Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1113. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar (SJS, JÁ).



    Við bætist ný grein, 1. gr., er orðist svo:
                  3. málsl. 1. gr. laganna orðast svo: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt, ígildi eignarréttar eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
    Við bætist ný grein, 2. gr., er orðist svo:
                  Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Nú metur Fiskistofa það svo að áliðnu fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð að ekki takist að veiða þann heildarafla tiltekinnar tegundar eða tegunda sem sjávarútvegsráðherra hefur ákvarðað skv. 1. mgr. þessarar greinar þá skal ráðherra afnema aflamark þeirrar tegundar eða tegunda og gefa veiðar frjálsar á þeim tiltekið tímabil innan fiskveiðiársins eða til loka þess. Um slíkar ákvarðanir skal sjávarútvegsráðherra hafa samráð við Hafrannsóknastofnun og þess gætt að afkomu viðkomandi stofna sé ekki stefnt í hættu. Ráðherra skal heimilt að afturkalla ákvörðun sína ef að mati Hafrannsóknastofnunar er útlit fyrir að veiðar verði meiri en að var stefnt með úthlutun aflamarks.
    Í stað bráðabirgðaákvæðis I–II komi þrjú ný bráðabirgðaákvæði er orðist svo:
         
    
    (I.)
                            Bátum minni en 6 brl., sem hafa leyfi til veiða með aflamarki, skal gefast kostur á að velja um að stunda veiðar með línu og handfærum.
                            Skulu þeir sem þann kost velja sækja um slíkt leyfi til sjávarútvegsráðuneytisins fyrir 1. ágúst 1994. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að aflahlutdeild viðkomandi báts sé ekki minni en hún var á árinu 1990.
                            Aflahlutdeild þeirra báta, sem þannig bætast við í hóp þeirra báta sem stunda veiðar með línu og handfærum, skal bætast við hinn sameiginlega heildarafla hópsins.
         
    
    (II.)
                            Engum nýjum eða nýkeyptum skipum má veita leyfi til fullvinnslu sjávarafla innan íslenskrar efnahagslögsögu, sbr. lög nr. 54/1992, frá gildistöku laga þessara og til sama tíma að ári liðnu nema þinglýstir samningar um kaup eða smíði hafi legið fyrir við gildistöku þessara laga.
         
    
    (III.)
                            Ráðherra skal með útgáfu reglugerðar heimila löndun á fiski utan kvóta og ákveða verð sem fyrir hann skal greiða.
                            Skal við það miðað að útgerðir geti ekki hagnast á að gera sérstaklega út á slíkar veiðar en skaðist þó ekki á því að koma með aflann að landi.
                            Fiskur, sem landað er samkvæmt þessari heimild, skal seldur hæstbjóðanda og mismunur þess verðs sem útgerðin fær til sín og þess verðs sem fæst fyrir fiskinn skal renna í Þyrlukaupasjóð Landhelgisgæslunnar.
                            Verði það upplýst að afla sé fleygt fyrir borð skal útgerð viðkomandi skips sæta refsingu, sbr. ákvæði 19. gr., en missi veiðiheimilda ef um ítrekað brot er að ræða.