Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 434 . mál.


723. Skýrsla



allsherjarnefndar um reglur um veitingu ríkisborgararéttar.

    Allsherjarnefnd hefur sett nýjar reglur um veitingu ríkisborgararéttar. Áður var stuðst við reglur allsherjarnefndar efri deildar sem settar voru á 112. löggjafarþingi og birtar í þingskjali 910. Til þess að gera reglurnar aðgengilegar fyrir umsækjendur um íslenskt ríkisfang eru þær nú settar hér fram ásamt skýringum.


Reglur um veitingu ríkisborgararéttar.


Búsetuskilyrði.


1. gr.


    Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, hafi átt hér lögheimili í sjö ár, Norðurlandabúar í fjögur ár.

2. gr.


    Karl eða kona, sem gengur í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir að hafa átt hér lögheimili í þrjú ár frá giftingu enda hafi makinn verið íslenskur ríkisborgari ekki skemur en fimm ár.

3. gr.


    Karl eða kona, sem býr í óvígðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, fái ríkisborgararétt ef sambúðin hefur varað í fimm ár og þau átt sameiginlegt lögheimili hérlendis þann tíma enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.

4. gr.


    Erlendur ríkisborgari, sem á íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri, hafi átt hér lögheimili í tvö ár.

5. gr.


    Íslendingur, sem gerst hefur erlendur ríkisborgari, fái ríkisborgararétt á ný eftir að hafa átt hér lögheimili í eitt ár.

6. gr.

    Íslendingur, sem misst hefur ríkisfang sitt við hjúskap, en hjónabandinu er slitið og hann hefur eignast heimili hér á ný, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér.

7. gr.


    Flóttamenn, eins og þeir eru skilgreindir í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerð ur var 28. júlí 1951, fái ríkisborgararétt eftir að hafa átt hér lögheimili í fimm ár.
    Heimilt er að láta sama gilda um fólk sem hefur réttarstöðu sem jafna má til flóttamanna, enda geti það ekki snúið til heimaríkis síns vegna ófriðarástands, náttúruhamfara eða sambæri legra aðstæðna.

8. gr.


    Reglur 1.–7. gr. miðast við lögheimili og samfellda dvöl hérlendis. Heimilt er að víkja frá því skilyrði rofni dvöl umsækjanda á Íslandi vegna náms erlendis, tímabundinnar at vinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákominna ættingja.
    Sá tími, sem umsækjandi hefur átt lögheimili og dvalið á Íslandi, verður að vera a.m.k. jafnlangur þeim tíma sem umsækjandi verður samkvæmt áðurgreindum reglum að upp fylla. Dvöl erlendis má að jafnaði ekki vera lengri en eitt ár, en sé um námsdvöl að ræða er heimilt miða við þrjú ár.

Önnur skilyrði.


9. gr.


    Umsækjandi sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur þar sem hann hefur dvalist.

10. gr.


    Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis, m.a. með hliðsjón af þeim gögnum sem koma fram í umsókn.

11. gr.


    Umsækjandi hafi óflekkað mannorð.
    Hafi umsækjandi að öðru leyti sætt refsingu eða öðrum viðurlögum kann það að hindra veitingu ríkisfangs í allt að tíu ár frá því að verknaður var framinn. Sé um að ræða ítrek uð eða alvarleg brot á almennum hegningarlögum, framin af ásetningi, kann það að fresta veitingu ríkisfangs í lengri tíma. Sektir fyrir minni háttar brot hindra þó ekki veitingu rík isfangs.

Greinargerð.


    Í 68. gr. stjórnarskrárinnar segir að enginn útlendingur geti fengið ríkisborgararétt nema með lögum og í 6. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, segir:
    „Ríkisborgararétt má veita með lögum samkvæmt stjórnarskránni.
    Áður en umsóknir um ríkisborgararétt eru lagðar fyrir Alþingi, skal dómsmálaráðu neytið fá um þær umsagnir lögreglustjóra og sveitarstjórna á dvalarstöðum umsækj enda.     Eigi sá börn, sem ríkisborgararétt fær með lögum, fer um þau eftir ákvæðum 5. greinar, nema lögin láti öðruvísi um mælt.“

    Samkvæmt laganna hljóðan er Alþingi ekki bundið við nein skilyrði fyrir veitingu rík isborgararéttar. Greinin virðist þó gera ráð fyrir því að íslenskt ríkisfang sé ekki veitt nema umsókn erlends ríkisborgara þar um liggi fyrir. Dómsmálaráðuneytinu er falið að leggja umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt fyrir Alþingi, en því ber fyrst að afla lög bundinna umsagna lögreglustjóra og sveitarstjórnar. Alþingi hefur því frjálsar hendur um hverjum er veittur og hverjum er ekki veittur ríkisborgararéttur ef umsókn, sem farið hef ur í gegnum dómsmálaráðuneytið, liggur fyrir. Allsherjarnefndir beggja deilda settu sér þegar árið 1955 starfsreglur um veitingu ríkisborgararéttar til að gæta jafnræðis meðal umsækjenda og tryggja samræmi í afgreiðslum nefndanna frá ári til árs. Hafa þær regl ur þrisvar tekið breytingum, 1978, 1990 og nú síðast í febrúar 1995.
    Í reglum þessum er leitast við að taka á þeim vandamálum sem upp hafa komið eða risið hafa við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt á síðustu árum. Helstu breyting arnar frá reglum, sem allsherjarnefnd setti árið 1990, sbr. þskj. 910 frá 112. löggjafar þingi, eru að mörk um lengd búsetu eru í ákveðnum tilvikum lækkuð, ákvæði um flótta menn og rofna búsetu er bætt við, auk ákvæðis um áhrif refsinga og viðurlaga. Hins veg ar ber að leggja áherslu á það að reglur þessar eru viðmiðunarreglur sem nefndin notar við afgreiðslu umsókna um íslenskt ríkisfang. Enginn á í raun kröfu á því að öðlast ís lenskan ríkisborgararétt, það veltur á ákvörðun Alþingis hverju sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar.


Um 1. gr.


    Hér er sett sú almenna regla að útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, hafi búið hér á landi í sjö ár áður en þeim verði veittur ríkisborgararéttur, en norrænir menn í fjögur ár. Áður voru búsetuskilyrðin tíu ár og fimm ár. Annars staðar á Norðurlöndum er ým ist miðað við fimm eða sjö ára búsetu, ellegar skemmri tíma sé um Norðurlandabúa að ræða.

Um 2. gr.


    Ákvæðið, sem var 3. tölul. eldri reglna, er efnislega óbreytt. Ár hvert hlýtur stór hluti nýrra ríkisborgara réttinn á grundvelli þessarar reglu.

Um 3. gr.


    Sambúðarreglan, sem tekin var upp 1990, er óbreytt.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um að búsetutími erlendra ríkisborgara, sem eiga íslenskan ríkisborg ara að foreldri, verði tvö ár og skiptir þá engu af hvaða uppruna hitt foreldrið er. Áður gilti sú regla að ef hitt foreldrið var Norðurlandabúi var búsetutíminn þrjú ár, annars fimm ár.

Um 5. gr.


    Ákvæðið, sem áður var 6. tölul., er að efni til óbreytt.

Um 6. gr.


    Reglan var áður 7. tölul. en hér hefur sú breyting orðið að síðari málsliður 7. tölul. fellur brott, en þar var reglan sú að börn umsækjanda, sem náð höfðu 16 ára aldri og hon um fylgdu, fengu ríkisborgararétt um leið og umsækjandi. Ákvæðið er óþarft í ljósi 6. gr., sbr. 5. gr., laga um ríkisborgararétt, nr. 100/1952, og gengur raunar skemmra. Megin reglan, sem kemur fram í lögunum, er sú að barn sem náð hefur 18 ára aldri fær ríkis borgararétt um leið og það foreldri sem hefur forsjá þess.
    Auk þess er fellt brott ákvæði þess efnis að umsókn fylgi yfirlýsing umsækjanda um að hann ætli að dveljast áfram í landinu.

Um 7. gr.


    Hér er reglan sú að flóttamenn fái ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetu. Mun hún hafa gilt óskráð um nokkurra ára skeið. Enn fremur er tekið upp það nýmæli að heimilt er að láta sömu reglu gilda um fólk sem hefur réttarstöðu sem jafna má til flóttamanna ef upp fyllt eru skilyrði þau sem tilgreind eru í 2. mgr.

Um 8. gr.


    Nokkuð hefur borið á því að umsækjendur um ríkisborgararétt fara utan í nám eða fylgja íslenskum maka til náms. Eins kunna aðrar gildar ástæður að vera fyrir því að bú seta rofnar. Ákvæði hefur skort um hvernig fara eigi með umsóknir í tilvikum sem þess um.
    Hér er mælt fyrir um að heimilt sé að líta fram hjá að búseta rofni að ákveðnum skil yrðum fullnægðum. Í fyrsta lagi sé um veigamiklar ástæður að ræða, dvöl erlendis sé vegna náms umsækjanda eða maka hans, umsækjandi stundi tímabundið atvinnu erlend is eða óviðráðanlegar orsakir séu fyrir hendi, svo sem veikindi nákominna ættingja.
    Í ákvæðinu er almenn regla um áhrif þess að búseta rofnar. Gert er ráð fyrir að um sækjandi, sem fara þarf utan af tilteknum ástæðum, geti lagt saman þann tíma sem hann býr á Íslandi fyrir og eftir dvöl erlendis. Samanlagður búsetutími á Íslandi verði alltaf a.m.k. jafnlangur þeim tíma sem umsækjanda er samkvæmt reglunum ætlað að uppfylla.
    Dvöl erlendis má þó ekki vera ótakmörkuð og lagt er til að hún standi að jafnaði ekki lengur en eitt ár. Ef um námsdvöl er að ræða verði miðað við þrjú ár. Ef upp koma vafatilvik, búseta á Íslandi hefur t.d. rofnað í nokkur skipti nokkra mánuði í senn, er bent á að orðalag síðari málsgreinar 8. gr. gefur ákveðið svigrúm til að meta slík tilvik.

Um 9. gr.


    Þetta ákvæði er síðari hluti 1. tölul. eldri reglna.

Um 10. gr.


    Hér er við það miðað að umsækjandi geti framfleytt sér samkvæmt þeim gögnum sem fram koma í umsókn. Er þá aðallega átt við umsagnir sveitarstjórna um hvort umsækj andi hafi þegið framfærslu af sveitarfélaginu en þær upplýsingar hafa fylgt umsóknum um árabil.

Um 11. gr.


    Hér er gerð sú krafa að umsækjandi hafi óflekkað mannorð. Var það skilyrði einnig í reglunum sem áður giltu. Skilgreining óflekkaðs mannorðs í 3. gr. kosningalaga, nr. 80/1987, er svohljóðandi: „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti  . . .  Dómur  . . .  hefur ekki flekkun mann orðs í för með sér, nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé 4 mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.“
    Í síðari málsgrein er kveðið á um áhrif refsinga og annarra viðurlaga að öðru leyti á veitingu ríkisborgararéttar. Hér er mælt fyrir um að refsing eða önnur viðurlög kunni að koma í veg fyrir veitingu ríkisfangs í allt að tíu ár. Séu brot ítrekuð eða alvarleg á al mennum hegningarlögum, framin af ásetningi, kann það að vera hindrun í lengri tíma. Reglan getur við fyrstu sýn virst ströng en hafa ber í huga að orðalagið er „í allt að tíu ár“. Enn fremur er kveðið á um að sektir fyrir minni háttar brot tefji ekki veitingu rík isfangs. Er þá haft í huga t.d. minni háttar umferðarlagabrot.
    Hins vegar ber að árétta að þessi regla, sem og aðrar reglur hér að framan, er aðeins viðmiðunarregla og ekki bindandi fyrir nefndina.

Aðrar athugasemdir.


    Guðmundur Árni Stefánsson óskar að fram komi að samþykki hans á þessum regl um er miðuð við þá túlkun 2. og 3. gr. að komi til hjónabands, sbr. 2. gr., í kjölfar sam búðar, sbr. 3. gr., sé heimilt að leggja saman árafjölda í tilgreindum hlutföllum 2. og 3. gr.
    Nefndin leggur áherslu á að reglur þessar eru verklagsreglur og ekki er verið að skerða forræði allsherjarnefnda á meðferð umsókna um íslenskan ríkisborgararétt um ókomna tíð.
    Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Ólafur Þ. Þórðarson.

Alþingi, 21. febr. 1995.



    Sólveig Pétursdóttir,     Anna Ólafsdóttir Björnsson.     Björn Bjarnason.
    form., frsm.          

    Guðmundur Árni Stefánsson.     Ey. Kon. Jónsson.     Jón Helgason.

    Ingi Björn Albertsson.     Kristinn H. Gunnarsson.