Endurskoðun á kosningalöggjöfinni

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:47:44 (2562)

1996-01-31 13:47:44# 120. lþ. 80.1 fundur 103. mál: #A endurskoðun á kosningalöggjöfinni# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það má vel vera að ég hafi ekki talað nógu skýrt en það sem ég var að reyna að segja í svari mínu var að ég lít þannig á að starfið sé í gangi. Það þarf ekki að hefja starf á nýjan leik. Þessi nefnd var sett á laggirnar með þeim hætti að formenn eða talsmenn allra flokka sem sæti áttu á Alþingi komu saman og ákváðu með hvaða hætti ætti að vinna að þessu máli. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram að menn reyndu að ná þokkalegri samstöðu, þótt ég kenni engum öðrum um en mér að þetta fór heldur seint af stað. Ég vakti athygli á þeim þáttum sem nefndin var þegar byrjuð að ræða og taka til umfjöllunar og safna gögnum um. Það má vel vera að sú hugmynd sem hv. þm. nefndi varðandi kosningar sé eftirsóknarverð. Ég get þó ímyndað mér að sú tillaga gæti reynst nokkuð flókin, þvælin og erfið. En sjálfsagt þarf líka að skoða þá hugmynd og menn kunna að hafa skiptar skoðanir um hana. Mér hefur þó lærst á nokkuð löngum tíma, það gekk nú kannski illa í fyrstu, að átta mig á því að við náum ekki neinu fram nema við leitum nokkuð sæmilegs samkomulags um slík atriði og þessi nefnd er til þess fallin til að gera það.