Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 554 . mál.


1216. Nefndarálit



um frv. til l. um reynslusveitarfélög.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Á síðastliðnu vori var samþykkt á Alþingi þingsályktun um heimild til að hefja undirbúning að stofnun reynslusveitarfélaga. Samstaða náðist um málið eins og það var kynnt. Gert var ráð fyrir því að reynslusveitarfélögin yrðu fimm og gerður yrði samningur milli þeirra og félagsmálaráðuneytisins um verkefni, tekjustofna og undanþáguákvæði laga og reglugerða. Þegar samningar lægju fyrir í meginatriðum yrði lagafrumvarp flutt á grundvelli þeirra. Meginatriði hugmyndarinnar var að hafa fá og vel afmörkuð tilraunaverkefni sem framkvæmd yrði í fáum en ólíkum sveitarfélögum.
    Skemmst er frá því að segja að í frumvarpinu er blaðinu snúið við í öllum aðalatriðum.
—    Lagt er til að reynslusveitarfélög verði 12 í stað 5. Valdir hafa verið 15 umsækjendur og verða reynslusveitarfélögin 12 úr þeirra hópi. Þar eru nær öll fjölmennustu sveitarfélög landsins. Spyrja má hvort ástæða sé til þess að gera tilraun með verkefni í sveitarfélögum þar sem allt að 2 / 3 landsmanna búa. Eðlilegra væri þá að stíga skrefið til fulls að flytja verkefnið frá ríki til sveitarfélaga.
—    Engin takmörk eru sett um fjölda tilraunaverkefna í hverju reynslusveitarfélagi. Það þýðir að mögulegt er að hafa fjöldann allan af tilraunaverkefnum í hverju sveitarfélagi og sama verkefnið gæti líka verið í öllum reynslusveitarfélögunum. Með þessu er hætt við því að verkefnið sjálft renni út í sandinn.
—    Í stað þess að leggja fram frumvarp, byggt á samningum milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna, og óska eftir tilteknum frávikum frá gildandi lögum er lagt fram frumvarp sem veitir opnar heimildir til ráðherra að víkja frá lögum. Eftirtektarvert er að það er samkvæmt frumvarpinu á valdi ráðherra að meta hvenær honum er heimilt að víkja frá lögum og þá á hvaða hátt.
    Megingalli frumvarpsins er einmitt sá að ekki hefur verið unnið að málinu eins og til var ætlast. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að fyrir liggi samningar milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna þar sem fram komi hvaða verkefni verði flutt frá ríki til sveitarfélaganna og undan hvaða lagaskyldum megi víkja með vísan til tilgreindra laga og lagaákvæða. Á grundvelli slíkra fyrirliggjandi samninga mundi Alþingi afgreiða frumvarp til laga um reynslusveitarfélög.
    Að mati minni hlutans er eðlilegast að málið verði unnið eins og þingsályktun Alþingis gerir ráð fyrir og að framan er greint. Er því lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 5. maí 1994.



Kristinn H. Gunnarsson.