Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:28:13 (4866)

[23:28]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er von að mönnum verði nokkuð tíðrætt um efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga og noti tækifærið undir þessum dagskrárlið til að fjalla um málið vítt og breitt í tengslum við þau frv. sem hér hafa verið lögð fram.
    Eins og hefur komið fram er nokkuð af þeim atriðum sem eru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hlutir sem hafa sést áður og efasemdir eru uppi um að eðlilegt sé að reikna það til tekna að þessu sinni og einnig má efast um þann framgang sem látið er í skína í yfirlýsingunni.
    Ég vil þó fyrst víkja að einstökum efnisgreinum frv. og nefni fyrst það sem er að finna í 1. gr. frv., ákvæði um að ekki skuli lengur teljast til skatthlunninda hjá starfsmanni í fyrirtæki sem skattskyldar tekjur ef vinnuveitandi rekur hópferðabifreið og notar hana til að flytja starfsmenn til og frá vinnu. Þetta er svo sjálfsögð breyting að gera í ljósi þeirrar framkvæmdar á lögunum eins og hún hefur birst mönnum að undanförnu að það á varla að þurfa að hafa um það nokkur orð og enn síður ætti verkalýðshreyfingin að þurfa að beita sér í kjarasamningum til að fá þessari löggjöf breytt þannig að um eðlilega framkvæmd sé að ræða.
    Það var mörgum undrunarefni að komast að raun um að svo skyldi með farið að starfsmönnum yrði reiknað það sem hlunnindi ef vinnuveitandi annaðist það að keyra þá til og frá vinnu, ekki hvað síst í ljósi þess að engin önnur ríkisstjórn hefur haft uppi eins miklar yfirlýsingar um hagræðingaraðgerðir í atvinnulífinu yfir einstök atvinnusvæði og beitt sér fyrir því, að eigin sögn a.m.k., að atvinnusvæði yrðu stækkuð. Má þar minnast á margfræga herferð um sameiningu sveitarfélaga sem átti að skila íbúum margvíslegu hagræði og ábata. En eitt af því sem menn ráku sig á í framhaldi af því máli voru einmitt hlutir af þessu tagi, að starfsmenn sem höfðu áður unnið í sínu byggðarlagi en þurftu af einhverjum ástæðum að fara að sækja vinnu í önnur byggðarlög, dæmi um ástæður var t.d. gjaldþrot atvinnufyrirtækis, þeir ráku sig á það að mönnum var gert að greiða skatt, mönnum voru reiknuð hlunnindi af þessum akstri.
    Það er þvílíkur fáránleiki að halda þessari framkvæmd áfram eftir að á það hefur verið bent að maður hefði varla trúað því að nokkur ríkisstjórn væri svo lánlaus að breyta ekki þegar í stað lögum til samræmis við eigin yfirlýsingar um stefnu í atvinnumálum. En þessari ríkisstjórn lánaðist ekki að breyta í samræmi við eigin orð og stefnu og því þurfti atbeina verkalýðshreyfingarinnar til til þess að ná nauðsynlegum lagfæringum á lögunum um tekju- og eignarskatt hvað þetta atriði varðar.
    Ég reikna með því að ekki verði af hálfu þingmanna nein fyrirstaða við svo sjálfsagðri breytingu en fyrst og fremst er þessi 1. grein háðung á ríkisstjórnina, hún gerir sjálfa sig að aðhlátursefni með því að tilkynna formlega að það hafi þurft atbeina verkalýðshreyfingarinnar til svo einfaldrar og sjálfsagðrar breytingar.
    Hin efnisbreytingin í frv. um frádráttarbærni iðgjalda er afar merkileg, ekki hvað síst í ljósi þess að um síðustu áramót var ekki annað að skilja á hæstv. ríkisstjórn en búið væri að afnema tvísköttun lífeyrisgreiðslna með sérstöku lagaákvæði sem þá var lögfest. En í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í desember sl. segir um þetta atriði undir fyrirsögninni ,,Afnám tvísköttunar lífeyrisgreiðslna``, með leyfi forseta:
    ,,Við gildistöku staðgreiðslukerfisins árið 1988 voru allir frádráttarliðir sem giltu í eldra tekjuskattskerfinu felldir niður. Einn þessara frádráttarliða var iðgjaldagreiðsla launafólks í lífeyrissjóð. Það var frá upphafi ljóst að þar sem greiðslur úr lífeyrissjóðum eru jafnframt skattlagðar fólst í þessu ákveðin tvísköttun. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fram frv. á yfirstandandi þingi til að koma í veg fyrir þessa tvísköttun. Til að tryggja að þessi ákvörðun komi lífeyrisþegum strax til góða verður jafngildi lífeyrisframlags þeirra, eða sem nemur 15% af útborguðum lífeyri, undanþegið skatti þegar á næsta ári.``
    Það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra um hvernig yrði með þetta lagaákvæði farið sem kom inn fyrir síðustu jól. Það er því ljóst að það þarf að athuga þetta betur. Hitt vil ég segja um efnið sjálft að það er í samræmi við þær tillögur sem sést hafa frá okkur um þetta efni, að eðlilegt væri að afnema tvísköttun lífeyrisgreiðslna með þeim hætti að inngreiðslurnar væru sérstaklega frádráttarbærar frá skatti fremur en leggja áherslu á skattfrelsi útgreiðslna umfram það sem felst í almennum persónuafslætti.
    Þá er enn fremur að finna í 3. gr. frv., fyrir utan það sem ég hef rakið um iðgjöld í lífeyrissjóð, ákvæði um að heimilt er að færa til gjalda tapað hlutafé í félögum sem hafa orðið gjaldþrota. Nú er það svo að í gildandi lögum er ákvæði um þetta efni þó svo það virðist vera nokkuð þrengra en þetta og væri fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um það hversu mikið hann áætlar að þessi breyting kosti ríkissjóð á ári. Í núgildandi lögum um tekju- og eignarskatt er kveðið á um það í 4. tölulið að heimilt sé að

draga frá sem rekstrarkostnað sannarlega tapað hlutafé þegar aðili sem því tapar hefur eignast það á þann hátt að hann hefur tekið hlutabréf sem gjald fyrir viðskiptakröfur vegna greiðsluerfiðleika hlutafélagsins sem í hlut á.
    Í frv. sem hér er til umræðu er bætt við eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafa gjaldþrota. Sama gildir um hlutafé sem tapast hefur vegna þess að það hefur verið fært niður í kjölfar nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991.``
    Það er ljóst að hér er um að ræða rýmkun frá gildandi lagaákvæði en mér er ekki ljóst hversu mikil sú rýmkun er. Það kom ekki fram svo ég heyrði í ræðu ráðherra hversu mikið hann mæti þessari rýmkun í fjárhæðum fyrir ríkissjóð. En fróðlegt væri að fá mat á kostnaði vegna þeirra breytinga.
    Virðulegur forseti. Það er rétt að staldra aðeins við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er grundvöllurinn að þessum lagafrv. ásamt nýgerðum kjarasamningum. Það fór eins og mig grunaði þegar við vorum að ræða fjárlagafrv. á sl. hausti og sáum þar að ríkisstjórnin gerði ráð fyrir að afnema eingreiðslur í almanna- og atvinnuleysistryggingum að verkalýðshreyfingin yrði að taka það mál upp og knýja ríkisstjórnina til þess að láta af þeim áformum.
    Við alþýðubandalagsmenn og ég hygg stjórnarandstaðan öll gagnrýndum þessi áform harðlega enda verður að segja að þetta var óvenju ósvífin tillaga og reyndar síðar samþykkt af hálfu stjórnarflokkanna að aftengja bótakerfið, tryggingabætur og atvinnuleysisbætur þeim eðlilegu hækkunum sem laun taka í kjölfar kjarasamninga. Það segir sína sögu um stefnu þessara tveggja flokka gagnvart þeim launþegum sem einna minnst hafa úr að spila að í fjárlögum ársins eru þeir sérstakur markhópur þar sem ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu sér að sækja drjúgar fjárhæðir og spara ríkissjóði þær.
    Það hlaut að leiða að því að í næstu kjarasamningum á eftir afgreiðslu fjárlaga hlyti verkalýðshreyfingin að taka þetta mál upp og setja það á oddinn í sinni kröfugerð, að sveigja ríkisstjórnina til hins fyrra horfs hvað þetta varðar. Eins og sjá má í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 20. febr. er ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafa orðið að láta undan þrýstingi verkalýðshreyfingarinnar og taka upp á nýjan leik þær eingreiðslur sem verið hafa í almanna- og atvinnuleysistryggingunum. Það er mjög þýðingarmikið að brjóta á bak aftur þessa atlögu að velferðarkerfi þjóðarinnar því hér er vissulega um að ræða einn af þeim grundvallarþáttum sem einkennir íslenskt velferðarkerfi, það eru þær bætur sem ætlaðar eru þeim sem minnst hafa. Það er hins vegar óvenju skýr, pólitísk yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að nákvæmlega þessar bætur skulu vera sérstakt keppikefli þeirra að fá út af borðinu og segir öllum svo ekki verður um villst hverjar pólitískar áherslur eru hjá þessum tveimur hægri flokkum um þessar mundir. Þetta verður geymt en ekki gleymt og ég veit að félagsmenn í verkalýðshreyfingunni munu muna ríkisstjórnarflokkunum þessi áform á næstu vikum.
    Þá vil ég víkja að þeim þætti yfirlýsingarinnar sem lýtur að húsnæðismálum. Mér er það nokkurt undrunarefni að í þessari yfirlýsingu skuli vera að finna atriði úr stjórnarfrv. ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og þau atriði talin fram sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og framlag til lausnar kjarasamningum. Þar á ég við að áform um að lækka afskriftir í félagslega kerfinu úr 1,5% í 1%. Ég get ómögulega fengið það heim og saman að slík áform í enduðum febrúar geti verið framlag ríkisstjórnarinnar til lausnar kjarasamningum þegar tveimur mánuðum áður, eða um síðustu jól, er lagt fram stjfrv. með þessu ákvæði í. Það lá þannig fyrir tveimur mánuðum áður en þessi yfirlýsing er gefin að stjórnarflokkarnir hefðu náð saman um að breyta þessu ákvæði laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það vefst því fyrir mér eins og vafalaust fleirum að átta mig á því hvernig þetta atriði geti verið reiknað til tekna eða sem framlag ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
    Enn fremur hef ég efasemdir um að önnur atriði í þessari yfirlýsingu hvað varðar húsnæðismál séu svo efnismikil sem ætla má við fyrstu sýn.
    Annað atriði sem ég vil nefna er það sem kemur fram í ellefta punkti yfirlýsingarinnar að verkalýðshreyfingin eigi áfram að eiga fulltrúa í húsnæðisnefndum sveitarfélaga. Þetta er út af fyrir sig ekki nýtt. Okkur var kynnt það fyrir nokkru að því ákvæði stjfrv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem gerir ráð fyrir því að fulltrúar verkalýðsfélagsins verði settir út fyrir yrði breytt og að fyrirkomulagið yrði óbreytt frá því sem verið hefur.
    Nú kemur hins vegar í ljós að það stenst ekki alveg heldur er gert ráð fyrir að ganga á rétt verkalýðsfélaga til þátttöku í húsnæðisnefndum. Í drögum að texta sem við höfum séð í félmn. kemur fram að gert er ráð fyrir því að sveitarfélög geti fækkað í húsnæðisnefndum frá því sem nú er allt niður í þrjá og fækkað þá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar úr tveimur og í einn. Það er þess vegna óvíst að staðið verði við það að fullu að hætta við að setja verkalýðshreyfinguna út fyrir í þessum nefndum og þarf að knýja á um það að fá ríkisstjórnina til að standa við gefin fyrirheit hvað þetta varðar. Auðvitað er það óásættanlegt að láta ríkisstjórnina komast upp með að ýta verkalýðshreyfingunni smátt og smátt út fyrir í þessum málaflokki.
    Þá þarf að athuga mjög gaumgæfilega hitt atriðið sem ég ætla að nefna í ellefta punkti yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að í stað þess að opna fyrir lagaheimild til að lækka vexti í félagslega íbúðakerfinu ef tekjur viðkomandi íbúðareiganda lækka eins og hafði verið áformað og er í frv. að taka það atriði út. Það er ekki til bóta fyrir láglaunafólk heldur þvert á móti. Það atriði hlýtur að verka til gagnstæðrar áttar og sú tillaga sem hér er kynnt í stað þeirrar er svo óljós að það þarf að skoða hana mjög vandlega áður

en unnt er að segja nokkuð um það hvort hún mæti þeim óskum sem uppi eru í þessu efni.