Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 282 . mál.


1095. Nefndarálit



um frv. til l. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Árni Kolbeinsson, Halldór Árnason, Arndís Steinþórsdóttir og Snorri Rúnar Pálmason frá sjávarútvegsráðuneytinu, Kristján Ragnarsson og Jónas Haraldsson frá LÍÚ, Hólmgeir Jónsson og Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Teitur Stefánsson frá Útvegsmannafélagi Akraness, Guðmundur Kristjánsson frá Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Einar Oddur Kristjánsson og Ingimar Halldórsson frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða, Sverrir Leósson og Valdimar Bragason frá Útvegsmannafélagi Norðurlands, Eiríkur Ólafsson frá Útvegsmannafélagi Austfjarða, Halldóra Jónsdóttir frá Útvegsmannafélagi Hornafjarðar, Hilmar Rósmundsson frá Útvegsmannafélagi Vestmannaeyja, Benedikt Thorarensen frá Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar, Halldór Ibsen frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja, Guðrún Lárusdóttir frá Útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar, Sigurbjörn Svavarsson frá Útvegsmannafélagi Reykjavíkur, Eyjólfur Torfi Geirsson frá Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Gunnar Jóhannsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Björn Sigurbjörnsson, Björn Valdimarsson, Bjarni Þór Einarsson og Magnús B. Jónsson frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Einar Njálsson frá Eyþingi — Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Björn Hafþór Guðmundsson frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Bjarni Jónsson og Hjörtur Þórarinsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Bjarni Andrésson og Kristján Pálsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ, Björn Grétar Sveinsson og Jón Karlsson frá VMSÍ, Árni Gíslason, Hrólfur Gunnarsson og Óskar Þ. Karlsson frá Félagi um nýja sjávarútvegsstefnu, Þórður Ásgeirsson frá Fiskistofu, Jakob Jakobsson frá Hafrannsóknastofnun, Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun, frá einstökum atvinnurekendum í sjávarútvegi þeir Halldór Árnason, Óskar Þórhallsson, Sighvatur Bjarnason og Svanur Guðmundsson, frá Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar Jón Ásbjörnsson, Óskar Þ. Karlsson, Kristján Guðmundsson og Gísli Erlingsson, Grétar Friðriksson frá Fiskmarkaði Hafnarfjarðar, Ólafur Þór Jóhannsson frá Fiskmarkaði Suðurnesja, frá Fiskifélagi Íslands þeir Bjarni Kr. Grímsson, Jónas Haraldsson og Örn Pálsson sem ásamt Arthuri Bogasyni mætti einnig fyrir hönd Landssambands smábátaeigenda og loks Árni Benediktsson sem mætti bæði fyrir hönd Íslenskra sjávarafurða hf. og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Gestir skiluðu einnig langflestir skriflegum greinargerðum um
málið til nefndarinnar.

    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær kveða á um að:
    Stuðningur við þátttöku íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í sjávarútvegsverkefnum erlendis verði bundinn við ábyrgðir eða lán, sbr. breytingu á 11. gr. frumvarpsins.
    Fellt verði niður það ákvæði 3. gr. frumvarpsins þar sem m.a. er kveðið á um að ríkissjóður skuli veita sjóðnum lán á árinu 1993 þar sem frumvarpið kom mun seinna fram en ráðgert var.
    Öll skip sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og búa við aflamarkskerfi greiði til sjóðsins og eigi því rétt á úreldingarstyrkjum. Með þessu er gert ráð fyrir að frumvarpið nái einnig til minni báta á aflamarki. Nauðsynlegt er að veita ráðherra heimild til setningar reglugerðar um innheimtu gjaldsins gagnvart minni bátunum. Breytingin um að skipin þurfi að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni er lögð til með hliðsjón af því að uppi hafa verið áform um að breyta lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa, þannig að leyfð verði alþjóðleg skráning, B skráning, fiskiskipa sem úrelt hafa verið úr íslenska fiskiskipaflotanum eða keypt eru erlendis frá án þess að hafa veiðileyfi í íslenskri lögsögu. Með breytingunni er verið að koma í veg fyrir að slíkum skipum verði gert að greiða í sjóðinn og eignist þannig rétt til greiðslu úr honum. Það eru því aðeins þeir sem fá úthlutað aflaheimildum sem er gert að greiða til sjóðsins og geta þegið þaðan styrki.
    Til að hljóta styrk til úreldingar skips þurfi gjald vegna viðkomandi skips að hafa verið greitt í a.m.k. þrjú ár. Þar sem reglum um skráningu skipa hefur enn ekki verið breytt, þótt fjöldi útgerðarmanna sem kaupa inn ódýr erlend skip sem ætluð eru til veiða utan lögsögunnar aukist stöðugt, þykir nauðsynlegt að hafa þennan fyrirvara svo að menn geti ekki gert sér leik að því að kaupa inn ódýr erlend skip í þeim megintilgangi að fá út á þau úreldingarstyrk skömmu síðar. Það þarf því að fara saman að skip hafi veiðileyfi, sbr. 3. tölul. hér að framan, og að gjald vegna þeirra hafi verið greitt í a.m.k. þrjú ár. Þó er í sérstöku bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir ákveðinni undantekningu frá þessu.
    Fellt verði brott skylduákvæði frumvarpsins um að stjórn sjóðsins þurfi að þinglýsa þeirri kvöð á fasteignir í eigu fiskvinnslustöðva sem sjóðurinn kaupir að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi. Ákvæði frumvarpsins er óþarflega strangt og þykir meiri hlutanum ekki rétt að útiloka á þennan máta möguleika á að nýta slíkar fasteignir til fiskvinnslu síðar ef aðstæður og vinnslumöguleikar breytast.
    Þróunarsjóðnum verði gert að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi, m.a. í tengslum við vöruþróun og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða. Íslendingar hafa löngum haft nokkra sérstöðu meðal þjóða í fisksölumálum vegna viðurkenndra gæða sjávarafurða sinna og hafa því oftar en ekki getað fengið hámarksverð fyrir þær. Vegna minnkandi afla í heimshöfunum á síðustu árum hafa aðrar þjóðir farið að leggja stóraukna áherslu á gæði afurða sinna í tengslum við veiðar og vinnslu svo að forskot okkar í þessum málum hefur minnkað. Við verðum því enn að herða okkur í samkeppninni og þykir meiri hlutanum eðlilegt að Þróunarsjóðurinn taki þátt í því, enda meginhlutverk hans skv. 1. gr. að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Með orðunum „annarri nýsköpun í sjávarútvegi“ er fyrst og fremst átt við sókn og nýtingu á fleiri tegundum en hingað til. Aukin nýting á skelfiski, svo sem kúfiski og ígulkerum, eru athyglisverð dæmi um það. Það skal tekið fram að nýsköpun sú, sem hér hefur verið rætt um, er ekki bundin við viðskipti við útlönd heldur getur allt eins tengst innanlandsmarkaði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Þróunarsjóðnum sé heimilt að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Meiri hlutinn leggur til að aðstoð vegna slíkra verkefna verði bundin við lánveitingar eða ábyrgðir en nái ekki til beinna styrkja eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Sjóðnum verði ekki heimilt að taka lán, í skilningi 15. gr., með sölu viðskiptabréfa á almennum markaði. Þessi breyting er nauðsynleg svo að sjóðurinn geti ekki skilgreint sig sem lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 2. gr. þeirra laga.
    Upphafsmörk gjaldtöku, skv. 23. gr., verði færð aftur um eitt ár vegna þess hversu seint frumvarpið kom fram.
    Fjármálaráðherra verði veitt sérstök lántökuheimild í frumvarpinu til handa sjóðnum. Upphaflega var ætlunin að gera ráð fyrir þessari heimild í lánsfjárlögum fyrir árið 1994 en þar sem þau hafa þegar verið afgreidd sem lög frá Alþingi er lagt til að slík heimild verði felld inn í sjálft frumvarpið.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur Stefánsson.

Árni R. Árnason.


frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Einar K. Guðfinnsson.