Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 295 . mál.


414. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Stjórn heilsugæslustöðvar og félagsmálaráð eða félagsmálanefndir í sveitarfélögum á starfssvæði heilsugæslustöðvar skulu tilnefna fulltrúa í sérstaka undirnefnd, öldrunarnefnd. Í öldrunarnefnd skulu aldrei vera fleiri en sjö, tveir tilnefndir af stjórn heilsugæslustöðvar, hinir af viðkomandi sveitarfélögum. Sveitarstjórnir velja nefndinni formann. Sveitarfélögum er þó heimilt að kjósa öldrunarmálaráð og annast það þá þau verkefni sem öldrunarnefndum eru falin samkvæmt lögum þessum.
    1. málsl. 2. mgr. orðast svo:
                  Öldrunarnefnd annast eftirtalin verkefni og gerir tillögur þar að lútandi til stjórnar heilsugæslustöðvar og félagsmálaráða eða félagsmálanefnda en öldrunarmálaráð til sveitarstjórnar:

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að setja á laggirnar sérstakt öldrunarmálaráð sem mun fara með yfirstjórn öldrunarmála í Reykjavík í umboði borgarráðs og borgarstjórnar. Öldrunarmálaráðið mun ekki verða undirnefnd félagsmálaráðs eins og gert er ráð fyrir í lögum um málefni aldraðra heldur heyra beint undir borgarráð og borgarstjórn. Öldrunarmálefni eru sívaxandi málaflokkur í Reykjavík og fleiri sveitarfélögum og hefur borgarstjórn þótt rétt að setja sérstaka nefnd yfir þann málaflokk. Þar sem ákvæði 5. gr. núgildandi laga um málefni aldraðra veita sveitarfélögum ekki það svigrúm sem nauðsynlegt er til að skipa þessum málum svo sem þeim þykir hentugt með hliðsjón af umfangi þessa málaflokks er frumvarp þetta flutt.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum


um málefni aldraðra nr. 82/1989, með síðari breytingum.



    Með frumvarpinu er sveitarfélögum heimilað að stofna öldrunarmálaráð sem annist verkefni öldrunarnefnda. Kostnaður af starfi öldrunarnefnda greiðist af sveitarfélögum skv. 5. gr. laganna og gildir það sama um öldrunarmálaráð. Frumvarpið hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.