Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 537 . mál.


1122. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem felur í sér heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 við EES-samninginn og tilteknum viðaukum við sama samning.
    Þegar EES-samningurinn var samþykktur í janúar 1993 voru í viðaukum við samninginn þær ESB-gerðir sem tekið höfðu gildi innan Evrópusambandsins fyrir 1. ágúst 1991. Alltaf hafði verið gert ráð fyrir að þær ESB-gerðir, er hefðu breyst eða bæst við fram að gildistöku samningsins og vörðuðu Evrópska efnahagssvæðið, yrðu hluti af EES-samningnum. Þær viðbótargerðir, sem vísað er til í tillögunni, munu koma til framkvæmda á Íslandi með þrennum hætti: Í fyrsta lagi rúmast verulegur hluti þeirra innan gildandi íslenskra laga og reglugerða. Í öðru lagi kemur til setning nýrra reglugerða á grundvelli gildandi laga. Í langflestum tilvikum koma viðbótargerðirnar til framkvæmda eftir þessum tveimur leiðum. Í þriðja lagi mun koma til sérstök lagasetning af hálfu Alþingis. Í reynd kalla viðbótargerðirnar á óverulegrar breytingar á íslenskri löggjöf og langflestar þær breytingar, sem nauðsynlegar eru, hafa þegar verið lagðar fyrir Alþingi í formi lagafrumvarpa.
    Við umfjöllun sína um tillöguna fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um málið Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, Gunnar Snorra Gunnarsson, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Erlend Lárusson frá Tryggingaeftirlitinu, Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu, Finn Sveinbjörnsson frá viðskiptaráðuneytinu, Dögg Pálsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Gunnar Sigurðsson og Gylfa Kristinsson frá félagsmálaráðuneytinu, Aðalheiði Jóhannsdóttur frá Náttúruverndarráði, Þóri Ibsen frá umhverfisráðuneytinu, Hörð Lárusson og Sólrúnu Jensdóttur frá menntamálaráðuneytinu, Gunnar Sigurðsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Ástu Valdimarsdóttur, Sverri Júlíusson og Þórunni Erhardsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu, Áslaugu Guðjónsdóttur frá fjármálaráðuneytinu, Ásgeir Jóhannesson frá Ríkiskaupum, Brynjólf Sandholt yfirdýralækni, Jón Gíslason og Ástfríði Sigurðardóttur frá Hollustuvernd ríkisins, Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Sigurð Axelsson og Gísla H. Friðgeirsson frá Löggildingarstofunni, Georg Ólafsson frá Samkeppnisstofnun, Ólaf W. Stefánsson og Guðna Karlsson frá dómsmálaráðuneytinu, Einar Magnússon og Ragnheiði Haraldsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Berg Jónsson frá Rafmagnseftirliti ríkisins.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Geir H. Haarde,

Sigbjörn Gunnarsson.

Árni R. Árnason.


frsm.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Árni M. Mathiesen.