Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 199 . mál.


946. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Ljóst er að rekstur Áburðarverksmiðjunnar er í mikilli hættu. Það stafar ekki af því að verksmiðjan sé rekin með miklu tapi. Á árinu 1993 var 57,2 millj. kr. hagnaður af rekstri og 14,9 millj. kr. hagnaður á árinu 1992. Hættan stafar heldur ekki af því að verksmiðjan sé skuldum hlaðin. Eigið fé sem hlutfall af heildarfjármagni hefur vaxið ört undanfarin ár og er nú 90% en veltufjárhlutfallið er 6,6 og er eignarstaða verksmiðjunnar mjög traust. Enn síður stafar hættan af því að verksmiðjan geti ekki selt framleiðslu sína. Á síðasta ári seldi verksmiðjan alla framleiðslu sína, rúm 52.500 tonn, á innlendum markaði auk rúmlega 1.500 tonna sem voru innflutt og námu heildartekjur fyrirtækisins 1.149 millj. kr. Fjöldi starfsmanna er nú 110.
    Yfirvofandi hætta stafar hins vegar af því að samkvæmt samningi um EES verður opnað fyrir innflutning á áburði frá ársbyrjun 1995. Á undanförnum árum hafa nokkur risafyrirtæki með Norsk Hydro í broddi fylkingar náð yfirburðastöðu á norrænum markaði með áburði unnum úr jarðgasi. Líklegt er að Áburðarverksmiðjan muni eiga í erfiðleikum með að standast þá samkeppni þar sem íslenskur áburður er talinn um 10% dýrari en erlendur þótt raunverð á innlendum áburði hafi farið verulega lækkandi á liðnum árum eins og sjá má í meðfylgjandi fylgiskjali. Vissulega fylgja því nokkrir kostir fyrir bændur og neytendur landbúnaðarvara að áburðarverð lækki. Hins vegar er það stórfellt áfall fyrir þjóðarbúið og íslenskt efnahagslíf er framleiðsla, sem nemur rúmum milljarði króna, fellur niður.
    Fyrirhuguð breyting á rekstrarformi verksmiðjunnar leysir engan vanda. Nú er stjórn verksmiðjunnar kjörin af Alþingi en með stofnun hlutafélags um reksturinn verður sú breyting að landbúnaðarráðherra velur alla stjórnarmenn. Þótt eignarstaða fyrirtækisins sé mjög góð er ekki líklegt að eftirspurn verði eftir hlutabréfum í hinu nýja hlutafélagi við þær aðstæður sem vænta má. Því er langlíklegast að hlutabréfin verði áfram í eigu ríkisins.
    Engin ástæða er til að ætla að staða verksmiðjunnar batni með þeirri miðstýringu og ólýðræðislegu valdasamþjöppun sem felst í því að önnum kafinn stjórnmálamaður, sem gegnir starfi landbúnaðarráðherra hverju sinni, verði einráður um málefni fyrirtækisins.
    Brýnasta verkefnið í málefnum þessa fyrirtækis er því ekki breyting á rekstrarformi heldur hitt að tryggja rekstur þess í framtíðinni og skapa því öruggan rekstrargrundvöll. Jafnhliða þessu þarf að huga að réttarstöðu þeirra starfsmanna verksmiðjunnar sem búa nú við réttindi ríkisstarfsmanna, en frumvarpið gerir ráð fyrir verulegri skerðingu á réttindum starfsmanna.


Prentað upp.

    Undirrituð, sem skipa minni hluta nefndarinnar, telja óhjákvæmilegt að gerð verði vönduð úttekt á því á vegum landbúnaðarráðuneytisins og bændasamtakanna hvað gera þarf til að tryggja rekstur verksmiðjunnar til frambúðar eftir að innflutningur erlends áburðar hefst í samræmi við EES-samning á árinu 1995. Því er hér lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. apríl 1994.



Sigurður Hlöðvesson,

Guðrún J. Halldórsdóttir.


frsm.





Fylgiskjal I.


Áburðarverksmiðja ríkisins:

(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal II.


Umsögn Búnaðarfélags Íslands.


(9. mars 1994.)



    Eftirfarandi ályktun búnaðarþings 1994 um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins sendist yður hér með að ákvörðun stjórnar Búnaðarfélags Íslands.
    „Búnaðarþing hefur öðru sinni haft til umsagnar frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.
    Þingið ítrekar áherslu sína á að Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi verði áfram sköpuð rekstrarskilyrði til þess að framleiða þær áburðartegundir sem henta íslenskum aðstæðum.
    Þingið varar alvarlega við hugmyndum um sölu hennar eins og sakir standa.
    Verði Áburðarverksmiðju ríkisins breytt í hlutafélag eins og frumvarpið gerir ráð fyrir leggur búnaðarþing áherslu á að inn í lögin komi skýr ákvæði um að Alþingi kjósi félaginu stjórn.
    Komi til álita að ríkið selji hlutabréf sín er það krafa búnaðarþings að Alþingi kjósi félaginu stjórn.
    Búnaðarþing lítur svo á að eftir samþykkt samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) byggist framtíð Áburðarverksmiðju ríkisins m.a. á eftirfarandi atriðum:
    að sala Áburðarverksmiðjunnar dragist ekki saman frá því sem nú er,
    að áburðarverð verði hliðstætt því sem er á Norðurlöndum, t.d. í Noregi,
    að með breyttum lögum verði Áburðarverksmiðjunni veitt tækifæri til að mæta hugsanlegum samdrætti í áburðarsölu og samkeppni við innfluttan áburð með því m.a. að taka upp framleiðslu í öðrum greinum iðnaðar til viðbótar við áburðarframleiðsluna eða með þátttöku í iðnaðarfyrirtækjum sem styrkt gæti Áburðarverksmiðjuna.“
    Þess er vænst að tekið verði tillit til vilja búnaðarþings við meðferð þessa máls.

Virðingarfyllst,



Jónas Jónsson.





Fylgiskjal III.

Umsögn BHMR.


(21. mars 1994.)



    BHMR tekur ekki sérstaklega afstöðu til hugmynda um einkavæðingu stofnana og fyrirtækja ríkisins enda eru félagsmenn í aðildarfélögum BHMR bæði opinberir starfsmenn og starfsmenn einkafyrirtækja. BHMR telur sér hins vegar skylt að skoða þessa tillögu út frá réttarstöðu og réttindum starfsmanna.

1. Breytt rekstrarform.
    Gert er ráð fyrir að Áburðarverksmiðja ríkisins verði gerð að hlutafélagi. Rekstrarform, sem eigendur velja, eiga að öðru jöfnu ekki að varða stéttarfélög nema að svo miklu leyti sem formbreytingin hefur áhrif á samningsrétt stéttarfélaga og réttindi einstakra starfsmanna. Í því tilviki sem hér um ræðir hefur áformuð breyting einmitt áhrif á hvorutveggja samningsrétt stéttarfélaga og réttindi starfsmanna.

2. Áhrif á fyrirheit um lögbundin réttindi.
    Samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 er starfsmönnum ríkisins annars vegar heitið biðlaunum ef störf þeirra eru lögð niður og hins vegar heitið forgangi að fyrra starfi ef til þess er stofnað á ný innan fimm ára. Biðlaunin eru bætur vegna missis réttinda og miðast bótafjárhæðin við sex mánaða föst laun fyrir þá sem hafa skemmri en 15 ára þjónustutíma hjá ríkinu en þeir sem starfað hafa lengur fá sem svarar 12 mánaða launum.
    Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að fyrirheit um biðlaun og forgang að nýju starfi hjá ríkinu í 14. gr. laga nr. 38/1954 eigi ekki við um starfsmenn Áburðarverksmiðju ríkisins. Ekki verður séð að ríkið geti losað sig undan skuldbindingum um biðlaun með þessum hætti. Biðlaunin eiga að koma sem bætur fyrir stöðumissi, m.a. af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    BHMR skorar á hæstvirta þingnefnd að breyta frumvarpinu í þá veru að fram komi að starfsmenn eigi lögvarinn og skilyrðislausan rétt á biðlaunum og öðru efni 14. gr. laga nr. 38/1954 ef frumvarpið verður að lögum.

3. Samningsréttur.
    Þegar fyrirtæki og stofnanir ríkisins hafa verið einkavæddar á svipaðan hátt og hér um ræðir, þ.e. rekstrarformi breytt í hlutafélagsform, hefur því verið haldið fram við starfsmenn að þeir geti ekki átt áfram aðild að fagstéttarfélögum sínum, þ.e. fagstéttarfélögum innan BHMR, heldur verði þeir að gerast félagsmenn í VR eða öðrum félögum innan ASÍ. Þessi krafa er fráleit. Aðildarfélög BHMR eru ekki einskorðuð við ríkisstarfsmenn eða opinbera starfsmenn heldur eru þau flestöll opin fyrir háskólamönnum úr öllum geirum atvinnulífsins.
    BHMR skorar á hæstvirta þingnefnd að láta þetta til sín taka þannig að ljóst verði af efni frumvarpsins og athugasemdum við það að háskólamenntaðir starfsmenn Áburðarverksmiðju ríkisins eigi rétt á að vera áfram í fagstéttarfélögum sínum.

F.h. BHMR,



Páll Halldórsson, formaður.