Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


360. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Falli veiðileyfi skips skv. 1. mgr. þessarar greinar niður má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað enda hafi slíkum rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Er heimilt að veita fleiri en einu skipi veiðileyfi í stað skips er úr flotanum hverfur eða úrelda fleiri en eitt skip í stað skips er í flotann bætist enda sé tryggt að afkastageta fiskiskipaflotans aukist ekki við skiptin. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa.

2. gr.


    Framan við 6. gr. laganna bætast sex nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Bátar minni en 6 brl. sem velja að stunda veiðar með línu og handfærum skv. I. ákvæði til bráðabirgða skulu frá og með fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1994 sæta veiðitakmörkunum eins og kveðið er á um í 2.–6. mgr. þessarar greinar.
    Veiðar skulu bannaðar í desember og janúar sem og í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Veiðar skulu enn fremur bannaðar sjö síðustu daga hvers mánaðar. Falli banndagar þessir saman við banndaga um páska eða verslunarmannahelgi flytjast þeir fram sem því nemur.
    Fiskveiðiárinu skal skipt upp í fjögur veiðitímabil og hámarksafli þessara báta ákveðinn á hverju tímabili. Veiðitímabil eru sem hér segir:
    1. tímabil     1. september til 30. nóvember
    2. tímabil     1. febrúar til 30. apríl
    3. tímabil     1. maí til 30. júní
    4. tímabil     1. júlí til 31. ágúst
    Sameiginlegur hámarksafli þeirra báta er undir þessa grein falla telst á hverju fiskveiðiári meðalafli þeirra í þorskígildum talið á fiskveiðiárunum sem hófust 1. september 1991 og 1. september 1992 og skal honum skipt þannig milli veiðitímabila að á fyrsta tímabil falla 24%, á annað tímabil 11%, á þriðja tímabil 32%, á fjórða tímabil 33%.
    Fari afli á einhverju veiðitímabili fram úr fyrrgreindu hámarki skal banndögum á sama tímabili á næsta fiskveiðiári fjölgað. Í því sambandi skal reikna meðalafla á dag á umræddu veiðitímabili liðins fiskveiðiárs og finna viðbótarbanndaga með því að deila þeirri tölu í viðkomandi umframafla. Skal banndögum fjölgað um heila daga og broti sleppt. Hámarksafli skv. 4. mgr. á viðkomandi tímabili næsta fiskveiðiárs skal lækka sem umframaflanum nemur.
    Viðbótarbanndögum skal bætt framan við mánaðarlega banndaga á viðkomandi tímabili og skipt eins jafnt á mánuðina og unnt er. Skal ráðherra birta auglýsingu um endanlega banndaga hvers nýbyrjaðs fiskveiðiárs jafnskjótt og aflaupplýsingar liggja fyrir, þó ekki síðar en 20. september ár hvert.

3. gr.


    Í stað 4. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna komi ný málsgrein er orðast svo:
    Áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skal draga eftirtalinn afla frá:
    Áætlaðan afla báta er stunda veiðar með línu og handfærum skv. 1.–6. mgr. 6. gr.
    Línuafla í samræmi við 6. mgr. 10. gr. og skal línuaflinn skiptast milli þorsks og ýsu á grundvelli skiptingar á síðasta fiskveiðiári.
    Aflaheimildir sem nota skal til jöfnunar, sbr. 9. gr.

4. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári skulu aflaheimildir af botnfiski, er nema 12.000 þorskígildum í lestum talið, vera til ráðstöfunar til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Skal þessum aflaheimildum skipt milli botnfiskstegunda í hlutfalli við leyfðan heildarafla af einstökum tegundum og verðmætahlutföll sem ráðherra ákveður.
    Veruleg telst breyting í þessu sambandi ef aflaheimildir af einstökum tegundum dragast svo mikið saman að fyrirsjáanlegt er að tekjur þeirra skipa sem háðust eru veiðum af viðkomandi tegund rýrni um meira en 10% milli fiskveiðiára. Skal ráðherra árlega ákveða með reglugerð ráðstöfun þessara heimilda þannig að þær nýtist útgerðum þeirra skipa sem fyrir mestri skerðingu hafa orðið.
    Sé aflaheimildum ekki ráðstafað til uppbóta samkvæmt þessari grein bætast þær við heildaraflamark viðkomandi tegunda og koma til úthlutunar í samræmi við aflahlutdeild einstakra skipa.

5. gr.


    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að flytja allt að 10% af aflamarki hverrar botnfiskstegundar og aflamarki úthafsrækju, humars og síldar frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta.

6. gr.


    1. málsl. 6. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Fiskur, sem veiðist á línu í mánuðunum nóvember, desember, janúar og febrúar, skal aðeins að hálfu talinn til aflamarks þar til sameiginlegur línuafli af þorski og ýsu hefur náð 34.000 lestum miðað við óslægðan fisk.

7. gr.


    Aftan við 11. gr. laganna bætast sjö nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Heimilt er að framselja aflahlutdeild til aðila sem reka vinnslu sjávarafurða hér á landi með þeim skilyrðum og takmörkunum sem nánar er kveðið á um í þessari grein.
    Með vinnslu sjávarafurða er í þessu sambandi átt við vinnslu er fellur undir skilgreiningu 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, enda sé fyrir hendi gilt vinnsluleyfi fyrir viðkomandi starfsemi samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
    Aldrei má framselja aflahlutdeild til vinnslustöðvar sem ekki stundar vinnslu á viðkomandi tegund og aldrei má aflahlutdeild í einstökum tegundum verða hærri en svo að aflamark af þeirri tegund verði meira en sem nam meðaltalsvinnslu viðkomandi tegundar í vinnslustöðinni næstliðin þrjú almanaksár. Botnfiskur telst ein tegund í þessu sambandi.
    Tafarlaust skal leita staðfestingar Fiskistofu á að skilyrðum fyrir flutningi aflahlutdeildar sé fullnægt og öðlast flutningur ekki gildi fyrr en staðfesting Fiskistofu liggur fyrir.
    Aflamark, sem úthlutað er á grundvelli aflahlutdeildar aðila er rekur fiskvinnslu, er heimilt að framselja til skipa er leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni enda hafi það skip sem fært er til aflahlutdeild í þeirri tegund sem framseld er og gildir 2. mgr. 12. gr. um tilkynningu varðandi slíkan flutning. Ekki er heimilt að flytja aflamark til aðila er rekur fiskvinnslu.
    Hætti aðili, sem fengið hefur framselda til sín aflahlutdeild, rekstri eða missi hann vinnsluleyfi fellur aflahlutdeild hans niður og hækkar hlutdeild annarra sem hafa aflahlutdeild í viðkomandi tegund í samræmi við það. Sama gildir um þann hluta aflahlutdeildar viðkomandi aðila sem er umfram meðaltalsvinnslu hans af viðkomandi tegund næstliðin þrjú almanaksár.
    Aðilum gefst þrátt fyrir ákvæði 12. mgr. þriggja mánaða frestur frá því að rekstri er hætt, vinnsluleyfi féll niður eða frá upphafi þess fiskveiðiárs er aflamark fer umfram meðaltalsvinnslu síðustu þriggja ára til að framselja aflahlutdeild sína.

8. gr.


    Aftan við 3. mgr. 12. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Aldrei er heimilt að flytja aflamark milli skipa leiði slíkur flutningur til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.

9. gr.


    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 36/1992, er verður 5. mgr., orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 25% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.

10. gr.


    Aftan við 4. mgr. 12. gr. laganna, er verður 5. mgr., bætist nýr málsliður er verður 3. málsl. og orðast svo:
    Ráðherra er þó heimilt að víkja frá ákvæðum þessarar málsgreinar ef fiskiskipi með leyfi til veiða í atvinnuskyni er haldið til veiða fyrir utan íslenska fiskveiðilögsögu samfleytt í 12 mánuði eða lengur.

11. gr.


    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo:
    Starfsmönnum hafnaryfirvalda er heimill aðgangur að fiskiskipum, flutningsförum, fiskverkunum og birgðageymslum sem nauðsynlegur er til að vigta sjávarafla eða hafa eftirlit með vigtun hans. Hafnaryfirvöld skulu senda Fiskistofu jafnharðan upplýsingar um landaðan afla í því formi sem ráðherra ákveður með reglugerð.

12. gr.


    Orðið „ráðuneytisins“ í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna fellur niður.

13. gr.


    Aftan við 18. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er verða 5.–7. mgr. greinarinnar og orðast svo:
    Fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar milli skipa skal útgerð þess skips sem flutt er frá greiða 1.500 kr.
    Séu fleiri en tíu tilkynningar sendar Fiskistofu um flutning aflamarks frá skipi á sama fiskveiðiárinu skal greiða sérstakt gjald er nema skal 10.000 kr. fyrir hverja tilkynningu sem umfram er.
    Gjald skv. 5. og 6. mgr. er grunngjald er miðast við byggingarvísitölu í janúar 1994 og breytist í hlutfalli við þær breytingar er á henni kunna að verða.

14. gr.


    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Beita skal ákvæðum laga nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, vegna brota gegn þessum lögum eftir því sem við á.

15. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. og 4. gr. laganna koma þó ekki til framkvæmda fyrr en frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 1994, sbr. þó I. og II. bráðabirgðaákvæði.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Útgerðum báta, sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum skv. 6. mgr. II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, gefst fyrir upphaf fiskveiðiársins, er hefst 1. september 1994, kostur á að velja milli aflahlutdeildar eða línu- og handfæraveiða með dagatakmörkunum skv. 1.–6. mgr. 6. gr.
    Hlutdeild einstakra báta í leyfðum heildarafla einstakra botnfiskstegunda skal vera jöfn hlutdeild þeirra í heildarafla viðkomandi tegunda á tímabilinu 1. september 1991 til 31. ágúst 1993. Við mat á þeirri aflareynslu skal einungis tekið tillit til afla en ekki frátafa eða annarra atvika. Skal Fiskistofa birta útgerðum einstakra báta bréflega hvert úthlutað aflamark þeirra hefði orðið á fiskveiðiárinu 1. september 1993 til 31. ágúst 1994 ásamt forsendum fyrir þeirri úthlutun og gefa hæfilegan frest til að koma að athugasemdum.
    Útgerðir skulu tilkynna Fiskistofu fyrir 1. júlí 1994 um val sitt skv. 2. mgr. Berist slíkar tilkynningar ekki í tæka tíð skal úthluta aflamarki til viðkomandi báts.

II.


    Banndagar skv. 2. mgr. 6. gr. taka frá gildistöku laga þessara til veiða þeirra báta sem stundað hafa línu- og handfæraveiðar með dagatakmörkunum skv. 6. mgr. II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í samræmi við ákvæði VII til bráðabirgða við lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skipaði sjávarútvegsráðherra í ágústmánuði árið 1991 nefnd til að endurskoða lögin. Síðastliðið vor kynnti nefndin drög að skýrslu sinni fyrir sjávarútvegsnefnd Alþingis og helstu hagsmunasamtökum í sjávarútvegi. Þá héldu formenn nefndarinnar fjölmarga fundi víða um land þar sem efni skýrslunnar var rætt. Nefndin skilaði síðan áliti sínu með bréfi til sjávarútvegsráðherra hinn 19. maí sl. sem fylgir frumvarpinu sem fskj. I.
    Í skýrslu nefndarinnar eru gerðar tillögur um fjölmarga þætti sem snerta fiskveiðistjórnunina, starfsskilyrði sjávarútvegsins, rannsóknir á sviði sjávarútvegsmála, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Tillögur nefndarinnar er að finna í 2. kafla álitsins sem fylgir frumvarpi þessu sem fskj. II. Þá er í skýrslu nefndarinnar fjallað um ástand og nýtingu fiskstofna, viðskipta- og sjávarútvegssamninga Íslands við önnur ríki, fiskiskipastól landsmanna, fiskvinnslustarfsemina í landinu og afkomumál sjávarútvegsins. Loks er fjallað um stjórn fiskveiða bæði hér á landi og eins hjá öðrum þjóðum.
    Hvað varðar stjórn fiskveiða þá leggur nefndin til að byggt verði á aflamarkskerfinu sem verið hefur í þróun allt frá árinu 1984 og sú aðferð við fiskveiðistjórnun fest í sessi. Telur nefndin að það kerfi við stjórn fiskveiða muni leiða til mestrar hagkvæmni í sjávarútvegi. Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á gildandi lögum. Þær helstu eru að heimilt verði að framselja aflahlutdeild frá fiskiskipum til fiskvinnslustöðva, að aflahlutdeild krókaleyfisbáta verði tvöfölduð frá því sem kveðið er á um í gildandi lögum og allur línuafli í nóvember, desember, janúar og febrúar teljist að fullu til aflamarks og að heimilt verði að veita tveim eða fleiri skipum veiðileyfi í stað skips sem hverfur úr rekstri enda sé samanlögð rúmtala nýju skipanna ekki meiri en rúmtala þess skips sem hverfur úr rekstri.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að farið verði að megintillögum nefndarinnar þótt lagt sé til að vikið verði frá tillögum hennar í nokkrum atriðum.
    Meginatriði frumvarpsins eru:
—    Lagt er til að reglum um endurnýjun fiskiskipa verði breytt. Er annars vegar gerð tillaga um að heimilt verði að hafa fiskiskip, sem veiðileyfi hefur verið flutt af, á innlendri skipaskrá og hins vegar að heimilt verði að veita tveim eða fleiri skipum veiðileyfi í stað eins sem hverfur úr flotanum.
—    Lagt er til að útgerðum báta sem stunda nú krókaveiðar verði heimilt að velja á milli veiðileyfis með aflahlutdeild eða krókaleyfis með banndögum. Jafnframt verði banndögum fjölgað nokkuð frá því sem nú er.
—    Lagt er til að heimilt verði á hverju fiskveiðiári að verja 12.000 þorskígildislestum af botnfiski til að jafna verulega skerðingu í aflaheimildum á milli fiskveiðiára.
—    Lagt er til að flutningur aflaheimilda frá einu fiskveiðiári til þess næsta nemi aldrei meira en 10% af aflamarki í stað 20% samkvæmt gildandi lögum.
—    Lagt er til að sérreglu varðandi línuveiðar yfir vetrarmánuðina verði breytt þannig að þegar samanlagður afli af þorski og ýsu hefur náð 34.000 lestum þá teljist viðbótaraflinn að fullu til aflamarks.
—    Lagt er til að heimilt verði að framselja aflahlutdeild fiskiskips yfir á vinnslustöð enda sé fyrir hendi gilt vinnsluleyfi og viðkomandi aflahlutdeild sé í samræmi við vinnslu viðkomandi stöðvar á næstliðnum þremur árum.
—    Lagt er til að ekki verði heimilt að flytja aflamark til fiskiskips ef sýnt þykir að flutningurinn leiði til þess að aflaheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Þá er lagt til að lagt verði á 10.000 kr. gjald á hverja tilkynningu um flutning aflamarks umfram tíu.
    Í skýrslu nefndarinnar var mælt með því að allir smábátar yrðu teknir inn í aflamarkskerfið. Þegar skýrslan var kynnt varð fljótlega ljóst að mikil andstaða var gegn slíkum aðgerðum og í skilabréfi sínu til sjávarútvegsráðherra bendir nefndin á þann möguleika að koma á banndagakerfi með hámarksafla á einstökum tímabilum þannig að umframafli á einu tímabili leiði til fækkunar róðrardaga á hinu næsta. Ákvarðanir um að allir verði settir undir sama kerfi geta komið misjafnlega við útgerðir smábáta og því er lagt til að þeim verði heimilað að velja milli tveggja kosta. Er lagt til að bátum með krókaleyfi verði gefinn kostur á að velja milli þess að fá úthlutað aflahlutdeild og hlíta þeim reglum sem gilda um aflamarkskerfið eða halda áfram í kerfi sem byggir á krókaleyfum þar sem heildarafli er takmarkaður með banndögum. Með þessu móti gefst hverri útgerð færi á að velja þann kost er best hentar útgerðarháttum hennar.
    Samkvæmt I. bráðabirgðaákvæði gefst einstökum útgerðum kostur á aflahlutdeild í einstökum tegundum sem er jöfn hlutdeild þeirra í heildarafla viðkomandi tegunda á tveim síðustu fiskveiðiárum. Í því skyni að auðvelda valið skal útgerðum allra þessara báta sent yfirlit yfir afla þeirra af hverri kvótabundinni tegund á því tímabili og hvert úthlutað aflamark þeirra hefði orðið á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þá báta sem kjósa áfram að standa utan aflamarkskerfisins eru ákvæði í 2. gr. frumvarpsins. Er þessum bátum einungis heimilt að veiða með línu og handfærum og eru veiðar þeirra takmarkaðar með banndögum líkt og í núgildandi krókakerfi. Föstum banndögum er þó fjölgað nokkuð og verða þeir 146 samkvæmt frumvarpinu í stað 82 samkvæmt gildandi lögum. Felst breytingin í því að banndögum um páska og verslunarmannahelgi fækkar úr tíu í sjö en við er bætt sjö banndögum í lok hvers mánaðar en veiðar verða áfram bannaðar í desember og janúar. Jafnframt er lagt til að fari afli þessara báta samanlagt umfram tiltekinn hámarksafla á einhverju veiðitímabili skuli banndögum fjölgað á sama tímabili á næsta fiskveiðiári. Er árinu í þessu skyni skipt upp í fjögur veiðitímabil; 1. september til 30. nóvember, 1. febrúar til 30. apríl, 1. maí til 30. júní og 1. júlí til 31. ágúst. Miðast hámarksafli við afla þeirra báta er þennan kost velja á tveim síðustu fiskveiðiárum og er honum skipt niður á tímabil í sömu hlutföllum og afli þessara báta skiptist milli tímabilanna síðustu tvö fiskveiðiár.
    Varðandi línuveiðar yfir vetrarmánuðina miðar frumvarpið að því að koma í veg fyrir að aflamark þeirra skipa sem ekki stunda línuveiðar skerðist meira en orðið er vegna línuveiðanna. Miðað er við að meginatriði núgildandi fyrirkomulags haldist. Jafnframt yrði fest í lög að þegar heildarlínuafli í nóvember, desember, janúar og febrúar er orðinn 34 þúsund lestir miðað við óslægðan fisk þá teljist allur viðbótarafli línubáta að fullu til aflamarks.
    Í frumvarpinu eru tvö ákvæði er þrengja möguleika til framsals á aflamarki. Er það í 7. gr. þar sem lagt er til að flutningur aflamarks til skips takmarkist við það sem skipið ræður við að veiða og í 13. gr. þar sem lagt er til að sérstakt 10.000 kr. gjald sé lagt á vegna hverrar tilkynningar um aflamarksflutning frá skipi ef þær eru umfram 10 á ári. Af hálfu sjómanna og samtaka þeirra hefur því verið haldið fram að allnokkur brögð séu að því að sjómenn séu látnir taka þátt í kostnaði við að kaupa aflaheimildir til skipa. Slíkt sé í andstöðu við gildandi kjarasamninga og þann grundvöll fyrir skiptaverði sem lagður er með ákvæðum laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Hafa vegna þessa verið settar fram kröfur af hálfu samtaka sjómanna um að banna allt framsal aflamarks milli skipa. Er útilokað að verða við þeim óskum þar sem flutningur aflamarks milli skipa er forsenda þeirrar hagræðingar er af kvótakerfinu leiðir og liggur raunar í augum uppi að án slíkrar heimildar yrði allt kerfið ákaflega stirt í vöfum og gæfi ekki færi á nauðsynlegri aðlögun að ríkjandi aðstæðum á hverjum tíma. Þrátt fyrir þetta og enda þótt það hljóti fyrst og fremst að vera mál samningsaðila að halda uppi ákvæðum kjarasamninga á þessu sviði sem öðrum þykir engu að síður rétt að koma til móts við sjónarmið sjómanna með því að þrengja heimildir til framsals aflamarks með þeim hætti er að framan getur. Er með því þræddur sá meðalvegur að viðhalda sveigjanleika kerfisins með fullu frelsi til eðlilegs flutnings aflamarks milli skipa en jafnframt draga úr hættu á misnotkun þess frelsis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum er það forsenda fyrir því að nýtt eða nýkeypt skip fái veiðileyfi að annað sambærilegt hverfi varanlega úr rekstri. Hefur það skilyrði jafnan verið túlkað svo að í því fælist að taka þyrfti eldra skipið af skipaskrá, eyða því eða selja það úr landi. Á síðari árum hefur áhugi íslenskra útgerða á veiðum í lögsögu annarra ríkja og á úthafinu farið vaxandi. Hefur jafnframt vaknað áhugi á að nýta skip sem hverfa úr hinum eiginlega íslenska fiskiskipaflota til slíkra veiða. Með 1. málsl. þessarar greinar er lagt til að slíkt verði heimilað. Samkvæmt henni verður þess ekki lengur krafist, til þess að nýtt skip öðlist veiðileyfi, að það skip sem veiðileyfið missir sé máð af skipaskrá. Fiskiskip á íslenskri skipaskrá munu því í framtíðinni, ef tillagan nær fram að ganga, verða tvenns konar. Annars vegar skip sem tilheyra hinum eiginlega íslenska fiskiskipaflota með almennt veiðileyfi og hins vegar veiðileyfislaus skip sem einungis gætu veitt utan fiskveiðilögsögunnar. Ljóst er að fjölmargar spurningar vakna varðandi réttarstöðu þessara veiðileyfislausu skipa og heimildir íslenskra stjórnvalda til að setja reglur um veiðar þeirra. Meðal annars af þeim sökum er hafinn undirbúningur að endurskoðun laga nr. 34/1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Hingað til hefur meginreglan varðandi endurnýjun fiskiskipaflotans verið sú að ekki sé heimilt að fjölga skipum í flotanum. Ný skip hafa því aðeins getað fengið veiðileyfi að sambærilegt skip eða sambærileg skip hyrfu úr rekstri. Með þessari grein er einnig lagt til að opnuð verði heimild til að fleiri en eitt skip komi í stað eins skips er missir veiðileyfi enda aukist afkastagetan ekki við skiptin. Er ráðherra ætlað að setja nánari ákvæði um þetta með reglugerð. Má reikna með að stærð skipanna (rúmmál) verði fyrst og fremst höfð til viðmiðunar framvegis sem hingað til þegar sambærileiki skipa er metinn. Ekki er þó loku fyrir það skotið að önnur atriði sem máli skipta um afkastagetu verði höfð til viðmiðunar.
    Með þessari grein er jafnframt lagt til að felld verði niður tilvitnun í aflaheimildir í eigu Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til samræmis við breytingu sem gerð var á lögum sjóðsins með lögum nr. 4/1992, sbr. nú lög nr. 65/1992.

Um 2. gr.


    Eins og nánar er lýst í almennum athugasemdum og athugasemdum við I. ákvæði til bráðabirgða er með frumvarpi þessu lagt til að útgerðir þeirra báta, sem nú stunda veiðar með krókaleyfi, geti fyrir upphaf fiskveiðiársins er hefst 1. september 1994 valið milli þess að fá aflahlutdeild í einstökum tegundum eftir þeim reglum sem lýst er í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði eða stunda áfram krókaveiðar með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í þessari grein.
    Lagt er til að takmarkanir á veiðum þessara báta verði tvenns konar. Annars vegar verði heimildir þeirra til notkunar veiðarfæra takmarkaðar og þeim aðeins heimilað að stunda veiðar með línu og handfærum. Er því ekki gerð tillaga um breytingar að þessu leyti frá því sem verið hefur varðandi krókaleyfisbáta. Í þessu sambandi skal bent á að ákvæði núgildandi laga hafa ekki verið túlkuð þannig að þau standi í vegi fyrir hefðbundnum hrognkelsaveiðum þessara báta og er ekki gert ráð fyrir breytingum þar á. Hins vegar verði sóknardagafjöldi takmarkaður. Er gert ráð fyrir að veiðar verði bannaðar í samtals 146 daga á ári þannig að banndögum fjölgar um 64 frá því sem gilt hefur varðandi krókabátana. Eftir sem áður verða veiðar þessara báta bannaðar yfir háveturinn í desember og janúar. Þá er lagt til að áfram verði í gildi veiðibönn um páska og verslunarmannahelgi en þau verði stytt úr tíu dögum í sjö. Loks er lagt til að veiðar þessara báta verði bannaðar sjö síðustu daga hvers mánaðar. Heildarfjöldi banndaga er samkvæmt þessu mun minni en samkvæmt þeim samþykktum sem Fiskiþing hefur gert undanfarin tvö ár. Þeir dreifast hins vegar jafnt á þá mánuði ársins sem veiðar eru heimilar, en daglegur meðalafli krókabáta er mjög misjafn eftir árstíma og má því segja að það sé fremur tímasetning banndaganna en fjöldi þeirra sem mestu ræður um hversu virkir þeir eru til að takmarka afla. Með því að láta banndagana dreifast jafnt á alla mánuði ársins er jafnræðis gætt gagnvart aðilum með mismunandi útgerðarhætti en eins og alkunna er þá eru sumir þessara báta gerðir út allt árið en aðrir aðeins á ákveðnum árstímum og þá einkum yfir sumarið.
    Í 3.–6. mgr. er lagt til að ef veiðar þeirra báta er þennan kost velja fari úr böndunum á einhverju tímabili þrátt fyrir fjölgun fastra banndaga þá skuli við því brugðist með fjölgun banndaga á sama tímabili á næsta ári þannig að jafnvægi verði náð. Í því skyni er árinu skipt upp í fjögur veiðitímabil og hámarksafli ákveðinn fyrir hvert tímabil. Tímabilin eru 1. september til 30. nóvember, 1. febrúar til 30. apríl, 1. maí til 30. júní og 1. júlí til 31. ágúst. Sameiginlegur hámarksafli þessara báta á einstökum tímabilum tekur mið af meðalafla þeirra tvö síðustu fiskveiðiár og er honum skipt hlutfallslega milli veiðitímabila á grundvelli aflareynslunnar þau ár. Hver þessi hámarksafli verður ræðst að sjálfsögðu af því hvaða bátar velja þennan kost. Velji útgerðir allra þeirra báta er nú stunda krókaveiðar þennan kost yrði árlegur hámarksafli 20.139 þorskígildislestir. Af því falla 24% eða 4.833 þorskígildislestir á fyrsta tímabil, 11% eða 2.215 lestir á annað tímabil, 32% eða 6445 lestir á þriðja tímabil og 33% eða 6.646 lestir á fjórða tímabil. Fari aflinn á einhverju tímabili fram úr hámarksafla tímabilsins er ákveðið hvernig fjölga skuli banndögum á sama tímabili á næsta ári. Þar sem fyrsta fiskveiðiárið sem þessar reglur ná til hefst 1. september 1994 getur ekki komið til fjölgunar banndaga fyrr en í fyrsta lagi á fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1995.
    Í 5. og 6. mgr. eru nákvæmar reglur um hvernig viðbótarbanndagarnir skuli ákvarðaðir og þarfnast þær ekki nánari skýringa.

Um 3. gr.


    Í frumvarpi þessu er lagt til með 2. gr. að sérstakt banndagakerfi verði notað til að stjórna veiðum báta undir 6 brl. sem þann kost kjósa; í 4. gr. er lagt til að tilteknar veiðiheimildir skuli árlega vera til ráðstöfunar til að mæta áföllum vegna verulegra tekjubreytinga af veiðum af einstökum tegundum og í 6. gr. er lagt til að línuafli yfir vetrarmánuðina teljist að hálfu leyti utan kvóta innan viss hámarks. Við ákvörðun árlegs aflamarks einstakra skipa er nauðsynlegt að tillit sé tekið til þessara aflaheimilda sem eru utan hins eiginlega aflamarkskerfis. Er hér lagt til að það sé gert með því að draga þessar aflaheimildir frá leyfðum heildarafla áður en til skiptingar hans kemur milli einstakra skipa í flotanum. Til þess að það sé unnt verður að áætla skiptingu línuaflans milli einstakra tegunda og skal í því sambandi miða við aflasamsetningu á næstliðnu fiskveiðiári og línutímabili.

Um 4. gr.


    Með þessari grein er lagt til að aflaheimildir er nemi 12.000 þorskígildislestum verði árlega til ráðstöfunar til að mæta áföllum vegna rýrnunar aflatekna vegna breytinga á aflamarki einstakra tegunda milli fiskveiðiára. Núgildandi ákvæði 9. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna um slíka jöfnun hefur ekki reynst fullnægjandi. Bæði er að einungis er mögulegt samkvæmt því að jafna tekjusveiflur við aðrar veiðar en botnfisksveiðar og eins hitt að skilyrðin til að beita sveiflujöfnunaraðgerðum samkvæmt þeirri grein eru mjög þröng. Hefur reyndin orðið sú að 9. gr. hefur ekki verið beitt en á hverju fiskveiðiári hefur verið tilefni til sérstakrar löggjafar til að ráðstafa tilteknum aflaheimildum til að mæta tekjusveiflum af þessu tagi, sbr. lög nr. 13 27. mars 1991, bráðabirgðaákvæði laga nr. 4 27. janúar 1992, IV. kafla bráðabirgðalaga nr. 86 28. maí 1993, sbr. nú lög nr. 112/1993, og frumvarp til laga um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs á þessu fiskveiðiári sem flutt er samhliða frumvarpi þessu. Hefur reynslan ótvírætt sýnt að þörf er á slíkri jöfnun og er því lagt til að 12.000 þorskígildislestir séu árlega teknar frá í þessu skyni. Er ráðherra ætlað að ákveða ráðstöfun aflaheimildanna með reglugerð og er það skilyrði til að heimildinni megi beita að aflaheimildir af einstökum tegundum dragist svo mikið saman að fyrirsjáanlegt sé að tekjur þeirra skipa sem háðust eru veiðum af viðkomandi tegund rýrni um meira en 10% milli fiskveiðiára. Sé þessum skilyrðum fullnægt er ráðherra heimilt með reglugerð að ráðstafa aflaheimildum til að mæta áfallinu. Í greininni er að finna leiðbeiningar um hvernig það skuli gert en nánari útfærsla hlýtur að ráðast af atvikum hverju sinni. Að sjálfsögðu yrði ráðstöfun heimildanna í reglugerðinni að vera almenn þannig að öllum þeim sem fyrir viðkomandi áfalli hafa orðið sé bætt það á sama hátt.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að heimild til að flytja hluta af aflamarki einstakra botnfiskstegunda og úthafsrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta verði lækkuð úr 20% í 10%. Tilgangurinn með því að heimila tilflutning aflamarks milli ára er fyrst og fremst að skapa sveigjanleika í fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að einstakar útgerðir þurfi ekki að hafa af því áhyggjur þótt aflabrögð í lok fiskveiðiárs séu með öðrum hætti en gert var ráð fyrir. Slíkur sveigjanleiki átti með öðrum orðum að koma í veg fyrir að útgerðir þyrftu af þeim sökum í stórum stíl að flytja frá sér eða til sín aflaheimildir í árslok. Reynslan hefur ótvírætt sýnt að 10% geymsluréttur er nægilegur í þessu skyni en samkvæmt lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, og eldri lögum um sama efni mátti geyma 10% af einstökum botnfiskstegundum milli ára. Jafnframt er ljóst að 20% geymsluréttur skapar meiri óvissu um árlegan heildarafla en forsvaranlegt er. Gangi veiðar einhverrar tegundar erfiðlega hefur gildandi ákvæði leitt til þess að 20% geymsluréttur flotans er nær allur nýttur með millifærslu í lok fiskveiðiárs. Þessar geymdu aflaheimildir sem nema allt að 20% af leyfðum heildarafla af viðkomandi tegund geta síðan verið óveiddar og færst milli fiskveiðiára uns aflabrögð glæðast og geta því komið sem óvænt aflaaukning jafnvel mörgum fiskveiðiárum eftir að til þeirra var stofnað.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að óbreytt verði sú regla að einungis helmingur þess afla er veiðist á línu í nóvember, desember, janúar og febrúar teljist til aflamarks. Til að tryggja að þetta ákvæði leiði ekki til meiri skerðingar á aflaheimildum annarra skipa en þegar er orðin er lagt til að þegar línuafli af þorski og ýsu hefur samanlagt náð 34.000 lestum teljist allur aflinn til aflamarks. Fiskistofa mun fylgjast með línuafla á þessu tímabili og gera viðvart þegar og ef þessu hámarki er náð.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að heimilt verði að framselja aflahlutdeild frá fiskiskipum til aðila sem reka vinnslu sjávarafurða enda sé tilteknum skilyrðum fullnægt. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðurlagningu, niðursuðu og hverja þá verkun sem ver fisk eða sjávarafurðir skemmdum, þar með talda bræðslu og mjölvinnslu. Það er skilyrði að fiskvinnslustarfsemin falli undir skilgreiningu 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Með þessu ákvæði á að vera tryggt að erlendir aðilar geti ekki fengið ráðstöfunarrétt yfir fiskveiðiauðlindinni. Þá er það skilyrði fyrir framsali aflahlutdeildar til aðila sem rekur fiskvinnslu að sú starfsemi hafi fullgilt vinnsluleyfi útgefið af Fiskistofu fyrir viðkomandi starfsemi í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
    Í 3. mgr. er lagt til að einungis sé heimilt að framselja til vinnslustöðvar aflahlutdeild í þeim tegundum sem viðkomandi stöð hefur unnið. Í þessu sambandi telst botnfiskur ein tegund. Samkvæmt þessu yrði svo dæmi sé tekið ekki heimilt að framselja aflahlutdeild í loðnu, síld, hörpuskel og rækju til fiskvinnslustöðvar sem einungis hefur unnið botnfisk á undanförnum árum. Á sama hátt yrði ekki heimilt að framselja botnfisksaflahlutdeild til fyrirtækja sem einungis hafa brætt loðnu. Þá er lagt til að ekki verði heimilt að framselja hærri aflahlutdeild í einstökum tegundum til vinnslustöðva en sem nemur meðaltalsvinnslu stöðvarinnar af viðkomandi tegund undangengin þrjú ár. Gert er ráð fyrir að þeir aðilar sem óska eftir flutningi á aflahlutdeild til vinnslustöðvar þurfi með þeirri beiðni að leggja fyrir Fiskistofu upplýsingar um framleiðslu stöðvarinnar þrjú undangengin ár. Uppfylli aðili öll skilyrði mun Fiskistofa annast flutning aflahlutdeildar. Fiskistofu verður jafnframt falið að hafa eftirlit með að skilyrðum vinnslustöðvar til að hafa aflahlutdeild sé fullnægt. Þarf Fiskistofa að fylgjast með því við upphaf hvers fiskveiðiárs að meðaltalsframleiðsla undangenginna þriggja almanaksára sé í samræmi við það aflamark sem stöðinni er úthlutað á grundvelli aflahlutdeildarinnar. Þá þarf Fiskistofa að fylgjast með að stöðin sé í rekstri og að hún hafi fullgilt vinnsluleyfi. Ef vinnslustöð, sem hefur aflahlutdeild, uppfyllir ekki framangreind skilyrði gefst vinnslustöðinni þriggja mánaða frestur til að framselja aflahlutdeild sína. Að öðrum kosti fellur hún niður og kemur til hlutfallslegrar hækkunar á aflahlutdeild annarra skipa og vinnslustöðva.
    Ekki er heimilt að framselja aflamark til vinnslustöðva. Það aflamark sem vinnslustöðvar fá árlega úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar sinnar geta þær hins vegar framselt til fiskiskipa á grundvelli ákvæða 12. gr. laganna.

Um 8. gr.


    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/1990 er ekki heimilt að flytja aflahlutdeild milli skipa ef flutningurinn leiðir til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Með þessari grein er lagt til að hliðstæð regla verði í lög leidd varðandi flutning aflamarks. Heimild til flutnings aflaheimilda milli skipa er nauðsynleg forsenda þess að aflamarkskerfið geti leitt til þeirrar hagræðingar í veiðunum sem að er stefnt. Slíkur flutningur er þó aðeins nauðsynlegur og eðlilegur að hann sé innan þeirra marka sem það skip sem flutt er til ræður við að veiða. Með öllu er óeðlilegt að veiðiheimildum sé safnað á einstök skip umfram veiðigetu þeirra og á það jafnt við um varanlega aflahlutdeild sem árlegt aflamark. Nokkuð hefur á undanförnum árum borið á því að einstök skip séu notuð sem nokkurs konar miðstöðvar kvótaviðskipta þar sem til þeirra er safnað miklum veiðiheimildum og tilkynningar um flutning aflamarks til þeirra og frá þeim nema mörgum tugum og jafnvel hundruðum á ári hverju. Er ákvæðum þessarar greinar og ákvæðum 13. gr. um gjald vegna flutnings aflamarks ætlað að koma í veg fyrir þetta. Er með þeim stefnt að því að viðhalda sveigjanleika kerfisins með fullu frelsi til eðlilegs flutnings aflamarks milli skipa en sporna jafnframt við misnotkun þess frelsis.

Um 9. og 10. gr.


    Í gildandi lögum er ákvæði um að sé a.m.k. 25% af aflamarki skips ekki veitt tvö ár í röð falli aflahlutdeild þess niður. Er tilgangur þessa ákvæðis að knýja útgerðarmenn til að sameina aflaheimildir skipa og koma í veg fyrir að skipum sem lítt eða ekki er haldið til veiða sé úthlutað aflamarki ár eftir ár. Í ljós hefur komið að unnt er að fara í kringum gildandi ákvæði með því að flytja aflahlutdeild tímabundið af viðkomandi skipi. Er hér lagt til að þeirri smugu verði lokað með því að kveða á um að bæði veiðileyfi og aflamark skips falli varanlega niður þegar svo er ástatt sem í greininni segir. Í 9. gr. er jafnframt lagt til að ráðherra sé fengin heimild til að víkja frá þessum ákvæðum ef ástæða þess að skip nýtir ekki aflaheimildir sínar í íslenskri lögsögu er sú að því er haldið til veiða á fjarlægum miðum. Er full ástæða til að hvetja íslenska útvegsmenn til að leita sér verkefna í lögsögu annarra ríkja eða á alþjóðlegu hafsvæði og var það ekki tilgangur 4. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 að torvelda slíka þróun.

Um 11. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 38/1990 skulu hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað hafa yfirumsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla. Samstarf hafnaryfirvalda, sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu í þessum efnum hefur tvímælalaust skilað miklum ávinningi fyrir alla aðila. Ábyrgð og störf eru færð heim í hérað þar sem þetta samstarf ásamt tölvukerfinu Lóðsinum hefur leitt til þess að söfnun og innsláttur allra upplýsinga um landaðan afla hefur flust til löndunarhafna um leið og kerfið nýtist í rekstri hafnanna. Hefur í þessu sambandi nokkuð þótt skorta ákvæði sem tryggðu hafnaryfirvöldum nauðsynlegar eftirlitsheimildir til að sinna hlutverki sínu og jafnframt ákvæði um skyldu hafnanna til að skila upplýsingum um landaðan afla inn í aflaupplýsingakerfið. Er með þessari grein lagt til að úr því verði bætt.

Um 12. gr.


    Með gildistöku laga nr. 36 27. maí 1992 var starfsemi veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins flutt til Fiskistofu. Við þá lagabreytingu láðist að gera þá breytingu á orðalagi 18. gr. sem hér er lögð til.

Um 13. gr.


    Hér er í 1. mgr. (er verður 5. mgr. 18. gr. laganna) lagt til að tekið verði upp fast gjald, 1.500 kr., fyrir hverja staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar. Allmikil vinna er samfara flutningi aflahlutdeildar þar sem m.a. þarf að ganga úr skugga um að samþykki þeirra sem veð áttu í skipinu fyrir 1. janúar 1991 liggi fyrir. Er þessu gjaldi ætlað að standa undir kostnaði er af þeirri vinnu leiðir.
    Í 2. mgr. (er verður 6. mgr. 18. gr. laganna) er hins vegar lögð til gjaldtaka af öðru tagi. Skráning tilkynninga um flutning aflamarks er í sjálfu sér tiltölulega einföld aðgerð hjá Fiskistofu og er ekki gerð tillaga um að upp sé tekið almennt gjald vegna þeirrar skráningar. Á því hefur hins vegar borið að fjöldi tilkynninga um flutning aflamarks til einstakra skipa keyri úr hófi og eru dæmi um að margir tugir eða jafnvel hundruð slíkra tilkynninga séu send varðandi einstök skip á sama fiskveiðiárinu. Með því er verið að misnota þá möguleika til hagræðingar sem felast í framseljanlegu aflamarki og skapa óþarfa fyrirhöfn við skráningu. Er því lagt til að lagt verði á sérstakt gjald séu fleiri en tíu tilkynningar sendar Fiskistofu um flutning aflamarks frá skipi á sama fiskveiðiárinu. Er lagt til að gjaldið verði 10.000 kr. fyrir hverja tilkynningu umfram tíu. Í þessu sambandi yrði að líta svo á að hver tilkynning geti varðað færslu á mörgum tegundum frá einu skipi til annars en eigi að flytja aflamark frá skipi til fleiri en eins skips þurfi sérstaka tilkynningu varðandi hvert skip. Gert er ráð fyrir að gjald samkvæmt þessari grein renni til að standa undir rekstri veiðieftirlits á sama hátt og önnur gjaldtaka, sbr. 18. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 1. mgr. greinarinnar.

Um 14. gr.


    Um gjaldtöku vegna ólögmæts sjávarafla gilda nú ákvæði laga nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Hér er því einungis lagt til að texta 1. mgr. 20. gr. verði breytt til samræmis við þá breytingu sem þegar er orðin.

Um 15. gr.


    Lögum þessum er ætlað að öðlast gildi strax og koma þegar til framkvæmda. Ákvæði 4. gr. geta þó ekki efni sínu samkvæmt komið til framkvæmda fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs eftir gildistöku laganna. Með sérstöku frumvarpi sem flutt er samhliða frumvarpi þessu eru gerðar tillögur um ráðstöfun sambærilegra aflaheimilda Hagræðingarsjóðs á yfirstandandi fiskveiðiári. Ákvæðum 2. gr. um veiðar smábáta með línu og handfærum er heldur ekki ætlað að koma til framkvæmda að fullu fyrr en frá og með næsta fiskveiðiári. Í II. bráðabirgðaákvæði er hins vegar lagt til að fastir banndagar skv. 2. mgr. 6. gr. komi til framkvæmda strax við gildistöku laganna gagnvart öllum þeim bátum sem stunda veiðar með krókaleyfi skv. 6. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Af þessu leiðir að á fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1994 munu hinir föstu banndagar einir gilda og í fyrsta lagi getur komið til fjölgunar banndaga skv. 3.–6. mgr. 6. gr. á fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1995.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í I. bráðabirgðaákvæði er gerð tillaga um fyrirkomulag á veiðum þeirra báta undir 6 brl. sem stundað hafa veiðar með krókaleyfi samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990. Samkvæmt núgildandi fiskveiðistjórnunarlögum gafst útgerðum báta undir 6 brl. á árinu 1990 kostur á að velja milli þess að stunda veiðar eftir hinu almenna aflamarkskerfi eða að stunda veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum. Völdu rúmlega 1100 bátar síðari kostinn. Samkvæmt gildandi lögum er krókaleyfiskosturinn þó tímabundinn. Forsenda fyrir því að heimila ákveðnum hluta flotans að nota annað kerfi en hið almenna var sú að með banndagakerfinu tækist að hafa hemil á afla þessa hluta flotans með hliðstæðum hætti og varðandi önnur skip. Því kveða lögin svo á að reynist banndagakerfið þess ekki megnugt og hlutdeild þessara báta í heildarbotnfisksafla vaxi meira en nemur 25% að meðaltali á árunum 1991 til 1993 skuli krókaleyfiskosturinn falla niður og krókaleyfisbátum skuli úthlutað aflahlutdeild frá og með 1. september 1994. Það sem til skipta skal koma milli þessara báta samkvæmt gildandi lögum er samanlögð sú aflahlutdeild sem þessir bátar áttu kost á á árinu 1990 og skal hún skiptast milli bátanna á grundvelli aflareynslu hvers og eins á árunum 1991 til 1993. Samanlögð hlutdeild þessara báta er 2,18% í þorski, 0,55% í ýsu, 0,81% í ufsa, 0,0002% í karfa og 0,09% í skarkola. Miðað við úthlutað aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári og gildandi verðmætastuðla nemur geymd hlutdeild þessara báta samtals 2.970 þorskígildislestum.
    Eins og alkunna er hafa þær forsendur að banndagakerfi krókaleyfisbátanna héldi afla þeirra í skefjum brugðist gjörsamlega. Hefur afli þeirra aukist verulega þau þrjú ár sem liðin eru frá gildistöku laga nr. 38/1990. Er ljóst að afli þeirra á þeim þremur árum sem til viðmiðunar eru eykst langt umfram þau 25% sem gildandi lög miða við. Raunar hefur þessi flokkur báta margfaldað hlutdeild sína á þessum stutta tíma. Er því ljóst að komi ekki til lagasetningar munu framangreindar reglur í II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 koma til framkvæmda í lok yfirstandandi fiskveiðiárs.
    Í skýrslu nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu er lagt til að allir smábátar fari inn í aflamarkskerfið en aflahlutdeild krókabátanna verði tvöfölduð frá því sem lög nr. 38/1990 ákveða. Að auki er gert ráð fyrir úthlutun sérstakra viðbótaraflaheimilda til þessara báta meðan leyfilegur heildarafli er svo lítill sem raun ber vitni þannig að heildaraflamark þeirra nái 13.275 þorskígildislestum.
    Eins og rakið er í almennum athugasemdum og athugasemdum við 2. gr. þótti ekki fært að fara að tillögum nefndarinnar hvað smábáta með krókaleyfi varðar. Í 2. gr. er gerð tillaga um veiðistjórnun með banndögum gagnvart þeim útgerðum sem þess óska. Stýring á grundvelli aflamarks er aftur á móti meginregla fiskveiðistjórnunarinnar og því þykir rétt að gefa þeim útgerðum er hingað til hafa haft leyfi til krókaveiða kost á að komast inn í aflamarkskerfið og hagnýta sér þá möguleika til hagræðingar sem í því felast. Í bráðabirgðaákvæði I er því kveðið á um að þeim útgerðum sem stundað hafa veiðar með krókaleyfum verði gefinn kostur á að velja milli áframhaldandi veiða með krókaleyfi eða að fá úthlutað aflamarki. Skulu útgerðirnar hafa valið annan kostinn og tilkynnt Fiskistofu um val sitt fyrir 1. júlí 1994. Berist tilkynning um val ekki í tæka tíð skal úthluta viðkomandi báti aflamarki. Áður en val þetta fer fram skal útgerðum bátanna gerð grein fyrir því aflamarki sem þeim hefði verið úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári ef þeir hefðu haft aflahlutdeild. Skal Fiskistofa senda þeim þessar upplýsingar í tæka tíð ásamt forsendum fyrir úthlutuninni og gefa hæfilegan frest til að koma að athugasemdum. Útvegsmönnum gefst þá tækifæri til að bera forsendur Fiskistofu saman við eigin upplýsingar um afla á tímabilinu. Reikna skal hlutdeild einstakra báta í heildarafla hverrar tegundar á tímabilinu 1. september 1991 til 31. ágúst 1993, þ.e. tvö heil fiskveiðiár. Við útreikning á hlutdeild einstakra báta í leyfðum heildarafla í hverri tegund, sem þeir fengju ef þeir veldu aflamark, skal miða við að hún verði jöfn hlutdeild þeirra í heildarafla á ofangreindu tímabili. Ekki skal tekið tillit til annarra atriða en afla hvers einstaks báts á tímabilinu, svo sem bilana eða frátafa af öðrum orsökum. Sérstaklega er ástæða til að benda á að úthlutunin miðast við afla einstakra báta án tillits til þess hvort eigendaskipti hafi orðið á þeim á tímabilinu. Hafi aðilar orðið sammála um aðra tilhögun við eigendaskipti að bátum verða þeir að óska flutnings á aflahlutdeild eftir að úthlutun er lokið.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Með II. bráðabirgðaákvæði er lagt til að banndagar skv. 2. mgr. 6. gr. komi til framkvæmda gagnvart öllum þeim bátum sem nú stunda veiðar með krókaleyfi strax frá gildistöku laganna og komi þeir þá í stað banndaga samkvæmt 6. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990.



Fylgiskjal I.


Bréf nefndar til sjávarútvegsráðherra um mótun sjávarútvegsstefnu.


(19. maí 1993.)


    Nefnd um mótun sjávarútvegsstefnu hefur að undanförnu rætt við lögbundna samráðsaðila hugmyndir sínar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða frá 1990 og önnur atriði sem fram koma í drögum að skýrslu nefndarinnar til sjávarútvegsráðherra frá 2. apríl 1993. Þar á meðal hafa formenn nefndarinnar haldið tíu fundi á vegum sjávarútvegsráðuneytis í öllum kjördæmum sem voru sóttir af um 1500 manns. Nefndin hefur nú í ljósi þessa samráðs gert minni háttar lagfæringar á drögum að skýrslunni og fylgir hún með bréfi þessu í endanlegu formi ásamt umsögnum hagsmunaaðila. Að auki vill nefndin leggja eftirfarandi atriði fyrir sjávarútvegsráðherra:
    Hugmyndir nefndarinnar um að setja utankvótategundir í aflamark byggjast á því að Hafrannsóknastofnun verði falið að kanna betur en verið hefur veiðiþol þessara stofna. Ekki er gert ráð fyrir að tegundir fari í aflamark ef viðkomandi stofnar þola þær veiðar sem á þeim eru. Enn fremur þarf að huga að því að aflamark á þessar tegundir komi ekki í veg fyrir nýtingu á vannýttum tegundum eða nýjum miðum.
    Nefndin leggur til að við afnám línutvöföldunar sé reynt að leita leiða til þess að úthlutun viðbótaraflamarks hafi ekki í för með sér minni afla í mánuðunum nóvember til febrúar.
    Nefndin hefur rætt sérstaklega um kvótasetningu krókaleyfisbáta í ljósi þeirra viðbragða sem meiri hluti nefndarinnar fékk við tillögum sínum, en þau byggðust á harðri gagnrýni, bæði var sagt að of hart væri gengið að smábátum og eins líka að of langt væri komið til móts við þessa aðila. Meiri hluti nefndarinnar telur aðalatriði málsins og sanngjarna niðurstöðu að heildarafli smábáta undir 6 brl. verði í takt við tillögur sínar. Vissulega eru ýmsar leiðir til að ná þessu marki en meiri hluti nefndarinnar ítrekar að sú tillaga sem fram kemur í skýrslunni sé sú skynsamlegasta að mati hans.
    Meiri hluti nefndarinnar treystir sér ekki til að leggja til þá leið sem sjávarútvegsráðherra lagði til í drögum að lagafrumvarpi, en hún var rædd í starfi nefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar bendir hins vegar á aðrar leiðir, svo sem að útfæra banndagakerfi með hámarksafla á einstökum tímabilum þannig að umframafli á einu tímabili leiði til fækkunar róðrardaga á hinu næsta. Þá bendir meiri hluti nefndarinnar á þann möguleika að aflamarki verði að hluta eða öllu leyti úthlutað eftir stærð bátanna. Nefndin bendir þó á að allar leiðir aðrar en sú sem meiri hluti nefndarinnar lagði til koma verr út fyrir þá sem hafa útgerð smábáta að aðalstarfi.
    Með ofangreindum athugasemdum telur nefndin að störfum hennar sé lokið.

Virðingarfyllst,


Þröstur Ólafsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Björn Dagbjartsson.


Örn Traustason.


Árni Vilhjálmsson.


Pétur Bjarnason.




..........




    Á fskj. II var birt skýrsla nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu („tvíhöfðanefndar“), drög, 2. apríl 1993, 173 bls., en í henni eru gerðar tillögur um fjölmarga þætti sem snerta stjórn fiskveiða, starfsskilyrði sjávarútvegsins, rannsóknir á sviði sjávarútvegsmála og vinnslu á markaðssetningu sjávarafurða. Þar að auki er fjallað í skýrslunni um ástand og nýtingu fiskstofna, viðskipta- og sjávarútvegssamninga Íslands við önnur ríki, fiskiskipastól landsmanna, fiskvinnslustarfsemi í landinu, afkomumál sjávarútvegsins og stjórn fiskveiða.
    Um fylgiskjalið vísast til þingskjalsins (lausaskjalsins).


..........




Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum,


nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


    Frumvarpið hefur ekki í för með sér aukin útgjöld ríkissjóðs. Hugsanleg aukning á eftirliti Fiskistofu á að rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar. Í frumvarpinu er Fiskistofu veitt heimild til að taka gjald fyrir staðfestingu á varanlegum flutningi aflaheimilda á milli skipa. Samkvæmt frumvarpinu verður gjaldið 1.500 kr. á hverja staðfestingu og er áætlað að heildartekjur á ári verði um 700 þús. kr. sé miðað við fjölda staðfestinga fiskveiðiárið 1992–93. Til að hamla gegn óhóflegum fjölda tilkynninga um flutning á aflamarki frá sama skipi er Fiskistofu heimilað að innheimta 10.000 kr. fyrir hverja tilkynningu sem er umfram tíu á fiskveiðiárinu. Reiknað er með að tekjur af gjaldinu verði óverulegar, enda er því fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir að mikill fjöldi tilkynninga sé sendur til stofnunarinnnar. Loks er í 14. gr. breytt lagatilvísun vegna brota á lögum um stjórn fiskveiða. Ekki er um efnislega breytingu að ræða frá því sem nú er.