Endurskoðun á kosningalöggjöfinni

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:38:35 (2558)

1996-01-31 13:38:35# 120. lþ. 80.1 fundur 103. mál: #A endurskoðun á kosningalöggjöfinni# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta mál er mikilvægt og af þeim ástæðum er sérstaklega að því vikið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem er að öðru leyti knappur, og ég hygg að það sé fullur vilji innan stjórnarflokkanna og reyndar í þinginu öllu að taka á því máli.

Hv. fyrirspyrjandi ræddi allmarga þá annmarka sem eru á núverandi reikniverki kosningalaga, hversu flókið það er og hversu óaðgengilegt það er almenningi sem er alveg hárrétt hjá hv. þm. Það hlýtur að vera ein af forsendum í lýðræðisríki að slík grundvallarlög séu þess eðlis að menn fái skilið þau án sérstakrar sérþekkingar.

Hv. þm. nefndi einnig að það var sett á laggirnar nefnd í lok síðasta kjörtímabils eða haustið 1994. Þó að sú nefnd hefði ekki rúman tíma hélt hún engu að síður 16 fundi um málið og þar fór fram heilmikil grundvallarvinna. Í nefndinni var m.a. fjallað um nokkur mjög mikilvæg atriði eins og þau að einfalda reiknireglur kosningalaganna, gera þær skýrari, um að breyta kjördæmamörkum. Það kom fram hugmynd um að fækka kjördæmum og stækka þau, einnig þær hugmyndir sem hv. þm. nefndi að gera landið að einu kjördæmi eða fjölga kjördæmum og minnka þau. Ýmsar breytingar á kjördæmamörkum voru viðraðar. Rætt var um að breyta fjölda þingsæta. Fram komu hugmyndir um að fækka þingsætum og einnig um að fjölga þeim. Þá var rætt um að breyta úthlutun jöfnunarsæta þannig að úthlutun þeirra væri ekki bundin kjördæmum en með því móti mundu fleiri jöfnunarsæti færast til höfuðborgarsvæðisins og þéttbýlisins hér. Þá var rætt um að setja hámark á misvægi atkvæða milli kjördæma þannig að ef misvægið fer yfir ákveðin mörk komi sjálfkrafa til leiðrétting. Þá var rætt um að auka valfrelsi kjósenda þannig að persónukjör geti að einhverju leyti farið fram á kjördegi.

Það er hárrétt hjá hv. þm. að vegna þess skamma tíma sem var um að ræða voru ekki gerðar í raun aðrar breytingar að því sinni en að flytja flakkarann svokallaða á höfuðborgarsvæðið. Það var nokkur breyting þó að hún hafi ekki verið veigamikil. En það er kannski meginatriðið í sambandi við það sem hv. þm. spurði um að í greinargerðum um störf nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Það er sameiginleg niðurstaða nefndarmanna að halda beri starfinu áfram og vinna að stjórnarskrárbreytingum að því er varðar kosningaskipan á næsta kjörtímabili þannig að þau atriði sem rætt hefur verið um innan nefndarinnar verði áfram til skoðunar.``

Ég lít þannig á að þessi nefnd sé enn til. Segja má að eðlilegt væri að huga að skipan hennar og skipun. Núverandi stjórnarflokkarnir munu hafa fjóra nefndarmenn í nefndinni meðan stjórnarandstaðan hefði helmingi fleiri. Út af fyrir sig gerir það ekkert til því að umræðan fór þannig fram innan nefndarinnar að það var unnið faglega og fræðilega. Síðan munu menn skiptast eftir öðrum línum þegar til ákvörðunar um einstaka þætti kemur. Ég tel rétt og hef rætt það við formann nefndarinnar, hæstv. fjmrh., að hann leiti eftir umræðum í nefndinni um það hvort hún starfi ekki með sama hætti áfram eða hvort æskilegt sé að fram fari breytingar í nefndinni. Ég tel að hún hafi farið vel af stað og það sé mikilvægt að hafa nána samvinnu þingsins alls um hina fræðilegu og faglegu úttekt þó ég geri mér grein fyrir því að þegar til loka málsins kemur má búast við að þingmenn skiptist eftir skoðunum, kannski ekki endilega eftir flokkum alfarið og ekki endilega eftir kjördæmum heldur muni koma fram einstaklingsbundin viðhorf og þá verður þingið að höggva á þann hnút. En sú vinna sem þarna er hafin er mjög mikils virði. Við verðum auðvitað að gæta að því eins og hv. þm. nefndi og ekki ástæða til að ætla annað en við getum losnað við að lenda í því tímahraki sem við lentum í síðast. Þá var nefndin mjög seint skipuð og þar bar sá sem hér stendur mesta ábyrgð á.