Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 14:51:21 (2534)

1996-01-30 14:51:21# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[14:51]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nauðsynlegt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stærstum hluta á sjávarútvegi að ganga vel um auðlindir sjávar. Á því hefur verið talinn verulegur misbrestur á undanförnum árum. Þess vegna er lagasetning um umgengni auðlinda sjávar löngu tímabær þó auðvitað megi deila um hve víðtæk þau lög eigi að vera og á hvað eigi að leggja mesta áherslu.

Fljótt á litið við skoðun frv. virðist dálítið skrýtið að aðeins fjórar greinar frv. fjalla um veiðar en átta greinar um vigtun sjávarafla og þrettán greinar um framkvæmd og viðurlög. Ég tel að meginmarkmið laga um umgengni um auðlindir sjávar hljóti að vera að koma í veg fyrir að fiski sé hent í sjóinn. Almennt er viðurkennt að það hafi verið gert í miklum mæli undanfarin ár og er náttúrlega fylgifiskur þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem við búum við. Ég verð að taka undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um þetta efni og um meðferð meðafla og undirmálsafla. Ég tek undir allt sem hann sagði um það. Þetta tel ég að sjútvn. verði að skoða vel því að þetta er auðvitað mál málanna varðandi umgengni um auðlindir sjávar.

Annað markmið þessara laga finnst mér að ætti að vera könnun á einstökum veiðarfærum og áhrifum þeirra á lífríki sjávar en um það er ekkert í þessu frv. Ég tel t.d. að það þurfi að kanna vel áhrif dragnótaveiða og togveiða á hrygningarslóðum. Mér finnst vanta í frv. grein um þetta atriði og vona að sjútvn. hugi að því við meðferð málsins.

3. gr. frv., sem fjallar um bann við netaveiðum smábáta á tímabilinu 1. nóv. til febrúarloka, þarf að skoða vel í sjútvn. Í frv. er gert ráð fyrir að banna þessar veiðar bátum undir 20 brúttótonnum. Ég hef reyndar haft efasemdir lengi um netaveiðar smæstu báta yfir hörðustu vetrarmánuðina bæði vegna slysahættu og eins vegna þess að þessir bátar komist ekki til veiða vegna veðurs og fiskur drepist í netum af þeim ástæðum. En ég tek undir það sem hv. þm. Árni R. Árnason sagði áðan að þessar veiðar hafa breyst nokkuð á undanförnum vertíðum og nú taka menn nær undantekningarlaust netin í land þegar lítur út fyrir illviðri og eins hafa allra smæstu bátarnir hætt þessum veiðum. Ég tel að mörkin sem hér er miðað við séu of há, þ.e. 20 brúttórúmlestir. Ég tel athugunarefni hvort ekki eigi frekar að miða við opna báta og leyfa þilfarsbátum að stunda þessar veiðar. Þetta bið ég sjútvn. að skoða vel og ræða við þá sem best þekkja til, m.a. fulltrúa Landssambands smábátaeigenda. Ég tel reyndar miður að þeir skuli ekki eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvn. skipaði til að fjalla um auðlindir sjávar og vitnað er til í athugasemdum með frv. Í þessari nefnd sátu fulltrúar frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, sjútvrn. og Sjómannasambandi Íslands. Ég tel að eðlilegt hefði verið að smábátaeigendur ættu þarna fulltrúa. Það eru á annað þúsund smábátar með leyfi til veiða og eðlilegt að sjónarmið þeirra, sem stunda þær veiðar, kæmu fram í þessari nefnd. Þetta voru þau atriði sem ég vildi nefna við 1. umr. Ég ítreka og legg áherslu á að sjútvn. geri breytingar á 3. gr. og eins að inn í frv. komi könnun á áhrifum einstakra veiðarfæra.

Að lokum fagna ég því að það skuli vera komið fram frv. um umgengni um auðlindir sjávar. Þetta er tvímælalaust eitt af stærstu og þýðingarmestu málum sem tekin verða fyrir á þinginu. Það er mjög aðkallandi að taka ákveðið á þessum málum og þó þetta frv. sé að mínu áliti að sumu leyti gallað á ég von á að það taki þeim breytingum í meðförum þingsins að niðurstaðan verði lög sem leiði til stórbættrar umgengni um auðlindir sjávar.