Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 507 . mál.


780. Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



Breytingar á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.


1. gr.


     Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem verður 22. tölul., sem orðast svo:
 22.    Að endurgreiða eða fella niður toll af græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.
                      Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa töluliðar að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra.

Breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.


2. gr.


     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Fjármálaráðherra er enn fremur heimilt að endurgreiða eða fella niður vörugjald af innlendu hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara og garðyrkjuafurða. Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.

Gildistaka.


3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó er heimilt að láta ákvæði 1. gr. taka til innfluttra vara sem tollafgreiddar hafa verið frá 1. janúar 1994 og ákvæði 2. gr. taka til innlendra vara sem seldar hafa verið frá sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld af efnivöru og hráefni til framleiðslu garðyrkjuafurða.
    Um árabil hafa garðyrkjubændur notið verndar í formi innflutningstakmarkana á grænmeti, blómum og annarri samkeppnisframleiðslu. Með tvíhliða samkomulagi við Evrópubandalagið, sem tók gildi 15. apríl á síðasta ári, var heimilaður innflutningur á tilteknum tegundum blóma og grænmetis hluta úr ári. Þegar Úrúgvæ-samningur GATT tekur gildi sem að líkindum verður á næsta ári verða beinar innflutningstakmarkanir felldar úr gildi.
    Með því að heimila fjármálaráðherra að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld af efnivörum og hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuvara er unnt að styrkja samkeppnistöðu garðyrkjubænda gagnvart vaxandi innflutningi garðyrkjuafurða þótt heimildin sé ekki einskorðuð við samkeppnisvörur. Gert er ráð fyrir að heimildin verði notuð til að endurgreiða eða fella niður tolla og eftir atvikum vörugjöld af græðlingum sem fluttir eru inn til framhaldsræktunar, ljósaperum og lömpum sem notuð eru í gróðurhúsum, steinull og tilbúnum gróðurhúsum og vörugjöld af þessum vörum ef þær eru framleiddar innan lands samkvæmt nánari reglum sem kveðið verður á um í reglugerð. Fjármálaráðherra getur aukið við eða fækkað vörum sem njóta niðurfellingar ef tilefni er til að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra.
    Með hliðsjón af innflutningi ársins 1992 er áætlað að niðurfelling gjalda samkvæmt frumvarpi þessu muni kosta ríkissjóð um 10 milljónir króna á ári.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í l. gr. frumvarpsins er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda af innfluttum vörum. Fyrirmyndin er að nokkru sótt til sambærilegrar heimildar til niðurfellingar aðflutningsgjalda til samkeppnisiðnaðar skv. 13. tölul. 6. gr. laga nr. 55/1987, að undanskildu því skilyrði að varan sé í beinni samkeppni við tollfrjálsan innflutning.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða vörugjald af innlendum vörum. Heimild þessi tekur bæði til iðnaðarvara og garðyrkjuafurða. Ástæða þess er sú að við skoðun á ákvæðum 13. tölul. 6. gr. tollalaga og reglugerðar 617/1989 kom í ljós að gildandi niðurfellingarheimild í reglugerðinni hefur ekki næga lagastoð. Ákvæði þessu er ætlað að bæta úr því þannig að fullnægjandi lagaheimild verði fyrir niðurfellingu eða endurgreiðslu vörugjalds af innlendu hráefni, efnivöru og hlutum með sama hætti og gildir um sams konar innfluttar vörur.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild til að fella niður eða endurgreiða gjöld taki til hráefnis, efnivöru og hluta sem fluttir hafa verið inn eða keyptir hérlendis frá 1. janúar 1994.