Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 93 . mál.


264. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Hvað hafa ráðuneytin hvert um sig gert til að hrinda í framkvæmd þingsályktun um fjögurra ára áætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 7. maí 1993, en með henni var ríkisstjórninni falið að vinna samkvæmt framkvæmdaáætlun að aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna á tímabilinu 1992–96 ?
    Skrifstofa Alþingis sendi félagsmálaráðuneytinu þingsályktun þessa með bréfi, dags. 15. júní 1993. Til að svara fyrirspurninni hefur forsætisráðuneytið því aflað eftirfarandi greinargerðar frá félagsmálaráðuneytinu. Greinargerðin er tekin saman af skrifstofu jafnréttismála og gefur yfirlit yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja hjá skrifstofunni um stöðu málsins, en áformað er að gera sérstaka úttekt á framgangi einstakra verkefna áætlunarinnar á fyrri hluta næsta árs.
    Skömmu eftir samþykkt ályktunarinnar á Alþingi fól félagsmálaráðherra Jafnréttisráði að hafa umsjón með að markmiðum framkvæmdaáætlunarinnar yrði náð á því tímabili sem hún tekur til.
    Með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 13. júlí 1993, var öllum ráðuneytum, sveitarfélögum og heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins kynnt framkvæmdaáætlunin og til þess hvatt að hlutaðeigandi settu sér eigin verkáætlun með hliðsjón af þeim verkefnum sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni. Jafnframt voru þeir hinir sömu hvattir til að tilnefna tengilið til að annast samskipti við skrifstofu jafnréttismála.
    Í bréfi skrifstofu jafnréttismála, dags. 25. október 1993, til allra ráðuneyta var minnt á framkvæmdaáætlunina og erindi félagsmálaráðuneytis frá 13. júlí sama ár og ítrekuð tilmæli um að skrifstofunni yrðu látnar í té umbeðnar verkáætlanir ráðuneytanna, þar á meðal verkefnislýsingar, tíma- og kostnaðaráætlanir. Rétt er að taka það fram hér að ráðuneytin unnu sjálf tillögur að flestum þeim verkefnum sem lagt var til að hrint yrði í framkvæmd í þingsályktunartillögunni. Í meðferð þingsins var síðan nokkrum verkefnum bætt við.
    Fáir svöruðu ofangreindum erindum og enn færri létu umbeðnar upplýsingar í té. Fjögur ráðuneyti tilnefndu tengiliði: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið. Aðeins forsætisráðuneytið gerði grein fyrir áformum um framkvæmd þeirra verkefna sem ráðuneytinu voru falin í framkvæmdaáætluninni. Menntamálaráðuneytið vísaði til væntanlegrar lokaskýrslu framkvæmdanefndar um jafna stöðu kynjanna í skólum þar sem kynntar yrðu tillögur um aðgerðir næstu ára í þessum málaflokki.
    Auk erindaskipta við ráðuneytin hafa fulltrúar félagsmálaráðuneytisins og skrifstofu jafnréttismála átt fundi með fulltrúum Hagsýslu ríkisins, BSRB og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um starfsmannakafla framkvæmdaáætlunarinnar og enn fremur vegna töluliðar 3.5 í B-hluta þar sem fjármálaráðuneytinu er falið að gera reglulega athuganir á starfskjörum ríkisstarfsmanna með tilliti til karla og kvenna. Í kjölfar fundarins var ákveðið að kanna hvort kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna (KOS) mundi geta unnið að gagnasöfnun í þessu skyni. Stjórn KOS lýsti sig reiðubúna til verksins gegn aukafjárveitingu sem nýtt yrði til að framlengja tímabundinn ráðningarsamning við stofnunina. Í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 1994 var hugmynd þessari komið á framfæri við fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra en hún náði ekki fram að ganga við afgreiðslu fjárlaga þess árs.

    Hvaða aðgerðir af þeim sem þingsályktunin kveður á um hafa komist til framkvæmda og hvaða aðgerðir eru í undirbúningi og hvernig hyggjast ráðuneytin standa að þeim?
    Framkvæmdaáætlunin er tvískipt. Fyrri hluti hennar fjallar um starfsmannamál og er að mestu leyti byggður á ákvæðum laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Seinni hlutinn tekur til verkefna einstakra ráðuneyta og byggir á þeirri hugmyndafræði að jafnréttissjónarmiðin verði beinlínis að flétta inn í starfsemi hins opinbera. Sérhvert ráðuneyti ber ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem undir það heyra en skrifstofu jafnréttismála var af hálfu félagsmálaráðuneytisins falið að hafa eftirlit með að þeim yrði sinnt.
    Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir framvindu einstakra verkefna.

A. Starfsmannamál ríkisins.
    Fyrri hluti framkvæmdaáætlunarinnar tengist hagsmunum opinberra starfsmanna og hefur því rík áhersla verið lögð á að kynna hana fulltrúum BSRB.
    Í ályktun bandalagsráðstefnu BSRB í nóvember 1993 er talið brýnt að framkvæmdaáætluninni verði fylgt vel eftir. Í svari fjármálaráðherra til BSRB, dags. 28. nóvember 1993, kemur fram að fjármálaráðuneytið sé sammála BSRB um mikilvægi þess að stefnumiðum í jafnréttismálum sé fylgt eftir og lýsir ráðuneytið sig reiðubúið til viðræðna um þau atriði sem snúa sérstaklega að opinberum starfsmönnum. Þá má benda á að á þingi BSRB í október sl. var samþykkt jafnréttisáætlun sem unnin var af jafnréttisnefnd BSRB, m.a. með hliðsjón af framkvæmdaáætluninni.

    1. og 2. tölul. Ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu og um ráðningar í störf.
    Á fundi Jafnréttisráðs 22. september sl. var farið yfir fyrri hluta framkvæmdaáætlunarinnar og ákveðið að beina því til allra ráðuneytisstjóra að framfylgja tilmælum í 1. og 2. tölul. A-hluta, bæði í ráðuneytunum og hjá þeim stofnunum sem undir þau heyra.

    3. tölul. Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Skrifstofu jafnréttismála er ekki kunnugt um að nokkuð hafi verið gert til að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd.

    4. tölul. Hlutur kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum
.
    Í þessum tölulið er sett það markmið að heildarþátttaka kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkisins nemi 30 af hundraði í hverju ráðuneyti um sig í lok þess tímabils sem áætlunin tekur til. Á skrifstofu jafnréttismála er vinna við skýrslu um þetta hlutfall kynjanna nú á lokastigi en fyrstu niðurstöður benda til að hlutur kvenna hafi aukist.

    5. tölul. Sveigjanlegur vinnutími
.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir öðrum upplýsingum um framkvæmd ákvæðis um sveigjanlegan vinnutíma með tilliti til þarfa starfsmanna með fjölskylduábyrgð en þeim að samkvæmt jafnréttisáætlun jafnréttisnefndar Akureyrar er starfsmönnum bæjarskrifstofunnar boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma.

    6. tölul. Um bifreiðastyrki.
    Um þetta er fjallað í greinargerð um töluliði 2.4 og 3.5 í B-hluta og vísast þangað. Sjá enn fremur umfjöllun um aukafjárveitingu til KOS hér að framan.

    7. tölul. Um starfsmat.
    Sjá greinargerð um tölulið 2.4 í B-hluta.

B. Verkefni ráðuneyta og stofnana á þeirra vegum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Þó skal þess getið að skrifstofa jafnréttismála vann upp úr árbók íslensku þjóðkirkjunnar fyrir árið 1993 yfirlit yfir fjölda einstaklinga í stjórnum og starfsnefndum kirkjunnar. Hlutur kvenna reyndist vera 28,4 af hundraði sem er töluvert hærra hlutfall en annars staðar. Yfirskrift einstakra verkefna er svohljóðandi:
    1.1. Staða kynja hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    1.2. Nauðgunarbrot.
             1.2.1. Meðferð opinberra mála.
             1.2.2. Námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu.
    1.3. Staða kvenna innan kirkjunnar.


Félagsmálaráðuneyti.
    Töluliður 2.1. Staða karla í breyttu samfélagi.
    Jafnréttisráð hefur skipað ráðgjafanefnd í því skyni að virkja karlmenn til þátttöku í jafnréttisumræðunni. Fyrsti áfangi þess starfs er ráðstefna um karla og ofbeldi sem haldin var 12. nóvember sl.

    Töluliður 2.2. Jafnréttisráðgjafi.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir að jafnréttisráðgjafi verði ráðinn til tímabundinna starfa.

    Töluliður 2.3. Vinnuvernd.

    Töluliður 2.3.1. Úttekt á hefðbundnum kvennastörfum.
    Skipulögð vinna vegna þessarar úttektar er enn á byrjunarstigi. Hér er þó rétt að vekja athygli á að Vinnueftirlit ríkisins hefur sinnt vinnuaðstæðum hefðbundinna kvennastarfa sérstaklega og til að mynda unnið að rannsóknum á störfum og heilsu fiskvinnslukvenna.

    Töluliður 2.3.2. Könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.
    Félagsmálaráðuneytið hefur falið skrifstofu jafnréttismála og Vinnueftirliti ríkisins að kanna möguleika á að stofnanirnar vinni að þessu verkefni í sameiningu og hafa fyrstu skref þegar verið tekin með undirbúningi að verkefnislýsingu, framkvæmd og kostnaðaráætlun. Standa vonir til að vinna við verkefnið megi hefjast á næsta ári og er reyndar sérstaklega gert ráð fyrir fjárveitingu til þess í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995.

    Töluliður 2.4. Launamunur kynjanna.
    Skrifstofa jafnréttismála hefur unnið að norræna jafnlaunaverkefninu með söfnun upplýsinga en eitt meginmarkmið þess verkefnis er að leita leiða til að draga úr launamun kynjanna. Að frumkvæði ráðgjafahóps, sem starfað hefur í tengslum við verkefnið, ákvað Jafnréttisráð að láta gera rannsókn á launamyndun og kynbundnum launamun í fjórum ríkisstofnunum og fjórum fyrirtækjum í eigu einkaaðila. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var falið að framkvæma rannsóknina en ráðgjafahópurinn lagði línur um inntak og aðferðir. Undirbúningur að rannsókninni hófst haustið 1993 og er niðurstaðna að vænta í þessum mánuði.
    Þar sem endanleg skýrsla liggur ekki fyrir hefur Jafnréttisráð ekki lagt fram tillögur um aðgerðir er varða laun og launakjör karla og kvenna. Umræða um starfsmat hefur tengst norræna hluta verkefnisins en Jafnréttisráð hefur ekki enn þá tekið afstöðu til starfsmats sem einnar leiðar af mörgum í átt til aukins launajafnréttis, sjá 7. tölul. A-kafla framkvæmdaáætlunarinnar. Starfsmat er umdeild aðferð en reynsla annarra þjóða bendir til þess að hún geti skilað árangri ef rétt er að því staðið. Starfsmat krefst vandaðra vinnubragða og samstarfs við samtök launafólks.

    Töluliður 2.5. Starfsmenntun.
    Lög um starfsmenntun í atvinnulífinu tóku gildi í lok maí árið 1992. Samkvæmt lögunum skal árlega veita ákveðna fjárhæð til starfsmenntasjóðs. Starfsmenntaráð félagsmálaráðuneytisins hefur gert tillögur um úthlutun úr sjóðnum. Samkvæmt 17. gr. laganna skal endurskoða lög um starfsmenntun í atvinnulífinu innan þriggja ára frá gildistöku þeirra. Félagsmálaráðherra skipaði nýlega nefnd til að endurskoða lögin. Gert er ráð fyrir að endurskoðuninni ljúki meðan yfirstandandi þing er enn að störfum.
    Fyrirhugað er að gefa Alþingi skýrslu um úthlutun styrkja úr starfsmenntasjóði. Í skýrslunni verður jafnframt sýnd skipting styrkja milli starfshópa, þar með talin skipting milli karla og kvenna, starfsgreina o.s.frv.
    Almennt má segja að starfsmenntaráð hafi lagt áherslu á að styðja námskeið fyrir ófaglært starfsfólk, þar á meðal námskeið á vegum starfsmannafélagsins Sóknar, gerð námsefnis fyrir dagmæður, ýmis námskeið á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu o.fl. Einnig hafa námskeið fyrir ófaglærðar konur verið studd af starfsfræðslunefnd verkafólks. Starfsmenntaráð hefur enn fremur beitt sér fyrir umræðu um sérstakar aðgerðir í þágu starfsfólks í umönnunarstörfum en þar eru konur hlutfallslega mun fleiri en karlar og hafa 12 millj. kr. verið veittar úr starfsmenntasjóði vegna námskeiða fyrir ófaglært starfsfólk í umönnunarstörfum. Nánari upplýsingar um fjárveitingar úr starfsmenntasjóði er að finna í skriflegu svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Halldórsdóttur á 117. löggjafarþingi, í apríl sl.

    Töluliður 2.6. Orsakir brottflutnings kvenna úr dreifbýli í þéttbýli.
    Ekki er kunnugt um að byrjað hafi verið á þessu verkefni.

    Töluliður 2.7. Rekstur kvennaathvarfs og annarra félagasamtaka sem aðstoða konur sem þolendur ofbeldis og sifjaspella.
    Hinn 15. nóvember 1993 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að gera úttekt á rekstrargrundvelli félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifjaspella og setja fram tillögur um hvernig hann yrði best tryggður. Nefndin lauk störfum í mars 1994 með skilagrein um rekstrargrundvöll félagasamtaka sem aðstoða fórnarlömb ofbeldis og sifjaspella.

    Töluliður 2.8. Stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar.
    Hinn 14. júlí 1994 sendi félagsmálaráðherra öllum ráðuneytum svohljóðandi bréf:
    „Í tilefni af því að Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 1994 Ár fjölskyldunnar er nú unnið að því á vegum landsnefndar um árið og félagsmálaráðuneytisins að undirbúa þingsályktunartillögu um opinbera fjölskyldustefnu. Miðað er við að þingsályktunartillagan taki til helstu þátta fjölskyldumála, svo sem á sviði félags-, heilbrigðis-, mennta-, umhverfis- og skattamála. Gert er ráð fyrir að í henni komi fram framkvæmdaáætlun og forgangsröðun verkefna á sviði fjölskyldumála á næstu árum.
    Þess er hér með farið á leit við ráðuneyti yðar að það sendi félagsmálaráðuneytinu yfirlit yfir þá málaflokka sem að mati ráðuneytis yðar er rétt að fjallað verði um í ofangreindri þingsályktun. Jafnframt er óskað samstarfs við undirbúning þingsályktunarinnar og að tilnefndur verði tengiliður fyrir ráðuneyti yðar vegna þess undirbúningsstarfs sem fyrst.
    Umsjón með undirbúningi þingsályktunartillögunnar hefur Bragi Guðbrandsson, formaður landsnefndar um Ár fjölskyldunnar.“
    Svör hafa borist frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Önnur ráðuneyti hafa ekki svarað og er málið því enn í vinnslu innan félagsmálaráðuneytisins.

Fjármálaráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna á vegum fjármálaráðuneytis en yfirskrift einstakra verkefna er sem hér segir:
    3.1. Stjórnsýslufræðsla ríkisins.
             3.1.1. Sérstök námskeið fyrir konur.
             3.1.2. Sérstök námskeið fyrir stjórnendur.
    3.2. Nefndaskipan.

    3.3. Lög um tekjuskatt og eignarskatt.
    3.4. Lög um lífeyrissjóði.
    3.5. Gagnasöfnun.
Sjá fyrri hluta samantektar þessarar.

Forsætisráðuneyti.
    Forsætisráðuneytið svaraði fyrirspurn skrifstofu jafnréttismála, dags. 25. október 1993, svo:

    Töluliður 4.1. Fjarvinnslustofur.
    Byggðstofnun var falin ráðstöfun 5 millj. kr. fjárveitingar til að efla fjarvinnslu. Hluta fjárins var varið til tilraunaverkefnis í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

    Töluliður 4.2. Laun kvenna og karla.
    Upplýsingar Þjóðhagsstofnunar um tekjur einstaklinga eru nú einnig flokkaðar eftir kyni, sbr. enn fremur skýrslu stofnunarinnar um tekjuþróun kvenna og karla fyrir árin 1991 og 1992.

    Töluliður 4.3. Efling heimilisiðnaðar.
    Forsætisráðuneytið hefur sett á laggirnar sérstakt tilraunaverkefni um íslenskt handverk og varið til þess 20 millj. kr.

Hagstofa Íslands.
    Töluliður 5.1. Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    Hagstofan gaf á liðnu sumri út handbók með framangreindum upplýsingum á íslensku og ensku.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang annarra verkefna á vegum Hagstofunnar en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    5.2. Tölfræðileg úttekt á sifjamálum.
    5.3. Eignarréttur að fasteignum.
    5.4. Tölfræðileg úttekt á launamun kvenna og karla.

    Jafnréttisráð hefur farið þess á leit að úttekt samkvæmt tölulið 5.3 fari fram sem fyrst og verði tilbúin fyrir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking á næsta ári. Þar verður m.a. fjallað um skiptingu eigna milli kynjanna. Töluliðurinn hljóðar svo: „Hagstofu Íslands og Fasteignamati ríkisins verði falið að vinna úttekt á því hverjir eigi fasteignir hér á landi. Tilgangur slíkrar úttektar verði að vekja athygli kvenna á eignastöðu sinni. Við skýrslugerð ber að gæta þess að engir einstaklingar séu þar greinilegir.“

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna, en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    6.1. Lög um fæðingarorlof.
    6.2. Konur og möguleikar þeirra til réttinda hjá Tryggingastofnun ríkisins.

    Rétt þykir að geta þess að á vegum Jafnréttisráðs hafa verið teknar saman upplýsingar um rétt feðra til töku fæðingarorlofs annars staðar á Norðurlöndum. Upplýsingar þessar hafa verið sendar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og félagsmálaráðherra til áréttingar á ákvæðum framkvæmdaáætlunarinnar. Í þeirri samantekt var einnig gerð grein fyrir úrskurðum kærunefndar jafnréttismála um tvær kærur frá feðrum sem ekki höfðu fengið greidd laun í fæðingarorlofi. Kærunefndin úrskurðaði að sú afstaða væri brot á lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    7.1. Könnun á stöðu kvenna í iðnaði.
    7.2. Fræðslustarfsemi.
             7.2.1. Námskeið fyrir konur um frumkvæði í atvinnulífinu.
    7.3. Sérstakar áherslur í endurmenntun og starfsmenntun.
    7.4. Þróunarverkefni.

    7.5. Jafnrétti til stjórnunarstarfa í bönkum.

Landbúnaðarráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna, en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    8.1. Félagsleg réttindi kvenna í landbúnaði.
    8.2. Atvinnumál kvenna í landbúnaði
    8.3. Fræðsla fyrir konur í landbúnaði.

Menntamálaráðuneyti.
    Framkvæmdanefnd um jafna stöðu kynja í skólum lauk störfum með skýrslugerð í lok árs 1993. Framkvæmdanefndinni hafði verið falið að fylgja eftir tillögum og stefnu sem mörkuð var í skýrslu starfshóps um jafna stöðu kynja í skólum frá í maí 1990. Í skýrslu framkvæmdanefndarinnar eru settar fram tillögur um aðgerðir á næstu árum. Í bréfi menntamálaráðuneytisins frá febrúar á þessu ári kemur fram að menntamálaráðherra hefur ekki tekið afstöðu til tillagna nefndarinnar.
    Í samræmi við skýrslu framkvæmdanefndarinnar var nýlega skipuð þriggja manna framkvæmdanefnd, sbr. tölulið 9.2.8 í framkvæmdaáætluninni, til að vinna áfram að jafnri stöðu kynja í skólum lögum samkvæmt. Fyrri framkvæmdanefndin hafði jafnframt lagt til að menntamálaráðuneytið héldi áfram samvinnu við skrifstofu jafnréttismála um gerð fræðsluefnis fyrir efstu bekki grunnskóla og framhaldsskóla og er það verkefni nú á lokastigi.
    Þá gaf fyrri framkvæmdanefnd ráðuneytisins út kynningarritið „ . . .  betri tíð með blóm í haga . . . “ Markhópurinn var foreldrar og var bæklingnum ætlað að vekja þá til umhugsunar um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. tölulið 9.2.6.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um önnur verkefni á vegum menntamálaráðuneytis en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    9.1. Samfelldur skóladagur.
    9.2
Efling jafnréttis kynjanna á öllum skólastigum.
             9.2.1. Fræðslufundir og námskeið.
             9.2.2. Starfsmannastefna skóla.
             9.2.3. Námsefni.
             9.2.4. Náms- og starfsfræðsla.

             9.2.5. Nám í fjölskyldufræðum.
             9.2.6. Fræðsluefni fyrir foreldra,
sbr. ofangreint.
             9.2.7. Um eflingu kvennarannsókna við Háskóla Íslands
.
             9.2.8. Skipun framkvæmdanefndar, sbr. ofangreint.

Samgönguráðuneyti.
    Samgönguráðuneyti eru ekki ætluð sérstök verkefni skv. B-hluta áætlunarinnar. Samkvæmt A-hluta ber því hins vegar að leitast við að jafna hlut kynjanna í störfum hjá þeim stofnunum sem undir það heyra. Samgönguráðuneytið hefur upplýst að unnið sé að þessu markmiði og að ýmislegt bendi til hægfara þróunar í þá átt, sbr. stöðuveitingar hjá Pósti og síma.

Sjávarútvegsráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna, en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    11.1. Gæðaátak í sjávarútvegi.
    11.2. Þjónustustörf tengd sjávarútvegi
.

Umhverfisráðuneyti.
    Umhverfisráðuneyti eru ekki ætluð sérstök verkefni skv. B-hluta áætlunarinnar. Samkvæmt A-hluta ber því hins vegar að leitast við að jafna hlut kynjanna í störfum hjá þeim stofnunum sem undir það heyra og í nefndum á þess vegum.

Utanríkisráðuneyti.
    Skrifstofa jafnréttismála býr ekki yfir upplýsingum um framgang einstakra verkefna en yfirskrift þeirra er svohljóðandi:
    13.1. Staða kvenna í utanríkisþjónustunni.
    13.2. Konur í þróunarríkjunum.

    Hve miklu fjármagni hafa ráðuneytin varið til aðgerðanna og hefur sérstaklega verið gert ráð fyrir fjármagni á fjárlögum til þessara verkefna?
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir 2 millj. kr. fjárveitingu til aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytis til framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál.
    Að öðru leyti en fram kemur í einstökum liðum svars við 2. spurningu eru ýmsir annmarkar á að gefa yfirlit um hversu miklu fé hefur verið varið til þeirra aðgerða sem framkvæmdaáætlunin mælir fyrir um. Einkum er það örðugleikum bundið í ljósi uppbyggingar áætlunarinnar en eins áður hefur komið fram er í áætluninni leitast við að flétta þætti hennar eins og kostur er inn í starfsemi þeirra stofnana sem hún tekur til.
Neðanmálsgrein: 1
 Svo í fyrirspurninni. Á að vera 1993–97 samkvæmt ályktun Alþingis.