Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 217 . mál.


1193. Nefndarálit



um frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur haft frumvarp til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992 til umfjöllunar og rætt við fulltrúa fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar um ýmsa þætti þess. Þá hefur nefndin farið ítarlega yfir skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni koma fram ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara í meðferð ráðuneyta og ríkisstofnana á opinberu fé og bent er á leiðir til úrbóta. Minni hluti nefndarinnar tekur undir þessar ábendingar og beinir því til viðkomandi aðila að þeir taki tillit til þessara athugasemda og ábendinga eftir því sem við á.
    Sérstaklega vill minni hluti nefndarinnar benda á þann kafla í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um aðila utan ríkisreiknings og hvernig með skuli fara. Ríkisendurskoðun beinir því til Alþingis að betur þurfi að skilgreina hlutverk stofnunarinnar og hvernig haga skuli endurskoðun hjá þessum stofnunum, svo sem ríkisbönkum, sjóðum, Landsvirkjun, Íslenskum aðalverktökum o.fl. og hvernig Alþingi skuli gerð grein fyrir þessum þætti í starfsemi stofnunarinnar. Orðrétt segir í skýrslunni: „Ríkisendurskoðun telur að þörf sé á að staða stofnunarinnar, sem eftirlitsaðila með starfsemi sjálfstæðra fyrirtækja í eigu ríkisins, verði betur skilgreind svo og hvernig standa skuli að upplýsingagjöf til Alþingis um rekstur þeirra.“
    Fjárlaganefnd hefur ekki fjallað ítarlega um þessa ábendingu Ríkisendurskoðunar en minni hluti telur að forsætisnefnd verði að fjalla um málið og setja Ríkisendurskoðun skýrar verklagsreglur.
    Margt fleira mætti nefna úr skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar en hér verður látið nægja að vísa til skýrslunnar og þeirra upplýsinga sem þar er að finna.
    Alþingi hefur ekki enn afgreitt frumvap til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991 en málið bíður nú 2. umræðu. Við það frumvarp hefur minni hluti nefndarinnar flutt tvær breytingartillögur, sbr. þskj 1084, og nefndarálit á þskj. 1083. Önnur breytingartillagnanna hefur áhrif á uppsetningu ríkisreiknings fyrir árið 1992 verði hún samþykkt. Það er því ógerlegt að afgreiða það frumvarp sem hér er til meðferðar fyrr en afgreiðsla Alþingis á ríkisreikningi fyrir árið 1991 liggur fyrir. Verði breytingartillaga minni hluta við það frumvarp samþykkt og ríkisreikningur fyrir árið 1992 leiðréttur í samræmi við það mun minni hluti nefndarinnar leggja til að frumvarp þetta verði samþykkt. Felli Alþingi hins vegar breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps.
    Að lokum vill minni hluti fjárlaganefndar láta í ljós þá skoðun sína að ef Alþingi samþykkir ríkisreikning fyrir árið 1991 án breytinga verði að gæta samræmis í færslum svokallaðra skuldbindinga sem ágreiningur hefur verið um milli reikninga. Í því sambandi er eigið fé Framkvæmdasjóðs Íslands í árslok 1992 neikvætt um 830 millj. kr. Þá er enn fremur eigið fé Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina talið neikvætt um 1.713 millj. kr. og Orkusjóðs 26 millj. kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun. Mikilvægt er að um færslur þessara skuldbindinga ríki samræmdar og skýrar vinnureglur og að samræmis sé gætt milli ára.

Alþingi, 3. maí 1994.



Guðmundur Bjarnason,

Guðrún Helgadóttir.

Jón Kristjánsson.


frsm.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Margrét Frímannsdóttir.