Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


117. löggjafarþing 1993–1994.
Nr. 20/117.

Þskj. 1245  —  378. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997.


    Alþingi ályktar að meginmarkmið byggðastefnu séu:
          Að treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti.
          Að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímasamfélags.
          Að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.
    Til þess að ná þessum markmiðum verður til ársloka 1997 lögð áhersla á eftirfarandi stefnumál:

1. Efling samfelldra atvinnu- og þjónustusvæða.
    Unnið verði að því að tengja þéttbýlisstaði og sveitir með öruggum samgöngum og efla samfelld atvinnu- og þjónustusvæði (vaxtarsvæði). Svæðin verða að vera nægilega fjölmenn til þess að hægt sé að reka þar fjölbreytta þjónustu og atvinnulíf á hagkvæman hátt. Aðgerðir í þessu skyni verði meðal annars eftirfarandi:
     a.      Leggja skal áherslu á samgönguframkvæmdir, m.a. gerð heilsársvega sem þjóna hagsmunum atvinnulífsins og stækka þjónustusvæði.
     b.      Ný opinber þjónusta sem almenningur þarf að leita til og þjóna skal heilum landshlutum skal fyrst og fremst vera í stærstu þéttbýlisstöðunum eða þar sem hagkvæmt þykir.
     c.      Stefnt er að því að draga ekki úr þeirri opinberu þjónustu á vegum ríkisins sem nú er veitt á landsbyggðinni.
     d.      Í aðgerðum ríkisvaldsins á jaðarsvæðum verði einkum horft til nýtingar náttúruauðlinda, annarra landgæða og ferðaþjónustu. Í allra afskekktustu byggðum verði þeim bændum sem hætta vilja búskap boðin aðstoð við það.

2. Starfsemi og framkvæmdir ríkisins verði samræmdar.
    Starfsemi og framkvæmdir ríkisins verði samræmdar og með því reynt að forðast tilviljanakenndar ákvarðanir. Opinbera þjónustu á að veita á sem hagkvæmastan hátt og laga hana að íbúafjölda, samgöngum og tækni. Aðgerðir í þessu skyni verði meðal annars eftirfarandi:
     a.      Tekin verði upp samræmd vinnubrögð við ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og fyrirkomulag þjónustu. Langtímamarkmið ráðuneyta og stofnana ríkisins skulu samræmd. Forsætisráðuneytið annist samræmingu og beiti sér fyrir því að ný vinnubrögð verði tekin upp. Við þetta verkefni njóti ráðuneytið aðstoðar Byggðastofnunar.
     b.      Gerðar verði fjögurra ára áætlanir um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma.
     c.      Forsætisráðherra skipi nefnd til að endurskoða lagaákvæði um áætlanagerð á vegum ríkisins í þeim tilgangi að vinnubrögð verði markvissari og fjármunir nýtist betur.
     d.      Litið verði á svæðisbundnar áætlanir sem samstarfssamning milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Þær verði unnar í nánu samstarfi við sveitarfélögin og ráðuneyti en Byggðastofnun verði samræmingaraðili fyrir hönd forsætisráðuneytis við gerð þeirra.

3. Valddreifing frá ríki til sveitarfélaga.
    Stefna skal að valddreifingu með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Forsenda fyrir því er sameining eða samningsbundið samstarf sveitarfélaga. Aðgerðir í þessu skyni verði meðal annars eftirfarandi:
     a.      Tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst.
     b.      Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.

4. Nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi.
    Atvinnulífinu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði. Aukin áhersla verði lögð á atvinnuþróunarstarf á vegum Byggðastofnunar og heimamanna sem beinist að nýsköpun og aukinni fjölbreytni í atvinnulífi. Aðgerðir í þessu skyni verði meðal annars eftirfarandi:
     a.      Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að samræma nýtingu fjárveitinga úr ríkissjóði til atvinnumála á landsbyggðinni. Byggðastofnun styrki fyrirtæki á landsbyggðinni til að bæta og efla vöruþróun, markaðsmál, hæfni starfsmanna og nýsköpun. Samstarf fyrirtækja við önnur fyrirtæki og rannsókna- og menntastofnanir verði styrkt. Áfram verði stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum.
     b.      Atvinnuþróunarstarf á vegum heimamanna verði eflt með fjárhagslegum stuðningi Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélög í hverju kjördæmi. Byggðastofnun verði hluthafi með allt að þriðjungseignaraðild í atvinnuþróunarfélögunum, auk þátttöku í rekstrarkostnaði og einstökum verkefnum á vegum félaganna.
     c.      Kannað verði hvaða hlutverki Byggðastofnun geti gegnt í samræmdum aðgerðum á vegum hins opinbera til þess að glæða áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi. Enn fremur verði kannað hvort hægt sé að kaupa erlend fyrirtæki til landsins. Áfram verði unnið að öflun upplýsinga um aðstæður fyrir stóriðju á landsbyggðinni.
     d.      Framlög af fjárlögum verði sem hér segir:

Byggðastofnun 1994 1995 1996 1997
Atvinnuráðgjöf 25 35 35 35
Nýsköpun, ýmis verkefni 25 75 15 125
Framlag til rekstrar 75 100 100 100
Framlag í afskriftasjóð 60 25 25 25
Alls 185 235 235 285
Iðnaðarráðuneyti — landsbyggðariðnaður 11 11 11 11
Framleiðnisjóður 300 250 250 200
Samtals á árinu 496 496 496 496
Framlag til Framleiðnisjóðs 1994–1996 er samkvæmt búvörusamningi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.