Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 422 . mál.


631. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, nr. 53/1987.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Fimm manna nefnd, skipulagsnefnd fólksflutninga, skal skipuð til að vera samgönguráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar og önnur þau mál sem þessum flutningum tilheyra og nánar eru tilgreind í reglugerð eða ráðherra óskar eftir áliti nefndarinnar á.
    Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af Félagi hópferðaleyfishafa, einum fulltrúa tilnefndum af Félagi sérleyfishafa og einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samgönguráðherra skipar einn mann án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Sömu aðilar velja hver um sig einn varamann.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara skal skipuð ný skipulagsnefnd fólksflutninga á grundvelli 1. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er gerð breyting á skipan skipulagsnefndar fólksflutninga, sem starfar á grundvelli laga um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, nr. 53/1987. Nefndin er skipuð til að vera samgönguráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar og önnur þau mál sem þessum flutningum tilheyra og nánar eru tilgreind í reglugerð eða ráðherra óskar eftir áliti nefndarinnar á, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1987.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að fækkað verði um tvo fulltrúa í nefndinni, þ.e. fækkað úr sjö fulltrúum í fimm fulltrúa. Fulltrúi Búnaðarfélags Íslands fellur út og samgönguráðherra skipar samkvæmt frumvarpinu aðeins einn mann í stað tveggja áður. Verði frumvarp þetta að lögum mun Alþýðusamband Íslands, Félag hópferðaleyfishafa, Félag sérleyfishafa og Samband íslenskra sveitarfélaga eiga einn fulltrúa í nefndinni og formaður nefndarinnar er skipaður af samgönguráðherra án tilnefningar.
    Ekki er kveðið á um sérstakan skipunartíma nefndarinnar. Miðað er við að nefndin verði skipuð ótímabundið og getur því skipunartími formanns nefndarinnar verið bundinn við embættistíma ráðherra. Í ljósi þess að nefnd þessari er ætlað að vera samgönguráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar og önnur mál varðandi fólksflutninga með langferðabifreiðum er eðlilegt að starfandi ráðherra hafi eitthvað um það að segja hver er hans fulltrúi í nefndinni og hafi frjálsar hendur að skipta um formann nefndarinnar. Á sama hátt geta aðilar sem tilnefna í nefndina óskað eftir að skipta um fulltrúa.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að þessi breytta skipan komi strax til framkvæmda, en skipunarbréf starfandi skipulagsnefndar fólksflutninga er til 15. apríl 1995.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag á


fólksflutningum með langferðabifreiðum.



    Frumvarpið felur ekki í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.