Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 14:56:09 (2535)

1996-01-30 14:56:09# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[14:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og aðrir þeir hv. þm. sem hér hafa talað vil ég segja að sú stefna sem kemur fram í þessu frv. vísar til framtíðar og það er ljóst að hæstv. sjútvrh. á réttum brautum. Það er þó ekki svo að það sé hægt að fella sig alls kostar við þetta frv. eins og það kemur af skepnunni.

Herra forseti. Ég byrja á því að lýsa undrun minni yfir því að hæstv. sjútvrh. ræðir hér um hið góða samstarf sem hafi tekist við samningu þessa frv. milli ráðuneytisins og þeirra sem koma að störfum innan sjávarútvegsins. Nú er það svo, eins og ég hygg að hver einasti hv. þm. sem hefur rætt undir þessari umræðu á undan mér hefur drepið á, að þeir sjómenn sem þetta varðar ekki hvað síst og t.d. 3. gr. snertir mjög illyrmislega, voru útilokaðir frá umræðunni sem fór fram í aðdraganda þess að frv. var samið. Trillukarlar og smábátaeigendur áttu ekki kost á því að koma að gerð þessa frv. Þegar hæstv. sjútvrh. lýsir yfir ánægju sinni með hið góða samstarf sem hafi tekist við sjómenn þá er það alveg ljóst að það samstarf hefur ekki tekist við smábátaeigendur. Þeir eru þrátt fyrir allt sá hópur sem dregur að landi um það bil 30% þorskaflans eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði hér áðan. Þeir eru hátt á annað þúsund og ætli þeir séu ekki fjórðungur eða fimmtungur allra sjómanna á Íslandi í dag. Það hefði verið eðlilegt, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. hefði staðið betur að undirbúningi frv., að hann hefði fengið þá til ráðslags við sig og þá hefði hann e.t.v. líka orðið aðnjótandi þeirrar reynslu sem þeir hafa. Hann hefði þá e.t.v. getað sniðið af þá agnúa sem eru verstir á 3. gr.

Herra forseti. Þrátt fyrir það hvernig hæstv. sjútvrh. stóð að undirbúningi frv. tel ég að þetta sé að mörgu leyti gott frv. og ég treysti hv. sjútvn. til að fara um það höndum og bæta það enn betur.

Nú er það svo þegar við ræðum að nauðsynlegt sé að bæta umgengni við auðlindir sjávarins þá erum við fyrst og fremst að tala um útkastið, brottkastið. Það er aflinn sem er dreginn úr sjó en ónýttur með því að honum er fleygt í hafið aftur. Þetta er fyrst og fremst undirmálsfiskur og svokallaður meðafli. Það er alveg nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því undanbragðalaust, líka þeir sem styðja aflamarkskerfið, að undirrótin að þessu öllu saman er aflamarkskerfið. Það er aflamarkskerfið sem gerir það að verkum að undirmálsfiski hefur verið fleygt og að meðafla er fleygt.

Nú sé ég að hæstv. sjútvrh. gerir lítinn punkt á sitt gula blað vegna þess að hann ætlar að gera athugasemd við þetta hér á eftir, svo vel þekki ég hæstv. sjútvrh. Þess vegna vil ég til að fyrirbyggja að hann tefji umræðuna með því að fara hér í tilgangslaust stagl um þetta atriði vísa til þess sem fram kemur í niðurstöðu þeirrar nefndar sem hann hefur svo mjög dásamað. Á bls. 17 í því þskj. sem hér liggur fyrir er kafli úr skýrslunni, sem kom frá samstarfsnefnd um bætta umgengni við auðlindir sjávar, sem heitir: II. Lýsing vandans. Þar er fyrsti liðurinn: ,,Aðstæður sem leitt geta til útkasts fisks eða löndunar fram hjá vigt.`` Þeir ágætu menn sem gerðu skýrsluna segja að þeir telji fyrst upp það sem er mikilvægast. Þann þátt sem mestu veldur. Það er alveg ljóst að þeir eru ekki í nokkrum vafa um að það er aflamarkskerfið sem veldur því að gríðarlegu magni af fiski hefur verið hent. Ég ætla að lesa þetta fyrir hæstv. sjútvrh., með góðu leyfi virðulegs forseta:

[15:00]

,,1. Hvati til að henda fiski eða landa fram hjá vigt myndast helst þegar kvóti er mjög takmarkaður samanborið við veiðigetu skips. Viðleitni til að gera sem mest verðmæti úr heimiluðum afla kann þá að hafa þau áhrif að besti fiskurinn sé nýttur og lakari fiski hent. Ef lakari fiskinum er hent gerist það tæpast fyrr en viðkomandi skip er talið öruggt um að ná öllum sínum kvóta í viðkomandi tegund. Þess vegna er brottkast líklegast hjá kvótaminni skipum og þá einkum á síðari hluta fiskveiðiárs. Vandamálið getur svo versnað við blandaðar veiðar (t.d. almennar botnfiskveiðar) ef heimildir eru skertar til veiða á einni eða fáum tegundum (t.d. þorski) meðan nægur kvóti er til veiða á öðrum tegundum (t.d. ýsu og ufsa). Við jafnlítinn þorskafla og nú er leyfður má ætla að útkast þorsks eða framhjálöndun hefjist því fyrr á fiskveiðiárinu sem þorskkvóti skips er minni miðað við annar botnfiskskvóta og hefjist jafnvel í einhverjum mæli strax við upphaf fiskveiðiársins hjá kvótaminnstu skipunum. Er þetta, að mati nefndarmanna, stærsti vandinn sem nú er við að glíma.``

Ég held að við sem höfum verið hallir undir aflamarkskerfið, og sérstaklega þeir sem hafa trúað á það í blindni eins og hæstv. sjútvrh., verði að geta horfst í augu við þetta feimnislaust. Ég tók eftir því í máli hæstv. sjútvrh. að hann tengdi aldrei saman aflamarkskerfið og slæma umgengni um auðlindir sjávarins. En það er svo að þær sögur, sem við höfum heyrt frá sjómönnum og það sem hefur komið fram í ýmsum könnunum sem hafa verið gerðar á þessu máli, segja frá því að umgengnin um auðlindina er langt í frá nægilega góð og það er vegna aflamarkskerfisins. Við eigum bara að hafa kjark til þess að ræða það. Hér hefur það loksins gerst að hæstv. sjútvrh. kemur með frv. sem gengur í rétta átt en hann hræðist mjög að viðurkenna að sá leki, sem hann er núna að skjóta byttu undir, er einmitt vegna aflamarkskerfisins.

Herra forseti. Það er fyrst og fremst tvennt sem við þurfum að velta fyrir okkur. Það er hvernig má draga úr því að undirmálsfiski sé fleygt og hvernig má draga úr því að meðafla sé fleygt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem er formaður sjútvn. sem um þetta mun véla, benti á það af þeirri skarpskyggnu rökvísi sem honum var gefin í vöggugjöf að það er ekkert í þessu frv. sem tekur á meðaflanum. Það er nákvæmlega ekkert sem gerir það að verkum að menn munu hallast til þess að hætta að fleygja meðafla nema auðvitað það sem stendur í 1. málsl. 2. gr.: ,,Skylt er að hirða og koma að landi með allan afla.`` Hvað gera sjómenn sem eru í bullandi ýsuveiði og fá talsvert af þorski og þorskkvótinn er búinn en nóg er af ýsukvóta? Þeir fleygja þorskinum. Það er þessi dauði golþorskur sem stundum hefur komið upp í trollum nærverandi skipa. Það er þetta sem spæjarar hæstv. sjútvrh. festu á filmu og það er þetta sem ég hygg að a.m.k. nokkrum hv. þm. í sjútvn. var sýnt á myndbandi fyrir tveimur eða þremur árum þegar leyst var frá hali með sennilega 10--15 tonn af ufsa.

Herra forseti. Ekkert í frv. dregur úr því að menn freistist til þess að koma með meðafla að landi og það er stór galli á frv. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reifaði lauslega hugmyndir sem mér fannst eins og ég skildi þær af því takmarkaða viti sem ég hef fengið í vöggugjöf, ganga til réttrar áttar og menn eiga að kanna rækilega. En er það svo að frv. leysi vandann sem tengist undirmálsfiski? Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég þekki þetta mál sennilega ekki jafn vel og margir þingmenn sem hér eru staddir og tími mínn hefur undanfarið farið meira í heilbrigðismál en sjávarútvegsmálin en ég velti því fyrir mér hvernig þetta fer með undirmálsfiskinn. Getur verið að það felist í þessu frv. samfara þeim reglugerðum, sem þegar er búið að setja, hvati til þess að menn komi með undirmálsfisk, hvati sem er of mikill? Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það þarf að vera hæfilegur hvati þannig að menn fái a.m.k. fyrir kostnaðinum við að flytja undirmálsfiskinn að landi en því sem umfram er verði varið til þess að efla öryggismál sjómanna, til þess að efla rannsóknir.

Nú er það svo að undirmálsfiskur sem kemur að landi fer á markað er seldur á markaði og útgerðin og sjómenn fá það til hlutar með nákvæmlega sama hætti og annan hluta aflans. Helmingur aflans er talinn til kvóta og ég velti því fyrir mér: Getur verið að það sé fólgin eins konar hvatning í þessu til þess að menn færi sig alla vega ekki þegar þeir eru komnir í smáfisk? Þetta er atriði sem ég tel að hv. sjútvn. þurfi að kanna talsvert en ég er sáttur við það að hæstv. sjútvrh. tekur á þessu máli.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um ýmislegt í 2. gr. Það kemur fram að heimilt sé að varpa fyrir borð fisktegundum sem eru ekki kvótabundnar enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi. Er hægt að segja að einhver fiskur hafi ekki verðgildi? Hefur ekki allur fiskur eitthvert verðgildi? Er það ekki svo með þeirri ágætu nýjung sem hrint var í framkvæmd fyrir nokkrum árum, aflakaupabankanum, hefur skapast markaður fyrir velflestar tegundir fiska sem teljast ekki til hefðbundinna nytjafiska? Ég leyfi mér að efast um að það sé hægt að taka svona til orða og leyfi mér þar með að efast um það leyfi sem hæstv. sjútvrh. er með frv. að veita mönnum til þess að fleygja þessu.

Ég geri líka athugasemd við orðalag næsta málsliðar þar sem greint er frá því að heimilt verði að varpa fyrir borð innyflum, hausum, afskurði og öðru sem fellur til við verkun eða vinnslu um borð. Síðan segir: ,,enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti.`` Hvernig á að meta þetta? Er það rétt leið hjá okkur að leggja til að það verði sagt bókstaflega í lögum að þetta sé heimilt? Felst ekki betri framtíðarsýn í því að menn mundu segja að þetta væri óheimilt? Hins vegar væri ráðherra með reglugerð heimilt að leyfa að fleygt yrði tilteknum úrgangi og af tilteknum flokkum skipa. Hvernig ætla menn að meta það hvort fiskúrgangur verði nýttur með arðbærum hætti eða ekki? Ég er t.d. þeirrar skoðunar að það sé afskaplega hæpið að leyfa mönnum að fleygja lifur af hvaða bát sem er, hvaða bátastærð sem er, svo fremi sem tæknilegir annmarkar séu ekki á því að viðkomandi skip eða áhöfn komi með þann hluta innyflanna í land. Hvað með hrogn? Að vísu kemur fram einhvers staðar í greinargerðinni að þegar verið er að ræða um ísfisktogara sé líklegt að það megi fleygja öllu nema hrogn og lifur. En hver á að meta þetta og hvað með sundmagann í þeim fiskum sem sundmaga hafa? Er það ekki orðin afurð sem menn eru farnir að hafa talsvert fjármagn upp úr? A.m.k. hjá þeim vinnslustöðum sem vinna aðallega fiskinn sem kemur af krókabátunum.

Herra forseti. Ég tek svo undir þá gagnrýni sem menn hafa komið með á 3. gr. Þar er lagt fyrir að bátum undir 20 brúttótonnum verði óheimilt að stunda netaveiðar í fjóra mánuði, þ.e. frá byrjun nóvember til febrúarloka. Ég er ekki kunnugur þessum veiðum og þó ég hafi migið í saltan sjó hef ég aldrei verið á svona litlum netabátum. Ég veit að það var vandamál áður fyrr að menn létu liggja margar nætur og voru að koma með margra nátta fisk, dauðblóðgaðan, vont hráefni og sem lítið fékkst fyrir. Þegar aflamarkskerfið kom síðan til sögunnar fleygðu menn einfaldlega þessum fiski.

Það hefur verið greint frá því hér, m.a. af hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni, að vinnsluhættir og sóknarmynstur hafi breyst hjá þessum bátum og menn skilji yfirleitt ekki eftir einhver drauganet, menn dragi ef það er spáð illviðri. Ég held að þetta sé rétt. Mér er sagt þetta líka af þeim sem ég hef rætt lauslega við um þetta. Ég velti því fyrir mér. Ef hæstv. sjútvrh. hefði haft rænu á því að hafa einmitt fulltrúa þessa útgerðarflokks með í nefndinni hefði í góðu bróðerni mátt ræða þetta og vega og meta rökin vegna þess að það sem mér flaug strax í hug þegar ég heyrði á þessari grein voru öryggissjónarmið. Það eru sjónarmið sem ég skil. Ég minnist þess þegar menn hafa verið að deila um sókn smábáta að þá höfum við sem höfum verið dálítið hallir undir þeirra málstað aldrei tekið undir kröfur, sem hafa komið fram hjá ýmsum þeirra, um að leyfa einmitt sókn yfir háveturinn af öryggissjónarmiðum. Þess vegna varð ég ekki glaður þegar ég las rökstuðninginn með 3. gr. Þar segir:

,,Lengi hefur verið rætt um að banna eigi minnstu bátunum netaveiðar að vetrarlagi, fyrst og fremst vegna þess að þeir nýti afla illa og hendi miklu vegna þess hve oft veður hamlar að vitjað sé um net, en einnig af öryggisástæðum.``

Herra forseti. Aðalástæðan fyrir því að hæstv. sjútvrh. leggur þetta til er ekki vegna þess að hann telji að öryggi sjómannanna, sem eru á þessum bátum, sé tryggara. Hann hefur heyrt sögusveim um að miklu sé hent og þeir nýti afla illa. Ég geri þá kröfu til ráðherra þegar þeir koma með mál að þeir undirbyggi frumvörp sín rækilega og ég spyr: Hvar í greinargerðinni með þessu frv. er að finna einhvers konar úttekt á því sem sýnir í fyrsta lagi að slys á þessum bátum, t.d. frá 10--20 tonnum, séu meiri en frá 20--60 tonnum? Hvar í greinargerðinni er að finna einhvers konar gögn eða yfirlit sem sýna mér, sem þarf að taka afstöðu til frv., svart á hvítu að aflinn sem þessir bátar eru að koma með sé verri en afli stærri báta? Hvað er það sem styður þá fullyrðingu sem kemur hérna fram að þessir bátaflokkar nýti aflann verr en aðrir? Það má vera að hægt sé að færa einhver rök fyrir því. Ég er ekki alveg viss um að þau standist tímans tönn eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði áðan. Það er rétt að þessir smærri bátar sækja talsvert stíft á þessum tímum. Það er kannski fyrst og fremst vegna tveggja hluta. Á þessum tíma vetrar er verðið afskaplega hátt og hærra en á öðrum árstímum. Þess vegna sækja þeir í þetta góða verð og á þessum tímum tíðkast líka að þessir litlu bátar notfæri sér þann sveigjanleika sem er í aflamarkskerfinu og þeir kaupi eða leigi sér tímabundinn kvóta til þess að veiða yfir þetta tímabil með netum. Þessi kaup yrðu náttúrlega úr sögunni og um leið kynni það að hafa einhver áhrif á þau byggðarlög sem eru fyrst og fremst háð veiðum þessara smábáta. Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að þessir bátar sækja svona stíft og auðvitað hef ég orðið var við það eins og aðrir sem fylgjast með fjölmiðlum að maður hefur oft á tilfinningunni að slys séu óhóflega tíð hjá þessum smáu bátum. Ég hefði þá kosið í fyrsta lagi að hæstv. ráðherra gerði okkur grein fyrir því í fylgiskjölum sem fylgja frv. þannig að við gætum séð það svart á hvítu og tekið afstöðu til þessa á grundvelli raunverulegra öryggissjónarmiða. Ef ráðherrann getur sýnt mér fram á að þetta skipti verulegu máli frá öryggissjónarmiði þá skal ég styðja það. En ég vil að hann geri a.m.k. tilraun til þess að sýna mér tölur í því sambandi. Þær hljóta að liggja fyrir.

Ef honum tekst ekki að sýna líka fram á að sú fullyrðing sem sett er fram í greinargerðinni sé sönn, þ.e. smábátarnir nýti aflann verr og þeir komi með verra hráefni að landi, gef ég ekkert fyrir það. Það eru fyrst og fremst öryggissjónarmiðin við eigum að láta ráða afstöðu okkar til 3. gr.

[15:15]

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira smálegt sem ég hef við þetta frv. að athuga en ég ætla ekki að gera það. En þetta eru stærstu atriðin, þ.e. 3. gr. Á að banna smábátum undir 20 brúttótonnum að stunda veiðar með þorsknetum? Það eru ekki færð nægilega sterk rök fyrir því, alls ekki í ræðu hæstv. sjútvrh., hann kom varla nokkuð inn á þetta, og ekki heldur í greinargerðinni. Í annan stað, herra forseti, hlýtur ábending hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að með engu móti sé tekið á því vandkvæði sem felst í brottkasti meðafla að vera stórt atriði þegar menn fjalla um frumvarpið. Ég nefndi ýmis smærri atriði varðandi 2. gr. og mælist ég til að hæstv. sjútvrh. svari þeim spurningum sem ég setti fram viðvíkjandi þeim. Ef ekki, mælist ég til að hv. sjútvn. kanni þetta mál og tryggi með öllu því skyggna mannviti sem þar er innan stokks að þetta frumvarp verði að lokum nægilega gott til að menn geti samþykkt það tiltölulega hratt því þarna er gengið í rétta átt.