Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 579 . mál.


1006. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu frá landbúnaðarráðuneytinu Sigurgeir Þorgeirsson og Jón Höskuldsson, Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og Stefán Pálsson bankastjóri.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Er þar annars vegar um að ræða efnislegar tillögur um breytingar á frumvarpinu en hins vegar breytingar á búvörulögunum sem taka mið af óskum er nefndinni bárust um þau efni. Er þá sérstaklega vísað til óska Stéttarsambands bænda um að lögfest verði viðbótarheimild til töku verðjöfnunargjalda hliðstætt heimildum 20. gr. laganna til að treysta markaðsgrundvöll nautgripa- og kindakjöts með auknum útflutningi.
    Nefndinni bárust yfirlit um stöðu þessara mála og áætlun um horfur í lok næsta framleiðsluárs. Þar kemur fram að umframbirgðir kindakjöts verði um 400 tonn af kindakjöti og að um 100 millj. kr. skorti til að ná fram jöfnuði í framleiðslu og sölu sauðfjárafurða. Þá var enn fremur sýnt fram á að með markaðsaðgerðum væri unnt að ná jafnvægi í sölu og framleiðslu nautakjöts á næsta ári.
    Meðal annars með tilliti til framangreindra skýringa leggur nefndin til að orðið verði við málaleitan Stéttarsambands bænda um auknar heimildir til verðskerðingar. Þessi heimild er ekki bundin við samþykki aðalfundar Stéttarsambands bænda, gagnstætt ákvæðum 20. gr. sem fjallar um hliðstæð efni. Hér kemur tvennt til, annars vegar að þeirri ákvörðun um verðskerðingu, sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir, er einungis ætlað að gilda til loka næsta framleiðsluárs og hins vegar að nauðsyn ber til að þegar í stað verði hafist handa um framkvæmd þessara mála. Þess vegna er brýnt að nú þegar liggi fyrir heimildir um töku þessa gjalds svo að nauðsynlegar ákvarðanir varðandi framgang þessara mála nái fram að ganga hið fyrsta. Þessu til enn frekari áréttingar er vert að benda á að þess gætir nú áþreifanlega að erlendir markaðir herði kröfur sínar um hreinlæti og búnað sláturhúsa. Svíar hafa t.d. tilkynnt að eftirleiðis gildi um innflutning kindakjöts til Svíþjóðar að útflutningssláturhús uppfylli kröfur ESB-staðla, en svo sem kunnugt er hafa einungis tvö íslensk sláturhús staðist reglur Evrópusambandsins.
    Nefndinni barst erindi frá Framleiðsluráði landbúnaðarins með ósk um að sá umsagnarréttur, sem ráðið hafði skv. 52. gr. laganna áður en þeim var síðast breytt, verði lögfestur að nýju. Af því tilefni vill nefndin taka fram að í breytingum á 3. gr. laganna felst árétting á forræði landbúnaðarráðherra varðandi útflutning landbúnaðarafurða. Það er því í hans valdi hvort hann leitar umsagnar Framleiðsluráðs, t.d. á grundvelli 8. tölul. 6. gr. búvörulaganna.

Alþingi, 20. apríl 1994.



Egill Jónsson,

Gísli S. Einarsson.

Guðni Ágústsson.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Árni M. Mathiesen,

Sigurður Hlöðvesson.


með fyrirvara.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Einar K. Guðfinnsson.