðsaðstæðum og breyttum kröfum eða þörfum viðskipamanna sinna. Tekið er fram að samþykki bankaeftirlitsins þurfi til þessarar starfsemi og að bankaeftirlitið geti jafnframt ákveðið að hún skuli stunduð í sérstöku félagi.
     Loks er í greininni tekið fram að um starfsemi lánastofnana fari að öðru leyti eftir ákvæðum V. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Undanskilin eru að sjálfsögðu ákvæði þess kafla um innlánsreikninga og innlánsskilríki. Í kaflanum koma m.a. fram ákvæði um yfirtöku eigna, heimild til að stunda tímabundið aðra starfsemi en meginstarfsemi hlutaðeigandi stofnunar, heimild til að eignast eða taka að veði eignarhluti í einstökum fyrirtækjum sem ekki teljast til lánastofnana, veitingu lána og ábyrgða til daglegra stjórnenda hlutaðeigandi stofnana, hámark á verðmæti fasteigna og hluta í félögum um fasteignir og bann við samráði við ákvörðun um vexti og þjónustugjöld. Í frumvarpi til laga um viðskiptabanka og sparisjóði voru ítarlegar athugasemdir um öll þessi atriði.

Um 9. gr.


    Í greininni er fjallað um eignarleigufyrirtæki en þau eru ein tegund lánastofnana. Ólíkt öðrum lánastofnunum, sem falla undir gildissvið frumvarpsins eru þegar í gildi almenn lög um starfsemi eignarleigufyrirtækja, lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi. Í þeim er eignarleiga skilgreind með sama hætti og í þessari grein. Jafnframt eru í þeim lögum skilgreiningar um mismunandi flokka eignarleigu og þau atriði sem fjallað skal um í eignarleigusamningum. Ákvæði af því tagi þóttu nauðsynleg þegar lögin voru sett á sínum tíma og þessi starfsemi að festast í sessi hér á landi. Síðan hefur hún verið í nokkuð föstum skorðum og ekki eins mikil nauðsyn á að lögbinda ákvæði af þessu tagi. Því er lagt til að ráðherra geti að tillögu bankaeftirlitsins sett reglur um þessi atriði. Í lögunum frá 1989 eru jafnframt ákvæði um stofnun eignarleigufyrirtækja og lágmarkshlutafé. Um þessi atriði er fjallað í II. kafla frumvarpsins.

Um IV. kafla.


     Í kaflanum eru þrjár greinar, 10.–12. gr. Í þeim er fjallað um eigið fé lánastofnana, ársreikning, endurskoðun, samstæðureikningsskil, slit og samruna við aðrar stofnanir. Lagt er til að nákvæmlega sömu ákvæði gildi um þessi atriði og í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Í frumvarpi til þeirra laga var að finna ítarlegar athugasemdir við þær greinar sem um þessi atriði fjalla. Í 10. gr. er tekið fram að ákvæði laga um laust fé viðskiptabanka og sparisjóða gildi ekki um aðrar lánastofnanir heldur fari þar samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands. Í frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands, sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi, eru ákvæði sem heimila Seðlabankanum að setja reglur um laust fé lánastofnana. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana. Eðlilegt má telja að aðrar reglur gildi um viðskiptabanka og sparisjóði sem geta þurft að mæta óvæntum úttektum innlánsfjár en aðrar lánastofnanir sem ekki hafa heimild til að taka við innlánum.

Um V. kafla.


     Í kaflanum er kveðið á um starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis. Í kaflanum eru tvær greinar, 13. og 14. gr.
     Innan Evrópska efnahagssvæðisins munu gilda meginreglurnar tvær um starfsemi lánastofnana utan heimaríkis:
    Starfsleyfi, sem gefið er út í heimaríki stofnunarinnar, gildir einnig í öðrum ríkjum innan svæðisins. Á grundvelli þess er stofnun heimilt að opna útibú utan heimaríkisins eða veita þjónustu þar án þess að opna útibú. Stofnun þarf hins vegar að tilkynna eftirlitsaðila í heimaríki sínu um þessa fyrirætlan. Þegar um er að ræða opnum útibús tilkynnir eftirlitsaðilinn þessa fyrirætlan til eftirlitsaðila í gistiríkinu. Eftirlitsaðilinn í heimaríkinu getur hafnað að tilkynna um stofnun útibús til fyrirhugaðs gistiríkis ef hann hefur ástæðu til að ætla að stjórnunarleg uppbygging og fjárhagsstaða hlutaðeigandi stofnunar sé nægilega traust til að réttlæta stofnun útibús.
    Eftirlit með starfsemi stofnunar, þar með talið útibúa í öðrum ríkjum, er í höndum eftirlitsaðila í heimaríki stofnunarinnar.
     Um fyrri atriðið er fjallað í 13. og 14. gr. frumvarpsins og jafnframt vísað til ákvæða XI. og XII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga var gerð ítarleg grein fyrir þeim ákvæðum sem fjalla um starfsemi erlendra stofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis.

Um VI. kafla.


     Í kaflanum eru fjórar greinar, 15.–18. gr. Ákvæði kaflans er samhljóða ákvæðum í hliðstæðum kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Í frumvarpi til þeirra laga voru ítarlegar athugasemdir við ákvæði kaflans.

Um VII. kafla.


     Í kaflanum eru ýmis ákvæði í sjö greinum, 19.–24. gr.

Um 19. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við heimildir í tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði. Með 1. mgr. er tekið tillit til þeirra stofnana sem þegar eru starfandi við gildistöku laganna en uppfylla ekki lágmarkskröfur 1. eða 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, enda er það ekki ætlunin að þvinga minni stofnanir til að hætta starfsemi sinni. Viðmiðun ákvæðisins er eigið fé hlutaðeigandi stofnunar og er ekki ætlast til að það fari niður fyrir þau mörk síðar. Lækki eigið fé frá því sem mælt er fyrir um í ákvæðinu er bankaeftirlitinu heimilt, en ekki skylt, að veita hæfilegan frest til úrbóta. Dugi slíkur frestur ekki skal slíta hlutaðeigandi stofnun.
     Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ákvæði um samruna stofnana í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði gildi einnig um lánastofnanir. Af því leiðir að ákvæði 73. gr. þeirra laga, þar sem kveðið er á um lágmark eigin fjár við samruna tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða, á einnig við um aðrar lánastofnanir. Í henni kemur fram að eigið fé eftir samruna má ekki vera lægra en samanlagt eigið fé hlutaðeigandi stofnana á þeim tíma sem samruni átti sér stað, enda hafi lágmarksfjárhæðinni, sem tilskilin er við stofnun nýrrar stofnunar, ekki verið náð.

Um 20. gr.


    Í IX. viðauka við EES-samninginn er kveðið á um að byggingarsjóðir ríkisins á Íslandi séu undanþegnir ákvæðum fyrstu og annarrar tilskipunar ráðsins um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um stofnun og rekstur lánastofnana. Undanþágan var fengin á þeirri forsendu að um væri að ræða opinbera lánasjóði sem gegndu ákveðnu samfélagslegu hlutverki en ólíkt ýmsum öðrum sjóðum af svipuðu tagi hér á landi afla þeir verulegs fjármagns á almennum markaði með útgáfu skuldabréfa. Því er í þessari grein lagt til að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði undanþegnir ákvæðum frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Eðlilegt þykir að hlutaðeigandi lánastofnun greiði þann kostnað sem hlýst af birtingu tilkynninga samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 24. gr.


    Hér er lagt til að við gildistöku laganna falli úr gildi lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, enda er kveðið á um starfsemi eignarleigufyrirtækja í frumvarpi þessu.
     Þá er lagt til að ýmsar breytingar verði gerðar á lögum um Verslunarlánasjóð og Stofnlánadeild samvinnufélaga. Sá fyrrnefndi var lengst af starfræktur sem sérsök deild innan Verslunarbanka Íslands hf., síðan sem sjálfstæður sjóður eftir að Verslunarbankinn sameinaðist öðrum bönkum í Íslandsbanka hf. og loks sem sjálfstæð deild innan Íslandsbanka hf. eftir að bankinn keypti sjóðinn í desember 1991 af Eignarhaldsfélagi Verslunarbankans hf. Stofnlánadeild samvinnufélaga var lengst af starfrækt sem sérstök deild innan Samvinnubanka Íslands hf. Sjóðurinn komst í eigu Landsbanka Íslands eftir að hann eignaðist Samvinnubankann árið 1990. Uppi hafa verið hugmyndir um að stofna sérstakt félag um rekstur Verslunarlánasjóðs og hætta starfsemi Stofnlánasjóðs samvinnufélaga en þeim hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Því er hér lagt til að ákvæði gildandi laga um sjóðina verði rýmkuð þannig að starfssvið þeirra verði ekki lengur bundið við ákveðin svið atvinnulífsins, annars vegar verslun og hins vegar samvinnufyrirtæki. Jafnframt er lagt til að niður falli ýmis úrelt ákvæði er lúta að starfsemi þeirra og atriði sem kveðið er á um með almennum hætti í frumvarpi þessu.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


     Samkvæmt ákvæðinu er starfandi lánastofnunum, þar með töldum eignarleigufyrirtækjum, gefinn frestur til 1. janúar 1995 til að aðlaga starfsemi sína ákvæðum frumvarpsins. Þetta gildir um allar lánastofnanir sem falla undir skilgreiningu frumvarpsins og gildir þá einu hvort um þær gilda nú sérstök lög, eins og um lánasjóði í eigu ríkisins, eða ekki. Rétt er að undirstrika að ekki er sjálfgefið að allar starfandi lánastofnanir eigi að hafa heimild til að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings og falla þar með undir gildissvið frumvarpsins. Dæmi um stofnanir, sem ýmis rök mæla með að falli utan gildissviðs laganna vegna eðlis starfsemi þeirra, eru Bjargráðasjóður, Byggðastofnun, Hafnabótasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Orkusjóður. Í stað þess að stofnanirnar hafi heimild til að gefa út skuldabréf á almennum markaði gæti verið eðlilegra að eigandi þeirra útvegaði þeim sjálfur fjármagn í fjárlögum eða með endurlánum eða að þær tækju einungis lán hjá öðrum lánastofnunum. Þetta verður að vega og meta fyrir hverja lánastofnun.
     Í IX. viðauka við EES-samninginn er Íslandi veittur aðlögunarfrestur til 1. janúar 1995 að fyrstu og annarri tilskipun ráðsins um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um stofnun og rekstur lánastofnana. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I er lagt til að fresturinn verði nýttur að fullu. Í samræmi við ákvæði í IX. viðauka við EES-samninginn er íslenskum lánastofnunum óheimilt að starfa í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þar til starfsemi þeirra hefur verið aðlöguð ákvæðum frumvarpsins.
     Í 2. mgr. er tekið fram í því skyni að taka af allan vafa að ekki sé skylt að breyta lánastofnun sem starfandi er við gildistöku laganna í hlutafélag. Með ákvæðinu er þó alls ekki girt fyrir þann möguleika að starfandi lánastofnun verði breytt í hlutafélag.
     Á yfirstandandi þingi verður lagt fram að nýju frumvarp til laga um Íslenska fjárfestingarbankann hf. sem lagt var fram til kynningar á 116. löggjafarþingi. Í því er kveðið á um stofnun hlutafélags um rekstur Iðnlánasjóðs og samruna Iðnþróunarsjóðs við bankann eftir að sá síðarnefndi kemst að fullu í eigu íslenska ríkisins. Ákvæði frumvarpsins um Íslenska fjárfestingarbankann hf. eru í fullu samræmi við ákvæði þessa frumvarps.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Iðnþróunarsjóður er í eigu ríkissjóða Norðurlandanna. Á undanförnum árum hefur stofnframlag annarra Norðurlanda verið endurgreitt samkvæmt ákvæði í stofnsamningi. Endurgreiðslum lýkur á árinu 1995 og þá kemst sjóðurinn alfarið í eigu Íslendinga. Á síðasta ári var kannað hvort ríkisstjórnir annarra Norðurlanda hefðu áhuga á að breyta stofnsamningnum til að afnema ríkisábyrgð á sjóðnum. Svo reyndist ekki vera, fyrst og fremst vegna þess hversu þungt það er í vöfum að breyta samningi af þessu tagi en það krefst staðfestingar allra þjóðþinganna fimm. Í ljósi þess hversu stutt er þangað til sjóðurinn kemst í eigu Íslendinga þótti ekki taka því. Því er lagt til að ákvæði frumvarps þessa gildi ekki um stjórnun og starfsemi Iðnþróunarsjóðs að því marki sem þau kunna að brjóta í bága við ákvæði stofnsamningsins. Hins vegar gilda að sjálfsögðu önnur ákvæði frumvarpsins, svo sem um eiginfjárhlutfall, ársreikning, endurskoðun og eftirlit, um sjóðinn.
     Með frumvarpi til laga um Íslenska fjárfestingarbankann hf. sem lagt var fram til kynningar á 116. löggjafarþingi og verður endurflutt á yfirstandandi þingi er gert ráð fyrir að bankinn annist rekstur Iðnþróunarsjóðs þar til sjóðurinn kemst að fullu í eigu íslenska ríkisins. Eftir það er gert ráð fyrir að Iðnþróunarsjóður sameinist bankanum. Ákvæði frumvarpsins um Íslenska fjárfestingarbankann hf. eru í fullu samræmi við ákvæði þessa frumvarps.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að setja heildstæða löggjöf er nær til allra lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða. Lánastofnun er skilgreind sem félag eða stofnun sem lánar í eigin nafni og aflar sér fjár með skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, sjá 2. gr. Lánastofnun er óheimilt að taka við innlánum frá almenningi þannig að skýr aðskilnaður er í þessu tilliti milli banka og lánastofnana.
    Með frumvarpinu er þar með náð til starfsemi fjárfestingarlánasjóða, eignarleigufyrirtækja og ýmissa annarra lánastofnana. Skilgreining á hugtakinu lánastofnun nær ekki til lífeyrissjóða þar sem þeir afla sér ekki lánsfjár með útgáfu skuldabréfa. Enn fremur nær það ekki til verðbréfasjóða en um þá gilda sérstök lög.
    Ljóst er að allir lánasjóðir í eigu ríkisins eða með aðild þess munu falla undir lög þessi að undanskildum Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna skv. 20. gr. og Iðnþróunarsjóði til ársloka 1995 samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða II. Samkvæmt 5. gr. verður lánastofnun ekki stofnuð með lægra hlutafé en 400 m.kr. Í skýringum við 5. gr. er þess getið að ekki teljist skylt að breyta starfandi lánastofnunum ríkisins í hlutafélög en hins vegar sé ekkert því til fyrirstöðu samhliða því sem lögum um þá er breytt. Í 19. gr. er starfandi lánastofnunum við gildistöku laganna með eigið fé lægra en það hlutafé sem mælt er fyrir um í 5. gr. heimilað að halda áfram starfsemi sinni enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laganna. Í ákvæði til bráðabirgða I er kveðið svo á að í síðasta lagi fyrir árslok 1994 skuli lánastofnanir sem falla undir skilgreiningu frumvarpsins aðlaga starfsemi sína á þann veg að þær samræmist ákvæðum frumvarpsins.
    Í 10. gr. segir að eigið fé lánastofnunar skuli á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af áhættugrunni. Athugun á reikningum Byggðastofnunar (án atvinnutryggingardeildar sem er með neikvæðan höfuðstól), Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins við árslok 1992 sýnir að allir sjóðirnir geta mætt þessari kröfu. Engin sérstök athugun fór fram á hvort mat á eignum viðkomandi sjóða væri rétt og var stuðst við yfirlýsingar og áritun viðkomandi endurskoðenda sjóðanna og Ríkisendurskoðunar.
    Telja verður að samþykkt frumvarpsins muni ekki hafa annan kostnaðarauka í för með sér en þann sem leiðir af aukinni starfsemi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands sem falið er það hlutverk að hafa eftirlit með viðkomandi lánasjóðum en það hlutverk er ekki á vegum eftirlitsins nú. Mun þessi aukning á skyldum þess ásamt öðrum skyldum sem bætt hefur verið á það með öðrum nýjum lögum verða til þess að starfsfólki við eftirlitið fjölgar en á móti mun störfum fækka í öðrum deildum Seðlabankans þar sem starfsemi hefur dregist saman.
    Frumvarp þetta var flutt á 116. þingi og varð þá ekki útrætt. Það er nú endurflutt með minni háttar breytingum. Ekki er talið að þær breytingar hafi sérstakan kostnaðarauka í för með sér.