Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 257 . mál.


300. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Eigi skal skrá aðila samkvæmt þessari grein ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó á aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standa í beinu sambandi við framleiðslu vöru til sölu í atvinnuskyni á síðari rekstrarárum.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningu, þar með talið um afturvirka skráningu til allt að sex ára og um tryggingu vegna skráningar skv. 2. málsl. 5. mgr.

2. gr.


    2. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 17. gr. laga nr. 122/1993, orðast svo:
    Bílaleigum og tryggingafélögum, sem vegna starfsemi sinnar hafa keypt notuð ökutæki, er heimilt að ákvarða skattverð skv. 1. mgr. við endursölu þeirra.

3. gr.


    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Þeir aðilar sem um ræðir í 1. mgr. 10. gr. geta við skil á virðisaukaskatti dregið frá reiknuðum útskatti á hverju uppgjörstímabili 19,68% af neikvæðum mismun á söluverði og innkaupsverði seldra ökutækja á viðkomandi uppgjörstímabili, enda eigi formskilyrði 3. mgr. 10. gr. við um söluna að öðru leyti.

4. gr.


    Í stað hlutfallstalnanna „2%“ og „20%“ í 2. mgr. 27. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 119/1989, kemur: 1% og 10%.

5. gr.


    Í stað orðanna „flokk 0“ í 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: flokk 1.

6. gr.


    3. mgr. 43. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 106/1990, orðast svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis við kaup á vörum eða þjónustu. Endurgreiðsla samkvæmt þessari málsgrein getur eingöngu tekið til virðisaukaskatts af þeim aðföngum sem virðisaukaskattsskyldir aðilar geta talið til innskatts, sbr. 15. og 16. gr.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða III í 33. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum:
    Í stað ártalsins „1992“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 1993.
    Í stað orðanna „og allt að 14% af fjárfestingu á árinu 1992“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: allt að 14% af fjárfestingu á árinu 1992 og allt að 17% af fjárfestingu á árinu 1993.
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt er heimilt að leiðrétta virðisaukaskattsskil ársins 1993 hjá aðilum sem skráðir voru frjálsri skráningu á grundvelli reglugerðar nr. 487/1992.
    Á eftir ártalinu „1996“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: vegna fjárfestingar á árunum 1990–1992.
    Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Leiðrétting vegna fjárfestingar á árinu 1993 skal gerð með jöfnum fjárhæðum á árunum 1995 og 1996. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna leiðréttingar á árunum 1994–1996 skal að hámarki nema 75 milljónum króna vegna fjárfestingar á árunum 1990–1992 en að hámarki 10 milljónum króna vegna fjárfestingar á árinu 1993. Leiðrétting hvers árs samkvæmt þessari heimild skal háð því skilyrði að aðili hafi haft með höndum skattskylda útleigu á gistirými fram að þeim tíma er til endurgreiðslu kemur.

8. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að rýmkaðar verði heimildir til að endurgreiða virðisaukaskatt aðilum sem selja notuð ökutæki í atvinnuskyni. Í öðru lagi er lagt til að álag vegna vangreiðslu á virðisaukaskatti verði lækkað. Í þriðja lagi er lagt til að breytingar sem lúta að skattalegri meðferð erlendra aðila sem til landsins koma. Að lokum eru lagðar til breytingar á heimildum til að endurgreiða virðisaukaskatt af fjárfestingu í gistirými.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Meginregla laga um virðisaukaskatt er að skattskyldir eru eingöngu þeir samkvæmt lögunum sem hafa með höndum starfsemi í atvinnuskyni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, þ.e. selja eða afhenda skattskyldar vörur eða þjónustu. Skattskyldum aðilum ber að skrá atvinnurekstur sinn hjá skattstjóra eftir ákvæðum 5. gr. laganna. Eingöngu skráðir aðilar hafa rétt til að fá endurgreiddan innskatt af aðföngum. Við framkvæmd virðisaukaskattslaga hafa ýmis vandamál komið upp varðandi það álitaefni hvenær aðili teljist hafa með höndum starfsemi í atvinnuskyni og starfsemi hans þar með skráningarskyld.
    Fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem lagt var fram á 110. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 50/1988 að hvort um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sé að ræða samkvæmt frumvarpinu fari eftir svipuðum sjónarmiðum og gildi um skilgreiningu þessara atriða í tekjuskattslögum. Við framkvæmd laganna hefur jafnframt verið stuðst við þá reglu að aðilar með „neikvæðan virðisauka“ teljist hvorki skráningarskyldir né eigi rétt á skráningu. Hefur þetta verið látið gilda jafnt um þá sem skattskyldir eru skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. og aðila sem falla undir 2.–4. tölul. sömu málsgreinar. Rétt þykir að lögfesta þessa skýringarreglu.
    Þótt framangreindar reglur séu til nokkurrar leiðbeiningar þykir sýnt að þörf er á nánari ákvæðum til að styðjast við í framkvæmd virðisaukaskattslaga, einkum þegar um er að ræða starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi, m.a. þegar aðili verður vegna eðlis viðkomandi starfsemi að fjárfesta verulega eða um lengri tíma í varanlegum rekstrarfjármunum áður en rekstrartekjur falla til í nokkrum mæli. Getur þetta m.a. átt við um iðnfyrirtæki og greinar í landbúnaði, svo sem fiskeldi og skógrækt. Þykir því nauðsynlegt að sérstaklega verði kveðið á um það í lögunum að aðilar, sem eru í þeirri aðstöðu sem að framan getur, geti fengið starfsemi sína skráða hjá skattstjóra með þeim réttaráhrifum að þeir fái rétt til að færa til frádráttar sem innskatt virðisaukaskatt af öllum aðföngum er varða starfsemina.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um þessi atriði, m.a. að kveða á um að aðili setji tryggingu fyrir endurgreiddum virðisaukaskatti. Er þar um að ræða sama fyrirkomulag og nú tíðkast varðandi byggingarstarfsemi. Þá yrði í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir skráningu í þeim tilvikum sem að framan greinir, m.a. að skráning verði ekki heimiluð nema ljóst þyki að eftirfarandi eigi við um aðila:
    að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starfsemi sem miði að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma,
    að fjárfesting aðila í varanlegum rekstrarfjármunum, þar með talið fasteignum og ræktun, eða vörubirgðum sé veruleg á sama tíma og eðlilegt sé vegna eðlis starfseminnar að hún skili ekki rekstrartekjum; ekki er nægilegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar,
    að fjárfesting aðila standi í beinum tengslum við væntanlega sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu.
    Gert er ráð fyrir að aðili sýni fram á að hann uppfylli framangreind skilyrði, svo sem með rekstraráætlun, til staðfestingar því að um eðlilega rekstraruppbyggingu sé að ræða.
    Vakin er athygli á því að með breytingu á 1. mgr. 24. gr. laganna, sbr. 22. gr. laga nr. 122/1993, var ráðherra heimilað að kveða í reglugerð á um lengra uppgjörstímabil fyrir aðila sem hafa virðisaukaskattsskylda veltu undir ákveðnu lágmarki. Getur það tekið til þeirra sem hér um ræðir.

Um 2. gr.


    Sala tryggingafélaga á ökutækjum, sem þau hafa yfirtekið í tengslum við greiðslu skaðabóta, hefur verið talin flokkast undir 1. mgr. 10. gr. Þar sem tilgangur með starfsemi tryggingafélaga, líkt og bílaleigna, er annar en að kaupa notuð vélknúin ökutæki til endursölu í atvinnuskyni er mælt með því að starfsemi þeirra verði talin upp í 2. mgr. 10. gr. Með breytingum á 16. gr. laganna er aðilum er heyra undir 1. mgr. 10. gr. veitt sérstök frádráttarheimild vegna ökutækja sem seld eru með tapi og er henni ekki ætlað að ná til tryggingafélaga og bílaleigna. Með þessu ákvæði verða því engar efnislegar breytingar á meðferð virðisaukaskatts við sölu notaðra ökutækja sem bílaleigur og tryggingafélög hafa keypt til starfsemi sinnar.

Um 3. gr.


    Með þessu ákvæði er verið að gera þeim aðilum sem geta nýtt sér skattverðsreglu 1. mgr. 10. gr. kleift að leiðrétta skattskil vegna taps á sölu einstakra ökutækja á hverju uppgjörstímabili. Þessi frádráttarregla tekur ekki til þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. mgr. 10. gr., þ.e. bílaleigna og tryggingafélaga.

Um 4. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að álag vegna vangreiðslu virðisaukaskatts verði lækkað úr 2% fyrir hvern dag í 1% fyrir hvern dag og hámark álags verði 10%. Í breytingu þessari felst ekki að vanskil á virðisaukaskatti verði ekki litin jafnalvarlegum augum og hingað til heldur endurspeglar þessi breyting breyttar aðstæður þar sem verðbólga er miklum mun lægri nú en var þegar regla þessi var sett.
    

Um 5. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar með hliðsjón af nýrri atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.

Um 6. gr.

    Greininni er breytt á þann veg að heimildarákvæði um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja er rýmkað verulega. Með ákvæðinu er heimilt að setja reglur um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja sem hafa ekki með höndum skattskyld viðskipti hér á landi en kaupa hér einhverja þjónustu eða vöru með virðisaukaskatti. Litið er til þess að væru fyrirtækin virðisaukaskattsskyld hér á landi gætu þau talið virðisaukaskatt af aðkeyptum aðföngum til innskatts. Endurgreiðsluheimildin er einskorðuð við þann virðisaukaskatt sem virðisaukaskattsskyldir aðilar hér á landi geta talið til innskatts.

Um 7. gr.


    Lagt er til að aðilar, sem fjárfestu á árinu 1993 í gistirými, geti fengið sambærilega leiðréttingu á virðisaukaskatti og heimiluð var við fjárfestingu í gistirými á árunum 1990–1992. Að auki geti aðilar, sem skráðu sig frjálsri skráningu á árinu 1993, fengið leiðréttingu vegna þess útskatts sem þeim bar að skila á grundvelli skráningarinnar að frádregnum innskatti af öðrum kaupum en varða fjárfestingu í gistirými. Sama tillaga hefur þegar verið lögð fyrir Alþingi í 6. gr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1995 en eðlilegt þykir að ákvæði hér að lútandi sé í virðisaukaskattslögum.
    Lagt er til að endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna fjárfestingar á árinu 1993 verði að hámarki 10 milljónir króna. Samkvæmt lauslegri athugun gætu endurgreiðslur orðið nálægt þeirri fjárhæð.
    Þá er að auki lögð til ein efnisleg breyting á gildandi ákvæðum að því er varðar skilyrði til endurgreiðslu. Hún er sú að vikið er frá ákvæði um að leiðrétting fari ekki umfram 6% af skattskyldri veltu á þeim árum sem endurgreiðslurnar eru inntar af hendi. Í stað þess er tekið upp skilyrði um að aðili hafi með höndum skattskylda útleigu á gistirými fram að þeim tíma er til endurgreiðslu kemur.
    Þegar reglan um skattskylda veltu var sett fram við upphaflega samningu bráðabirgðaákvæðisins hafði hún tvíþættu hlutverki að gegna. Annars vegar að takmarka endurgreiðslur til aðila sem fjárfestu á sínum tíma í gistirými en eru í litlum sem engum gistihúsarekstri þegar til endurgreiðslu kemur. Hins vegar að takmarka fjárútlát ríkissjóðs vegna bráðabirgðaákvæðisins. Þegar bráðabirgðaákvæðið var lagt fyrir í formi breytingartillögu hafði hins vegar bæst við ákvæði um hámarksútgreiðslu úr ríkissjóði og hlaut það samþykki Alþingis þannig fram sett.
    Við nánari skoðun og útfærslur lagaákvæðisins í reglugerð hefur komið í ljós að umrætt veltuþak er óþarflega strangt ákvæði sem við ýtrustu túlkun leiðir til ósanngjarnrar niðurstöðu. Smáir aðilar og nýir aðilar á markaðnum kæmu verr út úr slíku ákvæði en stórir aðilar með mikla veltu sem væru einungis að bæta við sína fjárfestingu. Í reglugerð nr. 300/1994, sem sett var á grundvelli þessa ákvæðis, var umrætt ákvæði um veltuþak túlkað á þann hátt að það tæki til heildarveltu þeirra aðila sem sæktu um endurgreiðslu. Útfærslu bráðabirgðaákvæðisins í reglugerð voru hins vegar frekari skorður settar þar sem endurgreiðslur á árunum 1994–1996 skyldu miðast við skattskylda veltu á sömu árum. Eðli máls samkvæmt liggur skattskyld velta viðkomandi árs ekki fyrir fyrr en í byrjun næsta árs. Því var farin sú leið að nefna útgreiðslur á árunum 1994–1996 bráðabirgðagreiðslur sem endurskoða þyrfti eftir 5. febrúar 1997 þegar skattskyld velta áranna 1994–1996 liggur endanlega fyrir. Þetta þýðir að endurgreiðslur verða ekki endanlega ákvarðaðar fyrr en á árinu 1997. Verði heildarvelta viðkomandi aðila á árunum 1994–1996 lægri en 1.250 milljónir króna (75 m. kr./0,06) skerðast endurgreiðslur til einstakra aðila hlutfallslega í samræmi við það.
    Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að ákvæðinu um takmörkun endurgreiðslu við 6% af skattskyldri veltu verði breytt og í stað þess sett skilyrði um að aðili verði að hafa með höndum skattskylda útleigu á gistirými allt fram að þeim tíma sem endurgreiðsla á sér stað. Verði þessi breyting ekki gerð gæti þurft að endurútreikna til lækkunar allar fjárhæðir sem greiddar verða út á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins. Dragist velta í greininni saman á næstu árum gæti þurft að krefja alla aðila sem fengið hafa greitt úr ríkissjóði samkvæmt reglugerðinni um endurgreiðslu á hluta af móttekinni fjárhæð. Þessi leiðrétting ætti sér ekki stað fyrr en 5. apríl árið 1997 þegar skattskyld velta áranna 1994–1996 liggur fyrir. Þess ber að geta að þegar hefur farið fram fyrsta endurgreiðsla samkvæmt ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.