Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 146 . mál.


162. Tillaga til þingsályktunar



um málefni Héraðsskólans að Núpi.

Flm.: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíð Núpsskóla í Dýrafirði. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar menntamálaráðuneytis og heimamanna. Nefndin skili tillögum fyrir 1. júní 1994.

Greinargerð.


    Rekstur héraðsskóla hefur verið á undanhaldi hin síðari ár. Sú staðreynd að flestir grunnskólar reyna nú að bjóða fram kennslu í efstu bekkjum grunnskólans í heimabyggð hefur valdið því að sífellt fækkar þeim nemendum sem sækja það nám í héraðsskólum. Vegna nemendafæðar var hætt við að reka Héraðsskólann að Núpi sl. skólaár. Ekki var gerð tilraun til þess að taka þann rekstur upp á yfirstandandi skólaári. Staðurinn hefur skipað veglegan sess í skólastarfi í landinu og þar er mikill og góður húsakostur í eigu ríkisins sem stendur ónotaður. Það ætti að vera hagur ríkissjóðs að nýta hann sem best. Því er mikil nauðsyn á að Alþingi láti málið til sín taka og finni skólanum verkefni að nýju. Þar kemur ýmislegt til greina, svo sem skólastarf í nýjum búningi, skólabúðir í einhverju formi, námskeiðahald ýmiss konar eða að leigja aðstöðuna til ferðaþjónustu eða fyrirtækjarekstrar. Það skiptir miklu að nýta þessar eignir og halda þeim við. Það er allra hagur og getur einnig skapað ný atvinnutækifæri.