Reglugerð um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 13:39:24 (2525)

1996-01-30 13:39:24# 120. lþ. 79.92 fundur 168#B reglugerð um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[13:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna framkvæmda í kjölfar fjárlaga og spyr hæstv. forseta hvort orð ráðherra í þingsölum eigi ekki að gilda. Ástæða þessa er sú að út er komin reglugerð frá heilbrrn. um greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu og þar kemur fram að 67 ára og eldri skulu greiða fullt gjald fyrir heilbrigðisþjónustu.

Í umræðunum fyrir jól sagði hæstv. heilbrrh. ítrekað, og ég er með útskrift af ræðum ráðherrans, að einungis þeir sem væru með atvinnutekjur yrðu krafðir um fullt gjald fyrir þjónustu, fyrir læknishjálp og heilsugæslu. Í reglugerðinni, sem tekur gildi á næstu dögum, kemur ekkert fram um það að þeir sem ekki eru með atvinnutekjur og eru á þessu aldursskeiði séu undanþegnir fullri greiðslu.

Ég geri einnig athugasemd við fækkun á lægri bílakaupastyrkjum til hreyfihamlaðra. Í fjárlagaumræðunni kom aldrei fram að til stæði að fækka nánast um helming bílakaupastyrkjum hreyfihamlaðra. Þarf ekki að taka þetta til umræðu í þinginu?

Ég hef gert opinberlega athugasemdir við reglugerðina um heilbrigðisþjónustu og fékk þau svör frá ráðherranum að tilmæli kæmu frá ráðuneytinu um að tekið yrði tillit til þeirra sem hefðu ekki atvinnutekjur. Ég spyr hæstv. forseta hvort hér sé um nýja stjórnarhætti að ræða. Vaninn er að túlkun ráðherra á lögum komi fram í reglugerðum en ekki með tilmælum eða tilskipunum.