Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 139 . mál.


154. Tillaga til þingsályktunar



um nýtingu síldarstofna.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ragnar Arnalds.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu um nýtingu síldarstofna við Ísland.
    Nefndin skal gera tillögur sem miða að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar.

Greinargerð.


    Síldin hefur um langa hríð verið einn af mikilvægustu fiskstofnunum við landið og stundum ráðið úrslitum fyrir afkomu þjóðarinnar.
    Síldveiðar eru nú um stundir ekki miklar en þó fer langstærsti hluti þeirrar síldar, sem leyft er að veiða, til mjölvinnslu. Mikil vinnslugeta liggur nú ónýtt í lokuðum verksmiðjum og vinnslustöðvum sem eru einungis nýttar að hluta. Því væri mögulegt að auka framleiðslu síldarafurða mjög mikið og með litlum fyrirvara.
    Þeir aðilar, sem unnið hafa síld til manneldis, hafa kvartað undan því að þeir fái ekki nægilegt hráefni á stundum til að vinna upp í þá samninga sem fyrir hendi eru. Taka þarf því til athugunar hvort leyfa eigi frjálsar veiðar, jafnvel allt árið, til vinnslu til manneldis og nota innan lands.
    Í ljósi reynslunnar af hömlulausum síldveiðum fyrri ára og affalla við stjórn á nýtingu annarra fiskstofna hlýtur að þurfa að taka til sérstakrar skoðunar hvaða veiðiaðferðir og veiðarfæri beri að leyfa við síldveiðar með það fyrir augum að trufla sem minnst hegðun síldarinnar, m.a. á hrygningarstöðvum.
    Þá ber að taka til athugunar hvort gefa eigi út sérstök leyfi til skipa sem hyggjast vinna síld til manneldis á hafi úti.
    Rússar hafa verið stærstu kaupendur okkar á síldarafurðum. Þeir hafa ítrekað óskað eftir því að fá að kaupa síld beint af veiðiskipum. Þeir hafa m.a. boðist til að greiða síldina með heilfrystum þorski úr Barentshafi. Vitað er að þeir hafa gert samning á undanförnum árum við t.d. Íra, Breta og Kanadamenn um slík viðskipti þar sem þeir hafa jafnframt skuldbundið sig til að kaupa jafnmikið magn unninna síldarafurða og þeir fá að kaupa beint af veiðiskipum. Neysla síldar er mikil í Rússlandi og full ástæða til að endurskoða þessi viðskipti nú. Þá þarf að leita leiða til að auka sölu frystrar stórsíldar sem hátt verð hefur fengist fyrir á Japansmarkaði.
    Nefndin þarf að taka til sérstakrar athugunar hvernig megi undirbúa mikla framleiðsluaukningu á síldarafurðum sem verður ef þær spár rætast að norsk-íslenski síldarstofninn nái þeirri stærð að hann fari á ný að ganga á miðin við Ísland.
    Öll vinna nefndarinnar, sem hér er lagt til að verði sett á stofn, hlýtur að hafa það að markmiði að nýta þá fjölmörgu möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í nýtingu síldarstofnanna við Ísland.
Fylgiskjal.

UPPLÝSINGAR FRÁ SÍLDARÚTVEGSNEFND



Síldveiðar og vinnsla fiskveiðiárið 1992–93.




(Repró, 2 bls.)




Ráðstöfun síldaraflans á vertíðunum 1975 til 1992–93.




(Repró, 1 bls.)





Heildarafli síldveiðiþjóða 1991.


(Í tonnum.)



(Repró, 1 bls.)