Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 527 . mál.


824. Frumvarp til laga


um breyting á lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989.

Flm.: Björn Bjarnason, Árni Johnsen, Egill Jónsson,

Guðni Ágústsson, Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson.


1. gr.


    1. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    4. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1989, um leigubifreiðar, er kveðið á um að atvinnuleyfi skuli falla úr gildi við lok 70 ára aldurs. Ákvæði laganna um atvinnuleyfi (IV. kafli) eiga aðeins við bifreiðastjóra fólksbifreiða fyrir átta farþega eða færri sem stunda atvinnu sína á svæðum þar sem takmörkun á fjölda bifreiða hefur verið ákveðin skv. 4. gr. Þetta þýðir að aldurshámarkið í 1. mgr. 9. gr. á aðeins við bifreiðastjóra sem slíkum bifreiðum aka. Ákvæðið á ekki við vörubifreiðastjóra eða sendibifreiðastjóra og það á ekki heldur við fólksbifreiðastjóra á bifreiðum fyrir átta farþega eða færri sem aka á svæðum þar sem takmörkun skv. 4. gr. hefur ekki verið beitt. Þá á það ekki heldur við bifreiðastjóra langferðabifreiða. Af þessu er ljóst að ákvæðið mismunar gróflega þeim bifreiðastjórum sem það á við samanborið við aðra atvinnubifreiðastjóra.
    Ákvæði 1. mgr. 9. gr. verður ekki réttlætt með öryggissjónarmiðum. Fyrir þeim er séð með ákvæði í 51. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og reglugerð nr. 787/1983, um ökukennslu, próf ökumanna og fleira, sbr. reglugerð nr. 116/1988, um breytingu á henni. Þar er að finna almenn ákvæði sem eiga við alla ökumenn jafnt. Er þar m.a. gert ráð fyrir að fullnaðarökuskírteini gildi þar til skírteinishafi sé fullra 70 ára. Eftir það fá menn aðeins tímabundin ökuleyfi sem ekki eru endurnýjuð nema menn sanni m.a. með læknisvottorði að þeir uppfylli tilteknar lágmarkskröfur um heilbrigði.
    Þá er einnig vandséð að öryggissjónarmið standi sérstaklega til þess að svipta hluta fólksbifreiðastjóra atvinnuleyfi við tiltekinn aldur þegar atvinnubílstjórar á sendibifreiðum, vörubifreiðum og langferðabifreiðum mega halda atvinnu sinni áfram þótt þeir hafi náð sama aldri. Raunar er augljóst að þessir síðarnefndu bílstjórar aka bifreiðum sem eru stærri, þyngri og jafnvel hættulegri.
    Vilji menn af öðrum ástæðum en þeim sem rekja má til öryggissjónarmiða takmarka rétt manna yfir 70 ára aldur til að aka leigubifreiðum er unnt að gera það án afskipta löggjafans, t.d. með starfsreglum stéttarfélags eða bifreiðastöðva.
    Hinn 3. júní 1993 dæmdi Hæstiréttur í máli sem Magnús Gunnar Guðmundsson hafði höfðað gegn samgönguráðherra, umsjónarnefnd fólksbifreiða á félagssvæði Bifreiðastjórafélagsins Frama og Bifreiðastjórafélaginu Frama. Hafði Magnús Gunnar misst atvinnuleyfi sitt vegna aldurs á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laganna um leigubifreiðar og höfðað málið til að fá þeim missi leyfisins hnekkt. Meiri hluti Hæstaréttar, fjórir dómarar af fimm, sýknuðu stefndu og höfnuðu þar með sjónarmiðum stefnandans um að brotin hefði verið á honum ólögfest stjórnskipunarregla um jafnræði borgaranna. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi umrætt ákvæði ekki standast að stjórnlögum þar sem það fæli í sér mismunun eftir búsetu leigubifreiðastjóra. Magnús Gunnar Guðmundsson hefur sent mannréttindanefnd Evrópu kæru sem byggð er á því að í meðferð sinni á honum í málinu hafi Ísland brotið gegn 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það ákvæði hefur að geyma bann við því að borgurum sé mismunað gagnvart þeim réttindum og frelsi sem sáttmálinn lýsir. Kæran er nú til athugunar hjá nefndinni.