Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 414 . mál.


619. Tillaga til þingsályktunar



um kynningu á ímynd Íslands erlendis.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Salome Þorkelsdóttir,


Sólveig Pétursdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd þriggja manna sem hafi eftirfarandi verkefni:
    Frumkvæði að samræmingu á því hvernig ímynd Íslands er kynnt á erlendum vettvangi í samvinnu við hagsmunaaðila.
    Fimm ára áætlun um kynningu á ímynd Íslands erlendis. Kostnaður við framkvæmd áætlunarinnar greiðist af hagsmunaaðilum og ríkissjóði samkvæmt því sem Alþingi ákveður í fjárlögum.
    Úttekt á því hvernig aðstæður og aðgerðir innan lands samræmast þeirri ímynd landsins sem kynnt er erlendis.

Greinargerð.


     Mál þetta var flutt á 115. og 116. þingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju.
    Auðæfi Íslands liggja í landinu sjálfu, hafinu í kringum landið og möguleikum fólksins sem í landinu býr. Þessi auðæfi nýtast ekki þjóðinni ef enginn veit af þeim eða gerir sér grein fyrir mikilvægi þeirra og verðmætum.
    Tími viðskiptafrelsis og hins frjálsa markaðar er runninn upp og því um leið tími samkeppni og samanburðar sem við viljandi eða óviljandi tökum þátt í. Við getum jafnframt fagnað því að samtímis eru meiri möguleikar en nokkru sinni fyrr á miðlun upplýsinga til einstaklinga, fyrirtækja og jafnvel heilu þjóðanna. Upplýsingar hellast yfir viðtakendur og því skiptir afar miklu máli að kynningarstarf sé markvisst og skilji eftir sig spor í huga viðtakanda. Ímynd og vörumerki eru þess vegna nauðsynleg við hvers konar kynningu.
    Eins og málum er nú háttað eru það hinir ýmsu söluaðilar vöru og þjónustu sem kynna landið (Útflutningsráð, Ferðamálaráð, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Flugleiðir o.s.frv.). Oftast fer meira rými og kostnaður í að kynna landið sjálft, kosti þess og sérstöðu en sjálfa vöruna eða þjónustuna sem verið er að veita. Það er því bæði eðlilegt og skynsamlegt að reyna að greina á milli hinnar almennu landkynningar sem á að koma öllum til góða sem nýtt geta sérstöðu lands og þjóðar og hinnar eiginlegu sölustarfsemi þar sem seld er tiltekin vara eða þjónusta.
    Það er því að mati flutningsmanna skynsamlegt að ríkið hafi meira frumkvæði og taki meiri þátt í hinni almennu landkynningu í samstarfi við hagsmunaaðila en láti fyrirtækjum og einstaklingum eftir frumkvæðið í hinni eiginlegu sölu. Hin almenna landkynning beinist að kynningu á legu landsins og umhverfi, menningu, menntun og möguleikum þjóðarinnar til þess að veita þjónustu og takast á við framleiðslu almennt. Helst þyrfti að leggja áherslu á að ná árangri í kynningu á hreinleika og gæðum umhverfisins, þjónustu og framleiðslu. Góður árangur á þessu sviði væri að þegar nafn Íslands væri nefnt kæmi upp í huga manna ímynd hreinleika og gæða.
    Það er jafnframt mat flutningsmanna að tryggja þurfi að Ísland standi undir þeirri ímynd sem kynnt er. Því er gert ráð fyrir því í tillögunni að þetta verði kannað sérstaklega svo að hægt sé að bæta úr fljótt og vel ef þörf krefur. Það er forsenda árangurs í kynningarstarfi sem þessu að sú mynd, sem dregin er upp, sé sannleikanum samkvæm. Því er nauðsynlegt að gott samstarf náist milli allra viðkomandi aðila svo að góður árangur sé tryggður.