Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:29:01 (2550)

1996-01-30 16:29:01# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan í sinni friðsemdarræðu að menn ættu að fjalla um þessi mál yfirvegað og í rósemd. Það er alveg rétt. Þetta mál er þess eðlis að það er nauðsynlegt. En til þess að það sé hægt þurfa að vera fyrir hendi þau rök sem hinar ýmsu frumvarpsgreinar byggja á. Ég hef í tveimur ræðum mínum fyrr í dag óskað eftir því að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir þeim rökum sem liggja að baki þeirri ákvörðun hans að leggja til að bátum, sem eru undir 20 brúttótonnum, verði óheimilt að veiða með netum fjóra mánuði á ári. Ég hef sagt að ég sé út af fyrir sig reiðubúinn til þess að samþykkja þetta ef hæstv. ráðherra getur sýnt fram á að það sé nauðsynlegt vegna öryggissjónarmiða. Það kemur hins vegar fram í greinargerðinni að þetta er ekki af öryggisástæðum. Aðallega leggur hann þetta til vegna þess að viðkomandi bátar nýta afla sinn illa. Það er talið að þeir hendi meiru vegna þess að veður hamli að vitjað sé um net.

Ég vísa til þess, herra forseti, að hans eigin flokksmenn hafa komið í dag og dregið þetta í efa og þess vegna spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hvar eru rökin annars vegar fyrir þeim öryggissjónarmiðum sem því miður er aðeins tæpt á í greinargerðinni og hins vegar fyrir þeim órökstuddu fullyrðingum sem kalla má orðsveim, jafnvel slúður sem getur að líta í greinargerðinni, þar sem sagt er fullum fetum að þessir bátar fari illa með sinn afla.