Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 533 . mál.


832. Frumvarp til laga


um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

    Lög þessi ná til vöru sem boðin er neytendum hér á landi í atvinnuskyni eða neytendum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins af aðilum sem staðfestu hafa hér á landi. Lögin taka einnig til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti.
    Lögin ná ekki til matvæla, lyfja eða vöru sem nær eingöngu er notuð í atvinnurekstri.
    

2. gr.

    Vörur sem ætlaðar eru til sölu, leigu eða hvers kyns annarrar afhendingar í atvinnuskyni á markaði skulu vera þannig úr garði gerðar að þær fullnægi kröfum sem vegna almannahagsmuna eru gerðar til þeirra í reglugerðum eða stöðlum um öryggi og vernd heilsu og umhverfis.
    Með opinberri markaðsgæslu er leitast við að tryggja að vörur á markaði uppfylli settar reglur að þessu leyti.
    

3. gr.

    Framkvæmd laga þessara og almenn mál er varða öryggi vöru og markaðsgæslu heyra undir viðskiptaráðherra.
    Dagleg framkvæmd laga þessara er í höndum Löggildingarstofunnar og annarra eftirlitsstjórnvalda, sbr. IV. kafla.
    Viðskiptaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    

II. KAFLI

Skilgreiningar.

4. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:
    Ábyrgðaraðili merkir aðila sem ber ábyrgð á markaðssetningu vöru hér á landi, hvort sem um er að ræða framleiðanda, fulltrúa hans eða innflytjanda.
    Eftirlitsstjórnvald merkir stjórnvald sem hefur samkvæmt sérstökum lögum heimild eða skyldu til eftirlits á markaði með tilteknum vöruflokkum. Eftirlitsstjórnvald getur verið ráðuneyti, stofnun eða ráðuneyti og undirstofnun þess í sameiningu. Löggildingarstofan er eftirlitsstjórnvald fyrir alla vöruflokka sem ekki eru á ábyrgð annarra eftirlitsstjórnvalda samkvæmt sérstökum lögum.
    Faggilt prófunarstofa merkir fyrirtæki eða stofnun sem annast prófun og hefur verið faggilt til þess í samræmi við staðla og aðrar þær reglur sem um faggildingu fjalla.
    Faggilt skoðunarstofa merkir fyrirtæki eða stofnun sem annast skoðun og hefur verið faggilt til þess í samræmi við staðla og aðrar þær reglur sem um faggildingu fjalla.
    Framleiðandi merkir framleiðanda vöru og hvern annan aðila sem kynnir sig sem framleiðanda vöru með því að merkja vöruna með nafni sínu, viðskiptaheiti eða öðru kennimarki. Þá getur framleiðandi talist aðili sem endurgerir vöru eða er umboðsmaður framleiðanda með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins ef framleiðandi hefur ekki staðfestu á því svæði. Loks getur framleiðandi átt við aðra þá aðila í aðfangakeðju vöru sem hafa framleitt íhluti sem öryggi vörunnar byggist á.
    Hættuleg vara merkir sérhverja vöru sem ekki fellur undir skilgreiningu laga þessara á öruggri vöru.
    Markaðseftirlit merkir markvisst og skipulegt eftirlit með vörum á markaði. Það greinist í markaðsskoðun annars vegar og skipulega öflun upplýsinga um vörur á markaði hins vegar, m.a. með því að taka á móti ábendingum um vörur sem taldar eru hættulegar. Markaðseftirlit er framkvæmt af faggiltri skoðunarstofu.
    Markaðsskoðun merkir rannsókn á vöru og ákvörðun um hvort hún samræmist sérstökum eða almennum kröfum. Mat á samræmi vöru er framkvæmt eftir föstum og skilgreindum verklagsreglum.
    Neytandi merkir einstakling sem kaupir vöru eða þjónustu í tengslum við vöruviðskipti enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
    Opinber markaðsgæsla merkir skipulagða og skilgreinda viðleitni stjórnvalda til að tryggja að vörur á markaði uppfylli settar reglur um öryggi, heilsuvernd og umhverfisvernd. Opinber markaðsgæsla greinist í markaðseftirlit og stjórnvaldsaðgerðir. Opinber markaðsgæsla er ávallt á ábyrgð opinberra stjórnvalda.
    Prófun merkir tæknilega framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferils eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.
    Samvinnunefnd merkir samstarfsvettvang eftirlitsstjórnvalds, Löggildingarstofunnar og skoðunarstofu sem annast framkvæmd markaðseftirlits.
    Seljandi merkir framleiðanda vöru, umboðsmann framleiðanda, innflytjanda, millilið á síðari stigum, dreifingaraðila og smásala.
    Stjórnvaldsaðgerðir merkja ákvarðanir, úrskurði og aðgerðir eftirlitsstjórnvalds, sbr. 14. gr.
    Vara merkir sérhverja framleiðsluvöru sem boðin er neytendum gegn gjaldi eða endurgjaldslaust í tengslum við atvinnurekstur seljanda, hvort sem hún er ný, notuð eða endurgerð. Þetta gildir ekki ef um er að ræða notaða vöru sem telst hafa fornmunagildi eða þarfnast lagfæringar fyrir notkun enda geri seljandi kaupanda grein fyrir því áður en viðskiptin fara fram eða kaupanda má vera það ljóst.
    Örugg vara merkir sérhverja vöru sem við eðlilega eða fyrirsjáanlega notkun fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu og umhverfis.

III. KAFLI

Öryggi vöru.

5. gr.

    Ábyrgðaraðilar og aðrir seljendur sem selja eða afhenda vöru á annan hátt í atvinnuskyni skulu gæta þess að vara þeirra sé örugg og er óheimilt að setja hættulega vöru á markað. Sömu aðilum er skylt að tilkynna tafarlaust eftirlitsstjórnvaldi eða skoðunarstofu ef þeir fá vitneskju um hættulega vöru sem þeir kunna að hafa sett á markað fyrir vangá eða af vanþekkingu og taka þátt í aðgerðum til að fjarlægja hana af markaði.
    Við mat á öryggi vöru skal einkum taka tillit til eftirtalinna þátta:
    Eðlis hennar, þar með talið samsetningu, umbúðir, samsetningarleiðbeiningar og viðhald.
    Áhrifa hennar á aðrar vörur er ljóst þykir að hún verði notuð með.
    Kynningar sem henni fylgja, svo sem merkingar á henni, leiðbeiningar um notkun og förgun og aðrar upplýsingar sem framleiðandi lætur í té.
    Öryggis hennar gagnvart viðkvæmum notendum, svo sem börnum.
    Við mat á öryggi vöru skal það ekki sjálfkrafa leiða til þess að hún sé metin hættuleg að til sé á markaði önnur vara sem sé talin enn fullkomnari með tilliti til öryggis eða unnt væri að auka öryggi hennar.
    

6. gr.

    Falli vara ekki undir önnur eftirlitsstjórnvöld er viðskiptaráðherra heimilt að ákveða eftirfarandi í reglugerð:
    Kröfur sem vara verður að uppfylla til að teljast örugg.
    Aðferðir sem framleiðandi getur beitt til að sýna fram á samræmi vöru við settar reglur, t.d. með merkingu, vottorði, yfirlýsingu um samræmi, prófunarskýrslu, skjali með tæknilegum upplýsingum o.fl.
    Merkingar vöru, leiðbeiningar og upplýsingar um notkun og förgun vöru, viðvaranir um hugsanlega hættu við notkun hennar og aðra þætti er varða upplýsingar til neytenda.
    Heimilt er í reglugerð um framangreint efni að vísa til staðla sem gilda um öryggi vöru á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samþykktir hafa verið sem íslenskir staðlar.
    

7. gr.

    Falli vara ekki undir önnur eftirlitsstjórnvöld er viðskiptaráðherra heimilt að ákveða í reglugerð að vörum í ákveðnum vöruflokkum sem settar eru á markað hér á landi skuli fylgja tilteknar upplýsingar um eiginleika þeirra og notagildi til þess að auðvelda neytendum vöruval. Skal þá beita ákvæðum laga þessarra um markaðsgæslu eftir því sem við á í því skyni að hafa eftirlit með því að slík reglugerðarákvæði séu virt.
    

IV. KAFLI

Opinber markaðsgæsla.

8. gr.

    Með opinberri markaðsgæslu skal vinna að því að vörur á markaði uppfylli settar reglur og skapi ekki hættu.
    Löggildingarstofan og eftirlitsstjórnvald fara með stjórnvaldsþátt markaðsgæslu í samræmi við ákvæði 9. og 10. gr.
    Skoðunarstofa annast markaðseftirlit í samræmi við 11. gr.
    Samvinna Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu fer fram á vettvangi samvinnunefndar í samræmi við 12. gr.
    

9. gr.

    Hlutverk eftirlitsstjórnvalds í opinberri markaðsgæslu er sem hér greinir:
    Að setja reglur um þá vöruflokka sem það ber ábyrgð á samkvæmt sérlögum. Slíkar reglur taka að lágmarki til öryggis, verndar heilsu og umhverfis en geta einnig tekið til fleiri þátta, svo sem notagildis.
    Að móta meginstefnu um áherslur í markaðseftirliti og umfang eftirlits með þeim vöruflokkum sem það ber ábyrgð á.
    Að annast í samvinnu við Löggildingarstofuna samningsgerð við skoðunarstofu og greiða þann kostnað vegna hans sem ekki er greiddur af gjöldum skv. 16. og 17. gr.
    Að fella úrskurði í einstökum málum, sbr. 14. gr., eftir að samvinnunefnd hefur fjallað um málið og lagt fram tillögu sína.
    

10. gr.

    Hlutverk Löggildingarstofunnar í opinberri markaðsgæslu er:
    Að vera eftirlitsstjórnvald fyrir alla vöruflokka sem ekki eru á ábyrgð annarra eftirlitsstjórnvalda samkvæmt sérstökum lögum.
    Að annast heildarskipulag opinberrar markaðsgæslu í samvinnu við önnur eftirlitsstjórnvöld með því markmiði að tryggja hagkvæmni og samhæfingu.
    Að hafa, í samstarfi við eftirlitsstjórnvöld, umsjón með samningum við skoðunarstofur og útbúa samningsgögn eftir því sem við á.
    Að úrskurða hvaða eftirlitsstjórnvald ber ábyrgð á markaðsgæslu tiltekinnar vöru eða vöruflokks leiki vafi á slíku.
    Að samhæfa aðgerðir eftirlitsstjórnvalda ef eiginleikar vöru eða vöruflokks eru slíkir að ábyrgð á markaðsgæslu sé í höndum fleiri en eins eftirlitsstjórnvalds.
    

11. gr.

    Markaðseftirlit skal framkvæmt af faggiltri skoðunarstofu. Skoðunarstofa annast markaðsskoðun, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um vörur á markaði og tekur við kvörtunum og ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum.
    Samið skal við eina eða fleiri skoðunarstofur um framkvæmd markaðseftirlits. Miðað skal við að framkvæmdin sé boðin út nema sérstakar aðstæður mæli gegn því. Löggildingarstofan og eftirlitsstjórnvald annast útboð og samningsgerð í sameiningu.
    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um markaðseftirlit og um skoðunarstofur sem framkvæma markaðseftirlit.
    

12. gr.

    Samstarf Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu fer fram í sérstakri samvinnunefnd. Samvinnunefnd fjallar um starfsáætlanir í markaðseftirliti, athugasemdir sem gerðar eru við einstakar vörur og vöruflokka og gerir tillögur um stjórnvaldsaðgerðir til eftirlitsstjórnvalds sem tekur endanlega ákvörðun.
    Að jafnaði skal starfa ein samvinnunefnd á verksviði hvers eftirlitsstjórnvalds en aðilar geta þó ákveðið aðra skipan, t.d. að hafa fleiri en eina samvinnunefnd ef vöruflokkar eru ólíkir eða hafa sameiginlega samvinnunefnd tveggja eða fleiri eftirlitsstjórnvalda.
    Aðilar ákveða fjölda fulltrúa í samvinnunefnd. Samvinnunefnd velur formann úr hópi nefndarmanna.
    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan og starfsemi samvinnunefndar.
    

V. KAFLI


Markaðseftirlit.

13. gr.

    Skoðunarstofu er heimilt að skoða vörur hjá seljanda og krefjast upplýsinga um ábyrgðaraðila, svo og að taka sýnishorn vöru til rannsóknar. Seljanda er skylt að halda skrá með upplýsingum um ábyrgðaraðila allra þeirra vara sem hann hefur á boðstólum.
    Skoðunarstofa getur krafið ábyrgðaraðila um vottorð, yfirlýsingu um samræmi við reglur og staðla, prófunarskýrslu, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna öryggi vöru. Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir allar vörur sem hann hefur á boðstólum.
    Starfsmenn Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og viðskiptaleynd hvílir yfir. Það skal þó ekki vera því til fyrirstöðu að þeir birti opinberlega upplýsingar um hættulega vöru ef brýna nauðsyn ber til sökum þess að af vörunni stafar hætta fyrir öryggi, heilsu eða umhverfi.
    

VI. KAFLI

Stjórnvaldsaðgerðir.

14. gr.

    Ef vara uppfyllir ekki formleg skilyrði um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi, prófunarskýrslur o.s.frv. getur eftirlitsstjórnvald bannað sölu hennar.
    Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn vöru eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi hennar getur eftirlitsstjórnvald bannað sölu hennar.
    Ef rökstuddur grunur leikur á að vara uppfylli ekki settar öryggisreglur getur eftirlitsstjórnvald ákveðið tímabundið bann við sölu hennar á meðan rannsókn fer fram í málinu.
    Þyki ljóst að vara uppfylli ekki settar öryggisreglur getur eftirlitsstjórnvald bannað sölu hennar.
    Ef vara er álitin sérstaklega hættuleg getur eftirlitsstjórnvald krafist tafarlausrar afturköllunar allra eintaka vörunnar. Ábyrgðaraðili skal lagfæra vöruna þannig að hún uppfylli settar reglur, afhenda kaupendum sams konar vöru en hættulausa eða greiða kaupendum andvirði vörunnar. Eftirlitsstjórnvald getur þó ákveðið að óheimilt sé að lagfæra vöru eða endurnýta hana á annan hátt ef það telst hættulegt eða varhugavert að mati þess. Hægt er að skylda ábyrgðaraðila til að eyðileggja öll eintök vörunnar með öruggum hætti ef nauðsyn þykir af eðli máls.
    

15. gr.

    Eftirlitsstjórnvald skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við ábyrgðaraðila um málsmeðferð, svo sem öflun gagna, skoðun og prófun vöru og aðgerðir eins og stöðvun sölu og afturköllun vöru.
    Eftirlitstjórnvaldi ber að tilkynna ábyrgðaraðila um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum sem eftir aðstæðum geta verið skoðunarskýrsla, prófunarskýrsla eða önnur gögn.
    Ábyrgðaraðila skal veittur eðlilegur frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en heimilt er að víkja frá því ef vara er álitin sérstaklega hættuleg.
    Hafi eftirlitsstjórnvald bannað sölu vöru á grundvelli þess að hún uppfylli ekki öryggiskröfur er ábyrgðaraðila heimilt að krefjast þess að varan skuli prófuð af faggiltri prófunarstofu. Slík prófun frestar ekki framkvæmd ákvörðunar eftirlitsstjórnvalds.
    Heimilt er eftirlitsstjórnvaldi að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.
    Ákvörðunum lægra setts eftirlitsstjórnvalds má skjóta til úrskurðar viðkomandi ráðherra en málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.
    

16. gr.

    Ábyrgðaraðili ber kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum.
    Ábyrgðaraðili ber allan kostnað af afturköllun vöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal ábyrgðaraðili bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn, prófun, svo og annan kostnað. Heimilt er að ákveða gjöld fyrir einstaka þætti í rannsókn vöru með sérstakri gjaldskrá sem staðfest er af viðskiptaráðherra.
    

17. gr.

    Heimilt er að leggja sérstakt markaðsgæslugjald á ábyrgðaraðila og aðra seljendur til að standa straum af greiðslum til skoðunarstofa, kostnaði samvinnunefnda og kostnaði Löggildingarstofunnar vegna almenns vöruöryggis.
    Gjaldið skal miðast við umfang eftirlits með hverjum aðila sem ræðst af fjölda vöruflokka, vörutegunda og vörueintaka, stöðu í framleiðslu- og dreifingarkeðju og áhættumati. Gjaldið skal ákveðið í sérstakri gjaldskrá sem staðfest er af viðskiptaráðherra.
    

18. gr.

    Sé fyrirmælum eftirlitsstjórnvalds við framkvæmd laga þessara ekki hlítt má fylgja þeim eftir með ákvörðun viðkomandi ráðherra um dagsektir sem lagðar skulu á ábyrgðaraðila eða fyrirsvarsmenn hans. Slíkar dagsektir mega nema allt að 50.000 krónum á sólarhring samkvæmt nánari ákvörðun viðkomandi ráðherra. Er ákvörðunin aðfararhæf.
    Ef mikil hætta er á að vara valdi verulegu tjóni og fyrirmælum eftirlitsstjórnvalds skv. 14. gr. hefur ekki verið hlítt skal viðkomandi eftirlitsstjórnvald leitast við að koma í veg fyrir tjónið með tiltækum aðgerðum og getur það kvatt lögreglu sér til aðstoðar í því sambandi.
    

VII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

19. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.
    

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

Inngangur.
    Frumvarp til laga um öryggi framleiðsluvöru var lagt fyrir Alþingi á 115. og 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frumvarp þetta um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu er samið á grundvelli fyrra frumvarps en hefur verið breytt í nokkrum veigamiklum atriðum og hlotið nýtt heiti. Ástæður breytinganna eru nokkrar:
    Við undirbúning að sameiginlegum markaði Evrópubandalagsins ákváðu aðildarríki þess að setja nýjar og ítarlegri reglur um þetta efni og var það gert hinn 29. júní 1992 með tilskipun ráðs Evrópubandalagsins (92/59/EBE) um öryggi framleiðsluvöru. Fyrra frumvarp hefur nú verið endursamið í því skyni að fella það betur að þeim meginreglum sem þessi tilskipun hefur að geyma.
    Í frumvarpinu er kveðið á um reglur um öryggi vöru og þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti. Í fyrra frumvarpi var þjónusta hins vegar ekki þrengd með þessum hætti. Er það í samræmi við norræna löggjöf að hafa þjónustu einnig innifalda. Það er hins vegar ekki gert í tilskipun EB um öryggi framleiðslunnar.
    Við umfjöllun um fyrra frumvarpið komu fram athugasemdir um að þar væru takmörkuð ákvæði um framkvæmd laganna. Úr þessu hefur nú verið bætt með ítarlegum ákvæðum um opinbera markaðsgæslu. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmd laganna verði í höndum Löggildingarstofunnar og við hefur verið bætt ákvæðum um fjármögnun.
    
Reglur um öryggi vöru á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Frumvarp þetta er samið í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 2/1993. Samkvæmt 23. gr. og II. viðauka EES-samningsins skal samræma löggjöf aðildarríkjanna með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til margvíslegra vöruflokka. Samkvæmt 72. gr. og XIX. kafla II. viðauka EES-samningsins skal samræma löggjöf ríkja efnahagssvæðisins á sviði neytendamála. Tilgangur þessarar samræmingar er tvíþættur:
    Að sömu kröfur séu gerðar til vöru í öllum aðildarríkjum EES-samningsins í því skyni að tryggja frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins og koma í veg fyrir tæknilegar viðskiptahindranir.
    Að vörur uppfylli samræmdar kröfur um öryggi þannig að þær valdi ekki hættu fyrir neytendur, heilsutjóni eða skaða á umhverfi.
    Segja má að reglur um öryggi vöru á Evrópsku efnahagssvæði séu þríþættar.
    Í fyrsta lagi nákvæmar reglur um einstakar vörur eða vöruflokka. Undir þennan flokk fellur fjöldi tilskipana og annarra gerða. Þær byggja oftast á ítarlegum tæknilegum kröfum og lýsingum og eru því bæði umfangsmiklar og flóknar. Eftirlitskerfi og eftirlitsaðferðir, sem gert er ráð fyrir í gerðunum, eru af ýmsu tagi og samræming er takmörkuð. Oft hefur tekið mjög langan tíma að semja þessar tilskipanir og aðildarríki EB hafa þurft að samþykkja þær samhljóða.
    Í öðru lagi tilskipanir samkvæmt hinni „nýju aðferð“ („New Approach“). Vegna þess hve ákvarðanataka við setningu tilskipana var seinvirk var í tengslum við undirbúning innri markaðar EB ákveðið að taka upp „nýja aðferð“ við gerð og setningu tilskipana. Meginþættir aðferðarinnar eru að aðeins eru settar grundvallarkröfur vegna heilbrigðis, öryggis og umhverfis en um allar tæknilegar kröfur er vísað til staðla. Hægt er að samþykkja tilskipanirnar með auknum meiri hluta og því er ákvarðanataka skjótvirkari.
    Gerðar eru samræmdar kröfur um eftirlit í öllum tilskipunum. Samkvæmt hinni svonefndu einingaaðferð eru skilgreindar átta aðferðir sem framleiðendur geta notað til að sýna fram á að vara uppfylli settar reglur. Þessar aðferðir geta verið yfirlýsing framleiðanda, prófun, vottun, gæðastjórnun við framleiðslu o.fl. Í sérhverri tilskipun er gerð krafa um að framleiðendur noti eina eða fleiri af þessum aðferðum. Gerðar eru sömu kröfur til eftirlitsaðila (prófunarstofa, vottunarstofa og skoðunarstofa) í öllum ríkjunum og skulu þeir vera faggiltir. Allar vörur sem falla undir tilskipanirnar skulu merktar með svonefndu CE-merki sem staðfestir að vara uppfylli ákvæði viðkomandi tilskipunar.
    Auk þeirra krafna sem gerðar eru til framleiðenda eru einnig gerðar kröfur um að opinber stjórnvöld í hverju ríki standi fyrir eftirliti með vörunum á markaði. Þau skulu fylgjast með að vörur á markaði uppfylli sett skilyrði (séu merktar með CE-merki) og séu öruggar. Finnist hættulegar vörur skal banna þær og senda tilkynningar um það til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins (framkvæmdastjórnar EB og eftirlitsstofnunar EFTA). Ef rannsókn þessara aðila staðfestir úrskurð einstakra ríkja skal vara tekin af markaði á öllu svæðinu.
    Og í þriðja lagi almenn tilskipun um öryggi vöru. Ekki er ætlunin að sérhæfðar tilskipanir verði settar um alla vöruflokka enda er slíkt tæpast mögulegt. Því hefur verið talið nauðsynlegt að hafa almennt eftirlit með öryggi vöru og að setja almennar öryggisreglur sem allar vörur verða að uppfylla. Margir vöruflokkar eru þess eðlis að þó að hætta af þeim sé í sjálfu sér takmörkuð er ekki hægt að útiloka að einstakar vörur geti verið hættulegar. Auk þess koma sífellt nýjar vörur á markað og um þær þurfa að gilda almennar öryggisreglur. Því samþykkti EB-ráðið hinn 29. júní 1992 tilskipun um öryggi framleiðsluvöru (92/59/EBE). Tilskipunin á að taka gildi 29. júní 1994 í Evrópubandalaginu og 1. júlí 1994 í öðrum aðildarríkjum EES.
    
Tilgangur laganna.
    Tilgangur með lagafrumvarpinu er þríþættur:
    að setja almenn lög um öryggi vöru,
    að mynda lagalegan grunn fyrir tilskipanir um öryggi vöru sem ekki falla undir sérlög,
    að setja í lög ákvæði um opinbera markaðsgæslu í samræmi við eftirlitsreglur samkvæmt nýju aðferðinni og almenna tilskipun um öryggi framleiðsluvöru.
    
Almenn ákvæði um öryggi vöru.
    Hér á landi hafa ekki verið í gildi sérstök lög um öryggi vöru. Hins vegar hafa ákvæði laga nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, náð til þess að hluta og gilda þau enn. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga segir að þau séu sett til þess að „ekki séu hafðar á boðstólum eða seldar sviknar matvörur og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur er fyrir það skorti aðallega hollustu eða séu beinlínis skaðlegar heilbrigði manna enda má svo heita að til þessa hafi hér á landi ekkert opinbert eftirlit verið haft með slíku“. Frá gildistöku þeirra laga hafa þeir aðilar hér á landi sem annast hafa matvælaeftirlit, jafnframt sinnt í einhverjum mæli eftirliti með öðrum neyslu- og nauðsynjavörum hvað öryggi snertir. Hins vegar er nú þörf á miklu víðtækari heimildum í lögum til þess að sinna þessu hlutverki á þann hátt sem aðstæður á markaði krefjast.
    Í tengslum við endurskoðun matvælalaga er gert ráð fyrir því að fyrrnefnd lög verði felld úr gildi. Því er nauðsynlegt að setja sérstakar reglur um öryggi annarrar vöru en matvæla. Í því efni er að sjálfsögðu eðlilegt að litið sé til tilskipunar EB um öryggi framleiðsluvöru enda er hún í viðbótarpakka vegna EES sem tekur gildi 1. júlí 1994. Ákvæði hennar þarf því að taka í íslenskan rétt. Þess má geta að á undanförnum árum hafa verið lögfest almenn lög í öðrum EES-ríkjum um öryggi vöru.
    
Aðrar reglur um öryggi vöru.
    Auk almennra ákvæða um öryggi vöru er sértæk ákvæði um einstaka vöruflokka að finna í mörgum lögum hér á landi. Ábyrgð á framkvæmd laganna er í höndum ýmissa stjórnvalda sem hvert um sig ber ábyrgð á eftirliti með tilteknum vöruflokkum. Sem dæmi um vöruflokka sem fullnægja þurfa lögboðnum lágmarkskröfum um öryggi vöru samkvæmt ákvæðum núgildandi laga hér á landi má nefna eftirfarandi:



REPRÓ TAFLA
    Samkvæmt þessum lögum hafa stjórnvöld ýmist heimild til eða er gert skylt til að hafa eftirlit með vörum á markaði. Ákvæði um það hvernig eftirlitið fer fram eru í flestum tilfellum mjög takmörkuð.
    Ákvæði um eftirlit með vörum á markaði er að finna í mörgum tilskipunum sem samkvæmt EES-samningnum ber að festa í íslenskum rétti. Mikilvægastar eru tilskipanir samkvæmt hinni nýju aðferð, hér á eftir nefndar nýtilskipanir. Sem dæmi um þær má nefna:
    Tilskipun um notendabúnað til fjarskipta.
    Tilskipun um leikföng.
    Tilskipun um einföld þrýstihylki.
    Tilskipun um ósjálfvirkan vogarbúnað.
    Tilskipun um rafföng sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.
    Tilskipun um tæki sem orsaka segulsvið.
    Tilskipun um ígræðanleg lækningatæki.
    Tilskipun um búnað véla.
    Tilskipun um tæki sem brenna gasi.
    Einnig má nefna tilskipun EB-ráðsins frá 25. júní 1987 (87/357/EBE) um vörur sem reynst gætu hættulegar heilsu og öryggi neytenda þar eð þær virðast aðrar en þær eru, oft nefndar hættulegar eftirlíkingar.
    Að auki eru væntanlegar nýaðferðartilskipanir um fleiri vöruflokka. Meðal annars má nefna:
    Tilskipun um lyftur og lyftubúnað.
    Tilskipun um lækningatæki.
    Tilskipun um bólstruð húsgögn.
    Tilskipun um tæki á leikvöllum.
    Tilskipun um tæki í skemmtigörðum.
    Tilskipun um búnað skipa.
    Tilskipun um togbrautabúnað.
    Tilskipun um sjúkdómsgreiningarbúnað.
    Tilskipun um þrýstigeyma.
    Tilskipun um vélar.
    Tilskipun um skemmtibáta.
    Í nokkrum tilvikum er þegar kveðið á um öryggi ofangreindra vöruflokka og eftirlit með þeim í gildandi lögum, t.d. notendabúnaðar til fjarskipta og raffanga, en í öðrum tilvikum skortir lagaheimildir. Þetta á t.d. við um leikföng. Það hefur valdið því að ekki hefur reynst unnt að hrinda í framkvæmd ákvæðum EES-samningsins er lúta að öryggi leikfanga þótt Ísland hafi verið skuldbundið til þess þegar við gildistöku samningsins 1. janúar 1994.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að úr þessu verði bætt þannig að viðskiptaráðherra verði falið að setja fram kröfur um öryggi vöru í þeim tilvikum þegar ekki er sérstaklega kveðið á um slíkt í öðrum lögum.
    
Ákvæði um opinbera markaðsgæslu.
    Með gagnkvæmri viðurkenningu á vottunum og prófunum á Evrópska efnahagssvæðinu fellur niður það eftirlit sem haft hefur verið með vöru í einstökum ríkum áður en hún kemur á markað. Slíkt eftirlit hefur gjarnan verið við landamæri aðildarríkjanna eða falist í endurprófunum og vottunum í einstökum ríkjum. Í stað þessa eftirlits er nauðsynlegt að haft sé eftirlit á markaði með því að varan uppfylli sett skilyrði og gildandi öryggiskröfur.
    Í núgildandi lögum eru mjög takmörkuð ákvæði um hvernig staðið skuli að eftirliti á markaði, þ.e. hvernig eftirlit skuli framkvæmt og hvaða aðgerða stjórnvöld geti gripið til í einstökum tilfellum. Ákvæðin eru ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til markaðsgæslu samkvæmt nýaðferðartilskipunum. Oft er um að ræða óljósa heimild eða skyldu til að hafa eftirlit með því að vörur á markaði séu öruggar. Framkvæmdin er síðan útfærð í reglugerðum eða í ákvörðunum viðkomandi stjórnvalds.
    Við núverandi aðstæður er öryggi í raun takmarkað þar sem ekki er unnið með skipulögðum hætti að eftirliti með vörum á markaði. Mikil hætta er á að falboðnar séu vörur sem ekki uppfylla settar reglur um öryggi. Í skýrum reglum felst einnig réttarbót fyrir þá aðila sem framleiða, flytja inn og selja vörur. Ljóst verður hvaða kröfur eru gerðar til þeirra og eftirlit opinberra aðila lýtur skilgreindum reglum. Aðgerðir, t.d. bann við sölu á vöru, verða að byggja á fullnægjandi rannsókn.
    Eins og áður er nefnt er í mörgum tilskipunum gerð krafa til þess að einstök ríki komi á fót opinberri markaðsgæslu og því þykir nauðsynlegt að settar séu skýrar reglur um hana hér á landi. Opinber markaðsgæsla skiptist í markaðseftirlit annars vegar og stjórnvaldsaðgerðir gegn brotum hins vegar.
    Markaðseftirlit byggist á markaðsskoðunum, þ.e. vörur eru skoðaðar af hæfum aðila á markaði. Skoðanir geta verið úrtaksskoðanir, skoðanir vegna sérstaks átaks og ábendinga. Sá aðili sem annast markaðseftirlit tekur á móti ábendingum frá almenningi og öðrum aðilum um vöru sem grunur leikur á að uppfylli ekki settar reglur. Skoðunaraðili skoðar vöru, metur hvort hún uppfylli forkröfur um merkingar og leiðbeiningar og hvort hún uppfylli settar öryggiskröfur.
    Stjórnvaldsaðgerðir geta verið af ýmsu tagi. Stjórnvöld geta veitt leiðbeiningar, komið með ábendingar um úrbætur, bannað sölu vöru annaðhvort tímabundið eða varanlega eða krafist innköllunnar vörunnar af markaði og frá neytendum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að markaðseftirliti verði sinnt af óháðum faggiltum skoðunarstofum, einni eða fleiri. Gert er ráð fyrir að skoðunarstofur verði í flestum tilfellum reknar af einkaaðilum. Kostir þess að skoðunarstofur vinni að markaðseftirliti fremur en hefðbundnar opinberar stofnanir eru margvíslegir.
    Nauðsynlegt er að skoðunaraðili sé faglega hæfur. Með faggildingu er tryggt að skoðunarstofa hafi á að skipa faglegri hæfni til að annast markaðseftirlit. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem ekki verður mögulegt að koma upp prófunarstofum á þeim fjölmörgu sviðum sem eftirlit beinist að.
    Með því að fela skoðunarstofu markaðseftirlit eru hefðbundin stjórnsýsluverkefni skilin frá framkvæmd eftirlits. Náin tengsl stjórnsýslu og eftirlits eru óæskileg. Í eftirliti fer fram margháttað tæknilegt mat. Óheppilegt er að aðili, sem tekur ákvarðanir, beri beina ábyrgð á hinu tæknilega mati og mikilvægt er að skýr skil séu milli tæknilegs mats og stjórnsýslulegra ákvarðana. Að sjálfsögðu er í nokkrum mæli hægt að skilja þessa þætti að innan opinberra stofnana en reynslan sýnir að í fámennum stofnunum eins og á Íslandi er slíkur aðskilnaður yfirleitt vandkvæðum bundinn.
    Af hálfu skoðunarstofu þarf ekki aðeins að sýna fram á hæfni, það verður einnig að sýna fram á að unnið sé eftir skýrum og skjalfestum reglum og hlutleysis gætt og jafnræðis í markaðseftirliti.
    Sama skoðunarstofan getur unnið að markaðseftirliti fyrir mörg stjórnvöld. Með því fæst mikilvæg samþætting eftirlits með ýmsum vöruflokkum. Það segir sig sjálft að engin skynsemi er í því að margar stofnanir hafi eftirlitsmenn á sínum vegum sem hafa meira og minna eftirlit með vörum hjá sömu aðilum. Með samþættingu má lækka kostnað og einfalda mjög öll samskipti við stjórnvöld af hálfu seljenda almennrar neysluvöru.
    Þess skal getið í þessu sambandi að viðskiptaráðuneytið gerði síðari hluta ársins 1992 samning við Bifreiðaskoðun Íslands hf. um þróunarverkefni á sviði markaðseftirlits með rafföngum. Þetta verkefni hefur gengið að óskum og að mati ráðuneytisins liggur nú að mestu ljóst fyrir hvaða verklagsreglum þurfi að fylgja við markaðseftirlit, hvernig háttað skuli verksamningum við þá aðila sem taka að sér markaðseftirlit og hvernig skipuleggja skuli samstarf stjórnvalds og skoðunarstofu.
    Gert er ráð fyrir því að samstarf stjórnvalds og skoðunarstofu fari fram í sérstakri samvinnunefnd. Þar er fjallað um starfsáætlanir og áherslur í eftirliti, rætt um athugasemdir sem gerðar eru um einstakar vörur og tillögur gerðar til stjórnvalds um aðgerðir. Stjórnvald tekur í öllum tilfellum endanlega ákvörðun um aðgerðir.
    
Verkaskipting stjórnvalda.
    Þegar setja á almenn lög á sviði þar sem fyrir eru mörg sérlög þarf að draga hvar mörkin milli sérlaga og almennra laga eigi að liggja. Í þessu tilfelli þarf að móta hvaða þættir varðandi öryggi vöru eiga að vera í höndum Löggildingarstofunnar og hvaða þættir eiga að vera í höndum annarra stjórnvalda. Við undirbúning frumvarpsins voru nokkrar leiðir kannaðar.
    Einfaldasta leiðin er e.t.v. að allt eftirlit með öryggi almenns neysluvarnings sé á ábyrgð sama aðila. Þessi aðferð hefur ýmsa kosti, svo sem samhæfingu og möguleika á hagkvæmni í eftirliti. Gallar hennar eru að hætt er við að farið sé á mis við mikilvæga sérþekkingu einstakra stjórnvalda sem þau hafa hvert á sínu sviði. Auk þess er ábyrgð þeirra á tilteknum vöruflokkum oft tengd öðrum viðfangsefnum þeirra.
    Önnur leið er að gildissvið almennra ákvæða sé eins takmarkað og unnt er. Eftirlit er þá að öllu leyti í höndum stjórnvalda sem annast framkvæmd sérlaga nema varðandi þá vöruflokka sem ekki falla undir slík stjórnvöld. Þetta var að miklu leyti sú leið sem valin var í fyrra frumvarpi. Við nánari athugun hefur komið í ljós að þessi leið er ekki fær.
    Ástæður þess eru margvíslegar en fyrst og fremst er nauðsynlegt að samhæfa ýmsa þætti markaðseftirlitsins og í því felst hagkvæmni í framkvæmd sem ekki er unnt að ná með öðru móti.
    Þörf fyrir samhæfingu er af ýmsu tagi. Mikilvægt er að markaðseftirlit sé framkvæmt eftir samræmdum reglum og að reglurnar séu túlkaðar á samræmdan hátt. Í mörgum tilfellum er ekki ljóst undir hvaða stjórnvald tiltekin vara fellur og í öðrum tilfellum fellur vara undir fleiri en eitt stjórnvald. Augljóst er að einhver aðili verður að skera úr þegar ábyrgð skarast og samræma aðgerðir stjórnvalda í slíkum tilfellum. Samkvæmt tilskipun um öryggi framleiðsluvöru er gert ráð fyrir að einn aðili annist samskipti við stofnanir EES vegna skipta á upplýsingum um hættulegar vörur. Það er því nauðsynlegt að hér á landi sé einn aðili sem hafi yfirumsjón með eftirliti með öryggi vöru. Auk þess má nefna að það eru augljósir hagsmunir þeirra sem framleiða, dreifa og selja vöru að einn aðili beri yfirábyrgð á öllu markaðseftirliti.
    Eins og nefnt var að framan er mikil hagkvæmni fólgin í því að samþætta markaðseftirlit. Eitt samræmt eftirlitskerfi starfar í stað margra ósamhæfðra. Enginn skynsemi er í því að margir eftirlitsaðilar hafi eftirlit með sömu versluninni. Með samþættu eftirliti má ná mun meiri árangri fyrir minna fé.
    Í ljósi þessa er gert ráð fyrir að tekin verði upp ákveðin verkaskipting milli Löggildingarstofunnar og ráðuneyta eða stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti vöru samkvæmt sérlögum (nefnd eftirlitsstjórnvöld í frumvarpinu).
    Verkaskiptingin er í stuttu máli sú að eftirlitsstjórnvöld (og viðkomandi ráðuneyti) setja reglur um þá vöruflokka sem undir þau heyra, móta meginstefnu um áherslur í markaðseftirliti, taka ákvarðanir um umfang eftirlits og fella úrskurði í einstökum málum.
    Löggildingarstofan annast heildarskipulag opinberrar markaðsgæslu, sker úr um undir hvaða eftirlitsstjórnvald vöruflokkur heyrir leiki vafi á slíku og sér um samhæfingu þegar vara heyrir undir fleiri en eitt eftirlitsstjórnvald. Löggildingarstofan er eftirlitsstjórnvald fyrir þá vöruflokka sem ekki eru á ábyrgð annarra eftirlitsstjórnvalda samkvæmt sérlögum. Samningsgerð við skoðunarstofur annast eftirlitsstjórnvöld og Löggildingarstofan í sameiningu. Samvinna Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu fer fyrst og fremst fram í samvinnunefnd.
    
Kostnaður og fjármögnun.
    Fjármögnun markaðseftirlits er nokkrum vandkvæðum bundin. Með niðurfellingu tæknilegra viðskiptahindrana næst umtalsverður sparnaður fyrir framleiðendur og innflytjendur og kostnaður við markaðseftirlit mun aðeins nema hluta af þessum sparnaði. Eftirlit með vöru á markaði er að vissu leyti eðlilegur kostnaðarþáttur vöru og því eðlilegt að kostnaðurinn komi að sem mestu leyti fram í verði vöru sem er þess eðlis að eftirlit með henni er talið nauðsynlegt. Að auki virðast engin rök hníga að því að kostnaður við markaðseftirlit sé borinn af hefðbundnum skatttekjum ríkissjóðs. Kannaðar hafa verið leiðir til að leggja gjald á þær vörur sem haft verður eftirlit með. Þessi leið er ekki fær þar sem ekki er hægt að finna gjaldstofn sem hentar til þess. Lagt er til að fjármögnun markaðseftirlits verði einkum með þrennu móti:
    Gert er ráð fyrir að þeir aðilar sem bera ábyrgð á vöru sem ekki uppfyllir settar reglur greiði þann kostnað sem hlýst af skoðun, prófun og öðrum nauðsynlegum þáttum vegna rannsóknar og aðgerða eftirlitsstjórnvalds.
    Gert er ráð fyrir að heimilt verði að innheimta sérstakt markaðseftirlitsgjald sem lagt verði á þá aðila sem framleiða, dreifa og selja þær vörur sem eftirlit er haft með. Gjaldið verður breytilegt eftir því hve umsvif hvers aðila eru mikil og eftir skoðanatíðni sem m.a. ræðst af niðurstöðum fyrri skoðana hjá viðkomandi aðila. Til að byrja með er áætlað að aflað verði um 20 m.kr. með þessum hætti og að gjaldið geti verið frá nokkrum þúsundum króna til nokkurra tuga þúsunda króna á hvern aðila. Þessu gjaldi er einkum ætlað að standa undir kostnaði vegna þeirra vöruflokka sem nú er ekki haft eftirlit með.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að eftirlitsstjórnvöld greiði þann kostnað sem ekki er greiddur af gjöldum vegna markaðseftirlits. Eftirlitsstjórnvöld eiga nú þegar að hafa eftirlit með vörum á markaði og geta því af núverandi fjárveitingum staðið fyrir markaðseftirliti. Hversu mikið eftirlitsstjórnvöld leggja til markaðseftirlits fer að sjálfsögðu eftir forgangsröðun þeirra og áherslum.
    Auk beins kostnaðar opinberra aðila mun nokkur kostnaður lenda á fyrirtækjum. Erfitt er að meta hversu hár slíkur kostnaður er, en hann ætti ekki að vera umtalsverður. Vert er að vekja athygli á því að sá kostnaður sem hér er gert ráð fyrir að lagt verði í er bein afleiðing af skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum og er hluti af áætlun sem ætlað er að draga úr kostnaði fyrirtækja við að koma vörum á markað. Þá er einnig rétt að minna á að markaðseftirlit er í eðli sínu fyrirbyggjandi starfsemi. Ekki þarf að koma í veg fyrir mörg slys á ári til að kostnaður við markaðseftirlit sparist í heilbrigðiskerfinu og annars staðar í þjóðfélaginu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að lögin nái bæði til vöru og þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti. Oft og tíðum eru skilin milli vöru og þjónustu óglögg og því þykir ekki rétt að afmarka gildissvið laganna við vöru eingöngu. Gott dæmi um tengsl vöru og þjónustu eru viðgerðir. Það skiptir miklu máli fyrir öryggi þeirrar vöru sem í hlut á að varahlutir séu í lagi og að viðgerðarþjónusta sé það einnig. Því þykir eðlilegt að spyrða þetta tvennt saman. Lögin ná hins vegar ekki til þjónustu sem veitt er ein og sér, t.d. bankaþjónustu og rekstrarráðgjöf. Rétt er að taka fram að í tilskipun EB um öryggi framleiðsluvöru frá 1992 (59/92/EBE) er eingöngu fjallað um vöru en ekki þjónustu.
    Lagt er til að lögin nái jafnt til öryggis vara sem seldar eru hér á landi og vara sem settar eru á markað á Evrópska efnahagssvæðinu af aðilum sem hér hafa staðfestu í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Gera verður ráð fyrir að vörur sem hér eru framleiddar geti einnig farið á markað í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins enda um sameiginlegan markað að ræða. Verður því að gera sömu kröfur til útfluttra vara og þeirra sem ætlaðar eru fyrir innlendan markað.
    Ekki er gert ráð fyrir því að lögin nái til matvæla eða lyfja. Um lyf gilda mjög sérhæfðar reglur og eftirlit með þeim er mun nákvæmara en það eftirlit sem lög þessi mæla fyrir um. Gert er ráð fyrir að ný almenn lög um matvæli taki gildi mjög fljótlega og því þykir ekki þörf á að ákvæði þessara laga taki til matvæla. Eftirlit með matvælum á markaði er í höndum heilbrigðisfulltrúa og ekki er ástæða til að breyta því fyrirkomulagi með þessu frumvarpi.
    Þá er heldur ekki gert ráð fyrir að lögin nái til vöru sem nær eingögnu er notuð í atvinnurekstri. Í þessu felst að hráefni, tæki og aðrar vörur sem eru framleidd og seld til nota í atvinnurekstri og nær eingöngu notuð þar falla ekki undir gildissvið laganna. Slíkar vörur falla þá einungis undir sérlöggjöf eftir því sem við á, t.d. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lög um eftirlit með skipum. Ef vara er hins vegar bæði notuð í atvinnurekstri og af neytendum fellur hún undir gildissvið laganna. Þetta á t.d. við um skrifstofuhúsgögn, almennan tölvubúnað, handverkfæri, byggingarvörur og bifreiðar. Vert er að vekja athygli á því að skv. 2. gr. frumvarpsins taka lögin einnig til leigu og annarra afnota vöru. Lögin ná þannig til vöru sem notuð er í atvinnurekstri ef hún er leigð neytendum eða ef þeir nota hana á annan hátt í tengslum við viðskipti við eiganda hennar.
    

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um þá meginreglu að vörur, sem ætlaðar eru til hvers konar sölu, leigu eða annarrar afhendingar á markaði í atvinnuskyni, verði að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra vegna almannahagsmuna í reglugerðum eða viðurkenndum stöðlum um öryggi og vernd heilsu og umhverfis. Í 2. mgr. er ákvæði um að komið skuli á fót opinberri markaðsgæslu sem er nauðsynleg forsenda þess að farið verði að settum reglum um öryggi vöru.

Um 3. gr.

    Almenn framkvæmd laganna er í höndum viðskiptaráðherra en dagleg framkvæmd er í höndum Löggildingarstofunnar og eftirlitsstjórnvalda. Um verkaskiptingu þessara aðila vísast til athugasemda við 9. og 10. gr.
    

Um 4. gr.

    Í þessari grein er fjallað um ýmsar skilgreiningar orða sem notuð eru í frumvarpinu. Við samningu skilgreininganna er m.a. stuðst við ákvæði fyrrnefndrar tilskipunar EB um öryggi framleiðsluvöru.
    

Um 5. gr.

    Hér er lögð sú ábyrgð á ábyrgðaraðila, en ábyrgðaraðili er sá aðili sem ber ábyrgð á markaðssetningu vöru, sbr. 4. gr., að þeir gæti þess að vara þeirra sé örugg og er óheimilt að setja hættulega vöru á markað. Þeim er jafnframt skylt að tilkynna um leið og þeir fá vitneskju um hættulega vöru sem þeir kunna að hafa sett á markað fyrir vangá eða vanþekkingu og taka þátt í aðgerðum til að fjarlægja hana af markaði. Þar eð margir aðilar geta komið að dreifingu vöru er sú regla sett að einn skuli verða ábyrgðaraðili og er það í flestum tilvikum framleiðandi eða innflytjandi. Einnig eru í greininni ákvæði um helstu þætti sem geta haft áhrif á öryggi vöru.
    

Um 6. gr.

    Eins og rakið er í athugasemdum við frumvarpið er ekki ætlunin að breyting verði á verkaskiptingu ráðuneyta varðandi setningu reglna um öryggi vöru verði frumvarp þetta að lögum. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra setji aðeins fram kröfur um öryggi vöru ef öðrum er ekki falið það verkefni með lögum. Þannig mun t.d. setning reglna um öryggi barnabílstóla áfram heyra undir dómsmálaráðuneytið á grundvelli umferðarlaga en hins vegar mun viðskiptaráðherra setja reglur um öryggi leikfanga á grundvelli ákvæða í þessu frumvarpi.
    Í greininni er ráðherra heimilt að ákveða í reglugerð um kröfur sem gerðar eru til öruggrar vöru, aðferðir til að sýna fram á öryggi hennar og merkingar og leiðbeiningar sem vöru eiga að fylgja. Í slíkri reglugerð er heimilt að vísa til viðurkenndra staðla um öryggi vöru sem ætlað er að gilda á sameiginlegum markaði EES-ríkja. Slíkir staðlar eru jafnóðum gerðir að íslenskum stöðlum, sbr. lög nr. 97/1992, um staðla, og athugasemdir við frumvarp að þeim lögum sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi.
    

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra fái heimild til þess að ákveða með reglugerð að vörum í ákveðnum vöruflokkum skuli fylgja upplýsingar um eiginleika þeirra og notagildi í því skyni að auðvelda neytendum vöruval. Hér er ekki skilyrði að upplýsingarnar fjalli um öryggi vörunnar heldur geta upplýsingarnar verið almenns eðlis, svo sem um hráefni sem notuð hafa verið til framleiðslu vörunnar, um orkunotkun tækja o.s.frv. Beita skal ákvæðum laganna um markaðsgæslu eftir því sem við á í því skyni að hafa eftirlit með því að ákvæði reglugerðarinnar séu virt.
    

Um 8. gr.

    Hér er fjallað um markmið opinberrar markaðsgæslu sem er að vörur á markaði uppfylli settar reglur og skapi ekki hættu.
    Framkvæmd laganna er í höndum Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu. Samvinna þessara aðila fer fram í samvinnunefnd. Nánari ákvæði um framkvæmdina er í 9.–12. gr.

Um 9. gr.

    Eftirlitsstjórnvald annast hinn raunverulega stjórnvaldsþátt opinberrar markaðsgæslu, þ.e. ákveður umfang og áherslur og tekur ákvarðanir sem beinast að vöru sem ekki uppfyllir settar reglur. Rétt er að taka fram að það eru einstök eftirlitsstjórnvöld sem ákveða hvort markaðseftirlit fari fram. Hafi þau t.d. heimildir í lögum eða reglugerðum til að samþykkja vöru eða skrá hana áður en hún fer á markað er e.t.v. ekki þörf á markaðseftirliti.
    

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að Löggildingarstofan annist samhæfingarhlutverk í opinberri markaðsgæslu, auk þess að vera eftirlitsstjórnvald fyrir þá vöruflokka sem samkvæmt sérlögum falla ekki undir önnur eftirlitsstjórnvöld.
    Sú tillaga að fela Löggildingarstofunni þetta verkefni er þáttur í áætlun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta um að stofnuninni verði falið víðtækara hlutverk en verið hefur. Nú annast Löggildingarstofan mælifræðileg verkefni og faggildingu. Gert er ráð fyrir að eftir breytingar muni stofnunin auk þess annast mál sem snerta öryggi vöru í samræmi við frumvarp þetta.
    Þótt ekki sé beinlínis kveðið á um það í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samskipti við eftirlitsstofnun EFTA, þar með talið að senda og taka við tilkynningum um hættulegar vörur, verði í höndum viðskiptaráðuneytisins. Hins vegar er líklegt að Löggildingarstofunni verði falið það verkefni að hluta til eða öllu leyti þegar fram líða stundir. Hið sama gildir um erlend samskipti vegna almenns vöruöryggis.
    

Um 11. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði um að markaðseftirlit skuli framkvæmt af faggiltri skoðunarstofu. Í almennri greinargerð hefur verið fjallað ítarlega um þetta atriði og er vísað til þess.
    

Um 12. gr.

    Hér er fjallað um starfsemi samvinnunefndar. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að á starfssviði hvers eftirlitsstjórnvalds starfi ein samvinnunefnd. Þó er heimilt að víkja frá þessu, t.d. ef eftirlitsstjórnvald ber ábyrgð á vöruflokkum sem eru mjög ólíkir og kalla á ólíka sérþekkingu fulltrúa eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu í samvinnunefnd. Einnig geta eftirlitsstjórnvöld sameinast um samvinnunefnd sé slíkt talið henta. Með þessu móti er unnt að tryggja að verkefni hverrar samvinnunefndar séu hæfilega umfangsmikil og að fagleg sérþekking nefndarmanna sé tryggð.
    

Um 13. gr.

    Í greininni er fjallað um rétt og skyldur aðila sem framkvæma markaðsskoðun og jafnframt um skyldur ábyrgðaraðila, seljanda og dreifingaraðila. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um 14. gr.

    Hér er fjallað um úrræði stjórnvalds ef í ljós kemur að vara er hættuleg eða rökstuddur grunur bendir til þess. Úrræðin eru tímabundið bann við sölu, varanlegt bann við sölu og loks afturköllun vöru.
    Þá er kveðið á um skyldu ábyrgðaraðila til þess að lagfæra vöru svo að hún uppfylli settar reglur, afhenda kaupendum sams konar vöru hættulausa eða greiða þeim andvirði vörunnar. Þá er hægt að skylda ábyrgðaraðila til að eyðileggja öll eintök vörunnar með öruggum hætti ef nauðsynlegt þykir af eðli máls. Til slíks yrði gripið í sérstökum hættutilvikum.

Um 15. gr.

    Hér er fjallað um samskipti eftirlitsstjórnvalds og þess sem ábyrgð ber á markaðssetningu vöru og er þar lögð sú skylda á eftirlitsstjórnvald að tilkynna rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Einnig ber eftirlitsstjórnvaldi að gæta andmælaréttar ábyrgðaraðila nema ekki gefist tími til þess sökum þess að vara sé talin svo hættuleg að taka þurfi hana tafarlaust úr sölu og dreifingu. Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að endurskoða ákvörðun á grundvelli nýrra gagna.
    

Um 16. gr.

    Hér er fjallað um kostnaðarskiptingu milli ábyrgðaraðila og þess sem annast markaðseftirlit. Ber ábyrgðaraðili kostnað vegna sýnishorna vöru sem hann lætur af hendi vegna rannsókna, en oft kallar rannsóknin á að taka verði vöruna í sundur og hún spillist sem söluvara. Að lokinni rannsókn skal skila vörunni eða eyðileggja eftir atvikum og er þar átt við að heilli og öruggri vöru sé skilað en hættuleg vara sé eyðilögð.
    Reynist nauðsynlegt að afturkalla vöru ber ábyrgðaraðili allan kostnað af því og eins ber hann kostnað af rannsókn vöru ef hún reynist ekki vera í samræmi við settar reglur um öryggi vöru. Hins vegar ber hin opinbera markaðsgæsla kostnaðinn ef ekkert reynist athugavert við vöruna.
    Lagt er til að heimilað sé að ákveða gjöld fyrir rannsókn vöru með gjaldskrá sem staðfest er af ráðherra og er þar átt við að ákveðið sé fast verð fyrir hvern þátt í rannsókn vörunnar sem samsvari meðaltalskostnaði. Yrði slíkt til einföldunar jafnt fyrir markaðsgæslu sem ábyrgðaraðila.
    

Um 17. gr.

    Hér er fjallað um sérstakt markaðsgæslugjald sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að leggja á ábyrgðaraðila og aðra seljendur. Eins og áður hefur komið fram þótti þetta skynsamlegasta leiðin til að fjármagna markaðseftirlit, þ.e. kostnað vegna skoðunarstofa og samvinnunefnda, og starf Löggildingarstofu vegna almenns vöruöryggis. Lagt er til að gjaldið verði breytilegt eftir umfangi eftirlits. Umfangið ræðst m.a. af fjölda eftirlitsskyldra vöruflokka sem aðili býður fram, fjölda vörutegunda (vöruliða) í hverjum vöruflokki og fjölda seldra vörueintaka. Um frekari skýringar er vísað til hinnar almennu greinargerðar.
    

Um 18. gr.

    Í þessari grein er ráðherra heimilað að leggja á dagsektir, sem nema mega allt að 50.000 krónum á sólarhring, til þess að knýja ábyrgðaraðila eða forsvarsmenn hans til þess að hlíta fyrirmælum stjórnvalds við framkvæmd laganna. Ákvörðun um slíkar dagsektir er aðfararhæf.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að stjórnvald geti kvatt lögreglu sér til aðstoðar til að koma í veg fyrir verulegt tjón, hafi fyrirmælum þess samkvæmt lögunum ekki verið hlítt.
    

Um 19. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.



Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga

um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

    Frumvarp um öryggi framleiðsluvöru var lagt fram á 115. og 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frumvarp þetta er nokkuð breytt frá fyrri útgáfum eins og kemur fram í greinargerð. Með frumvarpinu er miðað að því að hér verði komið á kröfum um öryggi vöru og eftirliti með þeim sem sambærilegt er við það sem gildir í EES-ríkjum. Þetta þýðir að með tímanum verður komið á víðtæku gæða- og eftirlitskerfi sem nær til allrar framleiðsluvöru og miðar að því að tryggja öryggi vörunnar. Þegar er fyrir hendi víðtækt eftirlit með vörum þar sem almannahagur krefst öryggis, svo sem í matvöru, við byggingar, vélar og raftæki. Frumvarp þetta mun því ekki hafa í för með sér stórfellt viðbótareftirlit við það sem nú er og í mörgum tilfellum verður það einfaldara en áður, t.d. eftirlit með raftækjum. Á móti verður komið á eftirliti með ýmsum vörum sem til þessa hafa ekki verið háðar eftirliti, t.d. leikföng, eða aðeins að hluta, t.d. sjúkdómsgreiningartæki.
    Samkvæmt IV. kafla frumvarpsins ber Löggildingarstofu að annast heildarskipulag opinberrar markaðsgæslu, bæði þess þáttar sem heyrir undir viðskiptaráðuneytið svo og annast samræmingu við þá eftirlitsþætti sem heyra undir önnur ráðuneyti. Áætlað er að Löggildingarstofan verði að bæta við 1–2 störfum til að gegna þessu hlutverki, auk þess sem hún verður að koma sér upp gagnagrunni í þessum tilgangi. Í heild er talið að þessi kostnaður geti numið um 10 m.kr. á ári á fyrstu tveimur árunum meðan verið er að koma markaðsgæslukerfinu í gang, en verði þaðan í frá kostaður af sértekjum sem myndast við hið svokallaða markaðsgæslugjald sem ætlað er að leggja á skv. 17. gr.
    Ekki er hins vegar enn ljóst hversu mikið sjálf markaðsgæslan mun kosta því að enn er eftir að móta reglur um gjöld skv. 17. gr. Það er stefna stjórnvalda að umrætt markaðsgæslugjald kosti að fullu þá markaðsgæslu sem höfð verður uppi og fjármagni algjörlega greiðslur til skoðunarstofa, samvinnunefnda og kostnað Löggildingarstofunnar sjálfrar af þessum starfsþætti hennar. Ekki er ætlað að til sérstakrar fjárveitingar úr ríkissjóði þurfi að koma vegna þessa.