Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 450 . mál.


1103. Frumvarp til laga



um vátryggingastarfsemi.

(Eftir 2. umr., 28. apríl.)



    Samhljóða þskj. 663 með þessum breytingum:

    27. gr. hljóðar svo:
    Vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi og hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga eða vátryggingagrein eða hyggst breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum, skal sækja um leyfi til Vátryggingaeftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi og senda gögn eins og við á skv. 20.–24. gr. og nauðsynleg eru til að það geti metið umsóknina.
    Uppfylli félagið skilyrði um gjaldþol og lágmarksfjárhæðir að teknu tilliti til hinnar nýju starfsemi og sé að öðru leyti fallist á umsóknina veitir Vátryggingaeftirlitið leyfi fyrir nýju starfseminni.
    Breytingar á samþykktum vátryggingafélags ber að senda Vátryggingaeftirlitinu innan viku frá samþykkt þeirra. Geri Vátryggingaeftirlitið ekki athugasemd við þær breytingar ber félaginu innan tveggja mánaða að senda eftirlitinu dagsett eintak af samþykktunum í heild með þeim breytingum sem samþykktar hafa verið.

    56. gr. hljóðar svo:
    Áður en gengið er frá vátryggingasamningi, og einstaklingur á í hlut, skal vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir hönd þess gefa vátryggingataka ítarlegar upplýsingar um efni þeirrar löggjafar sem samningsaðilar hyggjast semja um að gildi um samninginn. Einnig skal upplýsa um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála vegna vátryggingasamninga við vátryggingafélög án þess að skerða rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.
    Val á löggjöf um vátryggingasamning ásamt staðfestingu á að vátryggingataki hafi fengið ítarlegar upplýsingar um efni þeirrar löggjafar skal koma fram í samningnum sjálfum eða í fylgigögnum með honum.

    60. gr. hljóðar svo:
    Áður en vátryggingasamningur er gerður í greinaflokkum líftrygginga og öðrum sem leyfi er veitt fyrir skv. 23. gr. og á samningstímanum skal, þegar skuldbinding komst á hér á landi, sbr. 8. gr., vátryggingataki upplýstur skriflega á íslensku um eftirfarandi atriði:
    Heiti líftryggingafélagsins og félagsform.
    Heimilisfang aðalstöðva líftryggingafélagsins og, þegar við á, þess útibús sem samningurinn er gerður við.
    Allar tegundir bóta sem í samningnum felast og um rétt til breytinga á þeim á samningstímanum.
    Gildistíma líftryggingarinnar.
    Hvernig samningnum verði sagt upp.
    Hvernig iðgjöld skuli greidd, hve lengi og hvernig þeim verði breytt á samningstímanum.
    Hvernig ágóðahluti er reiknaður og hvernig og hvenær hann verði greiddur.
    Reglur um endurkaup og frítryggingu og að hvaða marki ábyrgst er að réttur til þess sé fyrir hendi.
    Sundurliðun iðgjalda á hverja grein líftrygginga (bótategunda) og vegna aukagreina þegar þær eru innifaldar.
    Um líftryggingar tengdar fjárfestingum: Skilgreiningu á þeim hlutaeiningum sem tengdar eru bótum.
    Um líftryggingar tengdar fjárfestingum: Hvers eðlis þær eignir eru sem að baki hlutaeiningum eru.
    Hvernig háttað er rétti vátryggingataka til að hætta við að taka líftrygginguna.
    Almennar upplýsingar um skatta sem ber að greiða vegna líftryggingarinnar.
    Auk líftryggingaskilmála, bæði almennra skilmála og sérskilmála, sem látnir skulu í té, skal vátryggingataki á samningstíma líftryggingar upplýstur skriflega um eftirfarandi:
    Sérhverjar breytingar varðandi atriði er snerta 1.–2. tölul. 1. mgr.
    Sérhverjar breytingar varðandi vátryggingaskilmála eða breytingar á lögum er snerta 3.–11. tölul. 1. mgr.
    Um stöðu inneignar vegna ágóðahluta árlega.
    Heimilt er að veita upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. á öðru tungumáli en segir í 1. mgr. að fenginni skriflegri beiðni líftryggingataka eða þegar líftryggingataki getur valið um þá löggjöf sem gildir um samninginn.
    Hafi samningur um líftryggingu til a.m.k. sex mánaða komist á og sé um einstaklingslíftryggingu að ræða skal félagið tilkynna vátryggingataka skriflega um gildistöku samningsins. Vátryggingataki skal hafa 30 daga frest til að segja vátryggingunni upp frá þeim tíma er honum barst tilkynningin. Skrifleg uppsögn leysir aðila undan öllum skyldum sem síðar hefði leitt af samningnum. Réttaráhrif og skilyrði uppsagnar fara að öðru leyti eftir þeim lögum sem um samninginn gilda.
    Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um þann grundvöll sem útreikningur líftryggingaskuldar og ágóðahlutar er reistur á.

    62. gr. hljóðar svo:
    Lög þess ríkis þar sem skuldbindingin komst á gilda um vátryggingasamning um líftryggingu. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingataki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 61. gr.
    Þegar vátryggingataki líftryggingar er einstaklingur og ekki ríkisborgari þess ríkis þar sem hann hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið lög þess ríkis þar sem ríkisborgararétturinn er.
    Þegar vátryggingataki líftryggingar er lögaðili og skuldbindingin komst á hér á landi en hinn líftryggði hefur að jafnaði aðsetur í öðru ríki eða er ríkisborgari þess ríkis geta aðilar einnig valið löggjöf þess ríkis.
    Þegar skuldbindingin komst á annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en skv. 1. og 2. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.

    63. gr. hljóðar svo:
    Í öðrum frumtryggingum en líftryggingum gildir um vátryggingasamninginn löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaáhættan er þegar það er einnig ríkið þar sem vátryggingatakinn hefur að jafnaði aðsetur. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingataki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 61. gr.
    Þegar vátryggingaáhættan er annars staðar en þar sem vátryggingataki hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið hvort sem er um vátryggingasamninginn, löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaáhættan er eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingatakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingataki hefur með höndum atvinnustarfsemi og vátryggingaáhættan vegna hennar er í fleiri en einu ríki og vátryggingasamningurinn nær til fleiri en einnar tegundar áhættu geta aðilar valið um löggjöf þessara ríkja eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingatakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingaáhættan er annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en skv. 2. og 3. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.
    Þegar áhættan, sem samningurinn tekur til, takmarkast við tjónsatburði sem eiga sér stað í öðru ríki en því þar sem vátryggingaáhættan er geta aðilar ávallt valið löggjöf þess ríkis þar sem tjónsatburðirnir eiga sér stað.
    Þegar áhætta í vátryggingum er stóráhætta, sbr. 8. gr., geta aðilar ávallt valið þá löggjöf sem beita skal um vátryggingasamninginn, sbr. þó 3. og 4. mgr. 61. gr.
    Hafi aðilar samnings um aðra vátryggingu en líftryggingu ekki samið um val á löggjöf svo að gilt sé og val á löggjöf leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda réttarreglur þess ríkis sem best telst eiga við um samninginn samkvæmt þessari grein. Þegar ekkert annað er tekið fram skal lagt til grundvallar að ríkið, þar sem vátryggingaáhættan er, eigi best við um samninginn.
    Þegar valið hefur verið skv. 7. mgr. en annað ríki meðal þeirra sem til greina geta komið telst eiga betur við um hluta samningsins má velja löggjöf þess ríkis um þann hluta samningsins þegar sérstakar ástæður mæla með því.

    Ákvæði til bráðabirgða hljóðar svo:
    Ákvæði laga um vátryggingarstarfsemi, nr. 50/1978, og reglugerða settra samkvæmt þeim skulu gilda eftir því sem við getur átt um reikningsskil og ársuppgjör vátryggingafélaga fyrir reikningsárið 1994.
    Tiltekin starfandi vátryggingafélög hafa aðlögunartíma til ársloka 1994 samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði til að uppfylla skilyrði laga þessara um gjaldþol og lágmarksgjaldþol og mega ekki starfa annars staðar á Evrópsku efnahagssvæði en á Íslandi fyrr en skilyrðin hafa verið uppfyllt.
    Vátryggingafélög, sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi við gildistöku þessara laga, skulu, eins fljótt og unnt er eftir gildistökuna og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir gildistöku, senda Vátryggingaeftirlitinu skrá yfir greinaflokka vátrygginga og vátryggingagreinar í samræmi við 22. og 23. gr., eftir því sem við á, í samræmi við þá starfsemi sem rekin er. Þau skulu einnig fyrir þann tíma senda Vátryggingaeftirlitinu útreikning gjaldþols og lágmarksgjaldþols samkvæmt reglum 29.–31. gr., svo og skrá yfir þá sem eiga virkan eignarhlut í félagi og hve mikinn.
    Heimilt er gagnvart þeim aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem ekki hafa lögfest tilskipanir 92/49/EBE og 92/96/EBE að beita ákvæðum gerða 73/239/EBE, 88/357/ EBE, 79/267/EBE og 90/619/EBE, ásamt síðari breytingum, um starfsleyfi og eftirlit með vátryggingastarfsemi.