Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 529 . mál.


828. Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu Torremolinos-bókunarinnar frá 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa, 1977.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Torremolinos-bókunina frá 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa, 1977, sem undirrituð var í Torremolinos 2. apríl 1993.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Dagana 22. mars til 2. apríl 1993 var haldin í Torremolinos-alþjóðaráðstefna um öryggi fiskiskipa á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO.
    Fulltrúar samtals 49 ríkja tóku þátt í ráðstefnunni en auk þeirra áttu tvö ríki og fimm alþjóðastofnanir áheyrnaraðild. Fyrir Íslands hönd tóku Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Benedikt E. Guðmundsson siglingamálastjóri og Ari Guðmundsson, skipatæknifræðingur frá Siglingamálastofnun, þátt í ráðstefnunni sem fulltrúar auk Guðjóns A. Kristjánssonar, varaþingmanns og forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Ragnars G. D. Hermannssonar, varaforseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem voru ráðgjafar. Aðalfulltrúi Spánar, M. Panadero Lopez, var kosinn forseti ráðstefnunnar, en Ragnhildur Hjaltadóttir var kosin einn af fimm varaforsetum.
    Ástæða þess að ráðstefna þessi var haldin er sú að Torremolinos-alþjóðasamþykktin um öryggi fiskiskipa frá 1977 hefur aldrei öðlast gildi, aðallega vegna þess að ýmis ákvæði samþykktarinnar voru of ströng til að sum ríki með stóran fiskveiðiflota gætu fullgilt hana. Samþykktin var fullgilt fyrir Íslands hönd 12. júní 1986 samkvæmt heimild í ályktun Alþingis 17. apríl 1986, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 9/1986 þar sem hún er birt. Síðastliðin fjögur ár hefur á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verið unnið að breytingum á samþykktinni með það að markmiði að hún gæti öðlast gildi innan mjög skamms tíma.
    Fyrir ráðstefnuna var af hálfu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar lagður texti sem drög að bókun við alþjóðasamþykktina. Þessi drög voru unnin af sérstökum vinnuhópi á vegum þeirrar nefndar IMO sem fjallar um stöðugleika og hleðslumerki skipa og öryggi fiskiskipa, en gengið var frá drögunum á síðasta fundi vinnuhópsins sem haldinn var í Reykjavík 1.–5. júní 1992.
    Þáttur Íslands í gerð alþjóðlegra ályktana og reglna um öryggi fiskiskipa er umtalsverður. Frumdrögin að Torremolinos-alþjóðasamþykktinni um öryggi fiskiskipa, 1977, voru unnin af sérstakri nefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggi fiskiskipa sem starfaði innan stofnunarinnar í 13 ár samfellt og var Hjálmar R. Bárðarson, þáverandi siglingamálastjóri, formaður þessarar sérstöku nefndar allt frá upphafi árið 1964 endurkosinn árlega. Þessi sérstaka nefnd hafði áður gengið frá ýmsum ályktunum og reglum um fiskiskip sem staðfestar voru af þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og eru nú þegar notaðar sem grundvöllur reglna fjölda ríkja.
    Í lok ráðstefnunnar 2. apríl 1993 var samþykkt Torremolinos-bókunin frá 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa, 1977. Bókunin var þá undirrituð fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu. Hún er birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari. Viðaukinn hefur að geyma ákvæði Torremolinos-samþykktarinnar, með áorðnum breytingum.
    Alþjóðasamþykktin ásamt tilheyrandi bókun, sem hér um ræðir, er sú fyrsta sem fjallar sérstaklega um öryggi fiskiskipa. Hún fjallar um kröfur varðandi hönnun, smíði og búnað nýrra þilfarsfiskiskipa sem eru 24 m að lengd og lengri, einnig um skip sem vinna eigin afla. Bókunin nær ekki til eldri skipa, nema að því er varðar neyðaráætlanir, siglingatæki og fjarskiptabúnað þeirra, þar á meðal fjarskiptabúnað sem er hluti af björgunarbúnaði.
    Aðalbreytingarnar, sem gerðar voru á texta samþykktarinnar frá 1977, eru þær að IV., V., VII. og IX. kafli gilda fyrir fiskiskip sem eru 45 m að lengd og lengri í stað fiskiskipa 24 metra og lengri.
    Meginefni Torremolinos-bókunarinnar er sem hér segir:
    Greinar bókunarinnar fjalla almennt um heildarmarkmið bókunarinnar og framkvæmd hennar, m.a. um gildistöku og síðari endurskoðun og breytingar bókunarinnar. Bókunin öðlast gildi tólf mánuðum frá þeim degi er eigi færri en fimmtán ríki hafa fullgilt hana, enda ráða þau sameiginlega yfir að minnsta kosti 14.000 fiskiskipum sem eru 24 m að lengd og lengri sem er u.þ.b. 50% af fiskiskipastól heimsins.
    Nýmæli er að skv. 5. tölul. 3. gr. er gert ráð fyrir að ríki, sem liggja að ákveðnum hafsvæðum, geri með sér svæðisbundið samkomulag um samræmdar lágmarkskröfur fyrir fiskiskip sem eru 24 m að lengd og lengri, en styttri en sem nemur þeirri lengd sem gildissvið IV., V., VII. og IX. kafla nær til.
    I. kafli viðauka við bókunina fjallar um almenn ákvæði, undanþáguheimildir, eftirlit, útgáfu skírteina o.fl.
    II. kafli er um smíði fiskiskipa, vatnsþétta niðurhólfun, lokunarbúnað og ýmsan búnað.
    III. kafli er um stöðugleika fiskiskipa og sjóhæfni. Ákvæðin í samþykktinni frá 1977 eru óbreytt, en minni háttar breytingar eru gerðar varðandi reiknuð hleðslutilvik.
    IV. kafli er um vélbúnað, rafmagnskerfi og sjálfvirkni í vélarrúmi, þ.e. tímabundið ómönnuð vélarrúm. Þessi kafli gildir fyrir ný fiskiskip 45 m að lengd og lengri. Í grundvallaratriðum eru þetta sams konar ákvæði og fyrir vélbúnað og rafmagnskerfi í farþegaskipum og vöruflutningaskipum samkvæmt öðrum IMO-samþykktum.
    V. kafli er um eldvarnir, eldskynjun, slökkvibúnað og slökkvistörf. Þessi kafli skiptist í tvo hluta: Hluti A gildir fyrir ný fiskiskip 60 m að lengd og lengri og hefur að geyma svipaðar kröfur og gilda fyrir flutningaskip samkvæmt öðrum IMO-samþykktum. Hins vegar eru í hluta B gerðar heldur minni kröfur til styttri fiskiskipa, þ.e. þeirra sem eru milli 45 og 60 m að lengd.
    VI. kafli er um búnað til verndar áhöfninni. Þessi kafli fjallar um öryggisráðstafanir vegna t.d. vinnu á opnu þilfari.
    VII. kafli er um björgunarbúnað fiskiskipa og fyrirkomulag hans. Kaflinn, sem skiptist í þrjá hluta, hefur að geyma svipuð ákvæði og eru í alþjóðasamningi frá 1. nóvember 1974 um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) sem gildir almennt fyrir kaupskip. Hluti A fjallar um almenn atriði varðandi ný fiskiskip 45 m að lengd og lengri. Sumar reglurnar gilda þó bæði fyrir ný og gömul skip. Hluti B fjallar um ákvæði varðandi skipið ásamt ákvæðum um björgunarför og léttbáta með hliðsjón af stærð viðkomandi skips. Hluti C fjallar um ákvæði varðandi björgunarbúnað, þar á meðal smíði, búnað o.s.frv. á björgunarbátum, björgunarflekum og léttbátum. Einnig er þar fjallað um kröfur til björgunarflotbúninga og einangrunarpoka.
    VIII. kafli er um neyðarráðstafanir, skráningar og æfingar ásamt tilheyrandi þjálfun.
    IX. kafli er um loftskeytabúnað. Ákvæði þessa kafla eru nánast þau sömu og í IV. kafla SOLAS-samningsins og hefur því að geyma hinn nýja staðal um þráðlaus fjarskipti, GMDSS. Kaflinn gildir fyrir bæði ný og gömul fiskiskip 45 m að lengd og lengri. Samt sem áður er heimild til að veita gömlum fiskiskipum frest til 1. febrúar 1999 eða til þess dags þegar bókunin öðlast gildi eftir því hvor dagsetningin kemur síðar.
    X. kafli er um siglingatæki og útsýni frá stjórnpalli. Ákvæði hans eru sambærileg ákvæðunum í V. kafla SOLAS-samningsins, en það er eini kafli SOLAS-samningsins sem gildir fyrir öll skip, þ.e. ný og gömul skip, þar á meðal fiskiskip án tillits til farsviðs.
    Í fylgiskjali við lokasamþykkt Torremolinos-alþjóðaráðstefnunnar eru ályktanir og tilmæli um ýmis frekari atriði er varða öryggi fiskiskipa.
    Flest ákvæði þessarar bókunar hafa nú þegar verið sett inn í íslenskar reglur fyrir skip, t.d. reglur um stöðugleika og öryggi fiskiskipa. Nýjar íslenskar reglur um loftskeytabúnað skipa verða gefnar út á næstunni, en þær eru að verulegu leyti byggðar á hinum nýja alþjóðlega staðli um þráðlaus fjarskipti, GMDSS. Loks má geta þess að verið er að endurskoða reglur um vélbúnað og eldvarnir í fiskiskipum.
    Með hliðsjón af framangreindu fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi veiti heimild til fullgildingar bókunarinnar.


..........


    Á fylgiskjali með þingsályktunartillögunni var prentaður á ensku og íslensku texti Torremolinos-bókunarinnar frá 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa, 1977, ásamt viðbæti.
    Um fylgiskjalið vísast til þingskjalsins (lausaskjalsins). Enn fremur verður bókunin prentuð í C-deild Stjórnartíðinda.