Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 140 . mál.


155. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Síðasti málsliður 1. tölul. 3. mgr. C-liðar 69. gr. laganna orðast svo: Vaxtagjöld af lánum annarra íbúða, sem framteljandi kann að eiga, mynda ekki stofn til vaxtabóta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1994 á tekjur ársins 1993 og eignir í lok þess árs.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að íbúðareigendur geti fengið vaxtabætur þótt þeir búi ekki í þeirri íbúð um einhvern tíma sem keypt var til eigin nota og jafnframt kveðið skýrt á um að vaxtabætur eru aðeins greiddar með einni íbúð, þeirri sem ætluð er til eigin nota.
    Í ákvæðum núgildandi laga um vaxtabætur er íbúðarhúsnæði til eigin nota skilgreint þannig að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda sjálfum. Það hefur í för með sér að íbúðareigandi missir vaxtabætur þann tíma sem hann af einhverjum ástæðum dvelst ekki í íbúðinni og á ekki heimili þar og jafnvel leigir hana út.
    Margvíslegar ástæður geta valdið því að íbúðareigandi dvelst ekki í eigin íbúð. Hann getur ákveðið að sækja atvinnu í önnur byggðarlög, verið í námi eða þurft vegna veikinda að flytja heimili sitt þangað sem nauðsynlega læknisþjónustu er að fá, svo fátt eitt sé nefnt.
    Flutningsmanni þykir ekki rétt að íbúðareigandi missi rétt til vaxtabóta við það eitt að búa ekki sjálfur í íbúðinni hvort heldur það er um lengri eða skemmri tíma og er því lagt til að brott falli ákvæði síðasta málsliðar 1. tölul. 3. mgr. C-liðar 69. gr. sem skilgreinir íbúðarhúsnæði til eigin nota þannig „að átt er við að húsnæðið sé nýtt af eiganda þess sjálfum“.
    Við þessa breytingu verða vaxtagjöld, sem vaxtabætur miðast við, ákvörðuð á sama hátt og frádráttarbær vaxtagjöld voru í gildistíð vaxtafrádráttar hjá einstaklingum þar sem skilgreiningunni á íbúðarhúsnæði til eigin nota er breytt til samræmis við það sem gilti fyrir gildistöku laga, nr. 79/1989, um vaxtabætur.
    Vegna þeirrar breytingar, sem að framan er rakin á hugtakinu íbúðarhúsnæði til eigin nota, er nauðsynlegt að setja ákvæði sem tekur af öll tvímæli um það að íbúðareigandi getur ekki fengið vaxtabætur með fleiri en einni íbúð og er því lagt til að málsliðurinn orðist svo sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins.