Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 304 . mál.


495. Tillaga til þingsályktunar

um staðsetningu björgunarþyrlu.

Flm.: Jón Kristjánsson, Ólafur Þ. Þórðarson,
Valgerður Sverrisdóttir, Stefán Guðmundsson.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram úttekt á hvaða staðsetning björgunarþyrlu þjónar best skipulagi björgunarmála hérlendis. Úttektin fari fram í samvinnu dómsmálaráðuneytisins, Landhelgisgæslunnar, Almannavarna, Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar. Niðurstöður liggi fyrir 1. september 1994.

Greinargerð.
Tillaga þessi var flutt á 116. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.
Alþingi hefur ítrekað veitt ráðherra heimild í 6. gr. fjárlaga til að semja um kaup á nýrri björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Í umræðum á Alþingi í lok febrúar árið 1992 lýsti forsætisráðherra því yfir að samið yrði um þyrlukaup á næstu mánuðum. Enn hefur ekki orðið af framkvæmdum en eigi að síður er ljóst að breytinga er að vænta á þeim tækjabúnaði sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða til björgunar úr lofti. Þyrlukostur Landhelgisgæslunnar er að öllu jöfnu staðsettur í Reykjavík. Þá hefur varnarliðið á Keflavíkurflugvelli yfir fjórum þyrlum að ráða. Ætlunin mun vera að auka enn frekar samstarf við björgunarsveit varnarliðsins um björgunarmál. Í ljósi þessa er tímabært að endurskoða staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar með það fyrir augum að viðbragðstími til fjarlægra landshluta verði styttri. Benda má á að fyrir Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi er mikill floti fiskiskipa á veiðum á ýmsum árstímum, auk flutningaskipa á leið til og frá Evrópu. Það tekur þyrlu drjúgan tíma að komast til þessara svæða þegar á þarf að halda. Ætla má að þyrla Landhelgisgæslunnar sé eina og hálfa til þrjár klukkustundir á leiðinni austur fyrir land ef flogið er með ströndinni. Flugtími þyrlunnar er einnig áætlaður um þrjár klukkustundir til Grímseyjar miðað við að flogið sé út fyrir Vestfirði. Má því færa sterk rök fyrir því að önnur staðsetning björgunarþyrlu mundi henta betur með tilliti til þessara landshluta og veiðisvæða fyrir norðan land og austan. Það er því rétt að menn hugi nú að hentugri staðsetningu björgunarþyrlu þegar til stendur að kaupa fullkomna þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Sú staðsetning hlýtur að miðast við að þyrlan þjóni sem best öryggi allra landsmanna. Við staðsetningu þyrlukostsins þarf einnig að taka tillit til sívaxandi hlutverks þessara tækja í björgun þegar slysfarir verða á landi og flytja þarf slasað fólk m.a. frá hálendinu til byggða og undir læknishendur.
Rétt þykir að Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg eigi hlut að þessari úttekt vegna þess hve stóran hlut björgunarsveitir eiga að björgun á sjó og landi og vegna þess hve brýnt er að skipulag samvinnu þeirra við Landhelgisgæsluna sé sem fullkomnast.