Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 6 . mál.


59. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Í þessu frumvarpi er lagt til að afnuminn verði einkaréttur ríkisins á innflutningi og heild sölu áfengis. Frumvarpið er flutt í kjölfar álits (reasoned opinion) eftirlitsnefndar EFTA frá 22. febrúar 1995 í þá veru að núverandi fyrirkomulag á innflutningi og heildsölu hjá ÁTVR samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Sú niðurstaða er í ósamræmi við yfirlýsingar og álit fyrrverandi ríkisstjórnar um að ekki þurfi að breyta áfengislöggjöfinni þó að EES-samn ingurinn yrði samþykktur. Sú afstaða fjármálaráðherra er formlega óbreytt og því er þetta frumvarp flutt í þeim tilgangi fyrst og fremst að taka upp frjálsari viðskiptahætti með dreifingu á áfengi og einkavæða hluta af starfsemi ríkisfyrirtækisins ÁTVR þó að vissulega muni það í leiðinni taka á niðurstöðum eftirlitsstofnunar EFTA varðandi heildsölu og innflutning áfeng is.
    Fjölmargir aðilar hafa látið í ljós álit sitt á frumvarpinu á fundum í allsherjarnefnd, heil brigðis- og trygginganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, svo og með skriflegum umsögn um, og er alveg ljóst að um þessar breytingar eru verulega skiptar skoðanir svo sem vænta má í jafnviðkvæmu máli og áfengislöggjöfin er. Flest almannasamtök gegn áfengisneyslu vara við því að aukin samkeppni og minna eftirlit með áfengisverslun muni leiða til aukinnar neyslu og vaxandi útgjalda í heilbrigðiskerfinu. Það vekur því athygli að SÁÁ gerir ekki athugasemd ir við frumvarpið. Þingflokkur Kvennalistans lagði mikla áherslu á að frumvarpið yrði sent Kvenfélagasambandi Íslands til umsagnar þar sem áfengisvarnir hafa sögulega verið mál sem konur hafa mikið látið til sín taka. Það vekur því sérstaka athygli að stjórn Kvenfélagasam bands Íslands gerir engar athugasemdir við frumvarpið. Áfengiseftirlitsmenn og fleiri bentu á að mjög erfitt yrði að hafa eftirlit með áfengi í vínveitingahúsum þar sem fella á niður allar merkingar á áfengi til veitingahúsa, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Þá bendir áfengisvarnaráð á að í Svíþjóð er reynt að hefta aðgang að þeirri atvinnustarfsemi að flytja inn áfengi með því að hafa umsóknarkostnað upp á 30 þúsund sænskar krónur sem er óafturkræft fé jafnvel þótt um sókn sé synjað. Hér virðist ekki gert ráð fyrir að leyfin kosti neitt, en ríkið gerir þvert á móti ráð fyrir að verða af 50 millj. kr. tekjum sem væntanlega fara til einkaaðila. Þessi tala virðist varlega áætluð, ekki síst ef eftirlit með rekstri vínveitingahúsa verður erfiðara og heilbrigðis útgjöld aukast.
    Þingflokkur Kvennalistans er ánægður með 3. gr. frumvarpsins sem er nokkuð á skjön við annað efni þess. 2. minni hluti hugleiddi að flytja breytingartillögu við 6. gr. frumvarpsins eða 17. gr. áfengislaganna þess efnis að skylda væri að dagstimpla allt áfengi sem áfengisgjald væri greitt af við tollafgreiðslu, en ekki var nægur tími til stefnu til að kanna allar hliðar þess máls.
    Það er niðurstaða 2. minni hlutans að sú bylting á innflutningi og heildsölu áfengis sem hér er lögð til sé alls ekki nauðsynleg til að fullnægja kröfum eftirlitsstofnunar EFTA. Þó að ein hver breyting á núverandi áfengislöggjöf kunni að reynast nauðsynleg, þrátt fyrir álit fyrrver andi ríkisstjórnar, er alveg ljóst að hér er farið mun ógætilegar í sakirnar en æskilegt er miðað við viðkvæmni þessa málaflokks. Sú aðferð sem hér er lögð til mun ekki auka líkurnar á því að markmiði umræddra áfengislaga verði náð en þar segir í 1. gr.: „Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.“ Þá vill 2. minni hluti vekja athygli á því að í áðurnefndu áliti eftirlitsstofnunar EFTA er skýrt tek ið fram að þó að þetta mat fjalli eingöngu um heildsölu og innflutning á áfengi sé ekki þar með sagt að skipan smásöluverslunarinnar hér á landi sé í lagi. Það mál verði athugað betur síðar (The Surveillance Authority continues the assessment of the Icelandic retail monopoly and will consider its compatibility in due time). Af þessu dregur 2. minni hluti þá ályktun að skynsamlegast væri að gera mun smávægilegri breytingar á fyrirkomulagi heildverslunarinnar og að fá á hreint strax hvort nauðsynlegt mun reynast vegna EES-samningsins að breyta hér fyrirkomulagi á smásölu áfengis. Í framhaldi af því verði gerð heildarendurskoðun á áfengis löggjöfinni. Þá væri hægt að vinna málið í heild á yfirvegaðan hátt í stað þess að viðhafa þá flýtimeðferð sem því miður hefur verið á þessu máli á yfirstandandi vorþingi. Annar minni hluti leggur því til að þetta mál verði endurskoðað í heild sinni og frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 8. júní 1995.



Guðný Guðbjörnsdóttir.