Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 607 . mál.


989. Frumvarp til laga



um sjúkraliða.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Rétt til þess að starfa sem sjúkraliði og kalla sig sjúkraliða hefur sá einn sem til þess hefur fengið leyfi heilbrigðisráðherra.
    

2. gr.


    Leyfi skv. 1. gr. má veita þeim sem lokið hafa námi á sjúkraliðabraut frá skóla hér á landi sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið viðurkennir. Einnig má veita þeim leyfi sem lokið hafa hliðstæðu námi erlendis. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar landlæknis og Sjúkraliðafélags Íslands.
    

3. gr.


    Óheimilt er að ráða til sjúkraliðastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Fáist sjúkraliði ekki til starfa er heimilt að ráða aðra aðila.
    

4. gr.


    Sjúkraliða ber að þekkja skyldu sína, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
    

5. gr.


    Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
    Heimilt er að ráða sjúkraliða til starfa á lækningasviði og starfar hann þá samkvæmt fyrirmælum, undir handleiðslu og á ábyrgð læknis eða sérfræðings, að svo miklu leyti sem slík störf eru ekki falin öðrum með lögum eða reglugerðum.
    

6. gr.


    Sjúkraliða er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi hafi látið af störfum.
    

7. gr.


    Ef sjúkraliði vanrækir skyldur sína eða brýtur gegn heilbrigðislöggjöf landsins að dómi landlæknis skal landlæknir áminna hann. Komi áminning ekki að haldi leggur landlæknir málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að hlutaðeigandi skuli sviptur starfsleyfi en skjóta má hann þeim úrskurði til dómstóla.
    Nú hefur sjúkraliði verið sviptur starfsleyfi skv. 1. mgr. og er þá ráðherra heimilt að veita honum leyfi aftur enda liggi fyrir meðmæli landlæknis og umsögn Sjúkraliðafélags Íslands.
    

8. gr.


    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmda þessara laga.
    

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.
    

Um 2. gr.


    Greinin er samhljóða 1. mgr. 2. gr. gildandi laga eins og henni var breytt með lögum nr. 15/1992.
    

Um 3. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að ráða sem sjúkraliða aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögunum. Eigi að festa störf sjúkraliða í sessi er nauðsynlegt að um þá gildi svipað ákvæði og um aðrar heilbrigðisstéttir sem er að til þeirra starfa megi aðeins ráða sjúkraliða. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi áhrif á starfsöryggi ófaglærðra sem nú eru í starfi á heilbrigðisstofnunum.
    

Um 4. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.
    

Um 5. gr.


    Hér er fjallað um verksvið sjúkraliða en það er samkvæmt gildandi lögum bundið við aðstoð við hjúkrun undir stjórn hjúkrunarfræðings sem jafnframt fer með hjúkrunarstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber þá sjúkraliði ábyrgð gagnvart þeim hjúkrunarfræðingi.
    Samkvæmt gildandi lögum er hjúkrunarfræðingur faglegur yfirmaður sjúkraliða, nema þegar hjúkrunarfræðingur er ekki til staðar, en þá getur sérfræðingur í annarri grein tekið þessa ábyrgð samþykki ráðuneytið það, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1989, um breytingu á lögum um sjúkraliða. Í 5. gr. eins og hún birtist hér er gert ráð fyrir að sjúkraliða sé heimilt að starfa á lækningasviði að svo miklu leyti sem slík störf eru ekki falin öðrum með lögum eða reglugerðum. Ekki er átt við sérfræðinga innan stoðstétta við lækningar, s.s. sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og þroskaþjálfa.
    

Um 6. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 6. gr. gildandi laga.
    

Um 7. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga nema að lagt er til að Sjúkraliðafélag Íslands gefi umsögn um endurveitingu starfsleyfa.
    

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


    

Umsögn um frumvarp til laga um sjúkraliða.


    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingu. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.