Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:36:08 (2554)

1996-01-30 16:36:08# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna umræðu um 2. gr. vil ég taka fram að ég sé enga lausn í því að koma með sérstakan meðaflapott sem eigi að taka við þeim afla sem menn telja skemmdan eða ónýtanlegan. Ég tel að við eigum að halda okkur við það meginmarkmið að allur fiskur sem kemur inn fyrir borðstokkinn verði að koma að landi.

Í 2. gr. segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þá er heimilt að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla, enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi.`` Ég held að þetta ákvæði sé svo vafasamt og einkennilegt inni í þessu frv. frá samstarfsnefndinni að það sé ekki hægt annað en ítreka það enn og aftur að með þessu er verið að opna fyrir það að menn hendi nánast öllu sem þeir telja sig ekki þurfa að nota, ef það hefur ekki einhvern tíma verið verðsett. Þá er spurning hvers konar verð það er. Það er bæði ný saga og gömul að menn hafa í gegnum árin reynt að nýta allan þann afla sem hefur komið um borð vegna þess að það er skylda að gera það. Með þeim hætti hafa menn getað nýtt sér aukategundir sem hafa reynst þjóðinni gagnlegar og skapað okkur auð sem við vissum ekki af áður. Ég tel að við eigum ekki að gefa því undir fótinn að menn megi henda öllu sem ekki hefur einhvern tíma áður verið komið í verð.