Varnir gegn landbroti

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:54:31 (2565)

1996-01-31 13:54:31# 120. lþ. 80.2 fundur 212. mál: #A varnir gegn landbroti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:54]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur af hálfu Vita- og hafnamálastofnunar verið skipulega unnið að áætlunum og framkvæmdum við landbrots- og flóðavarnir. Athyglinni hefur sérstaklega verið beint að þeim tveim kjördæmum sem um getur í fyrirspurninni, þ.e. Suðurlandskjördæmi og Reykjaneskjördæmi, enda einna stærstu verkefnin þar. Í nóvember 1983 gaf Vita- og hafnamálastofnun út sérstaka skýrslu um landbrot og flóðahættu á Reykjanesi og í ágúst 1984 tilsvarandi skýrslu um Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Selvog. Allar götur síðan hafa tillögur um fjárveitingar til sjóvarnargarða byggt á þessum skýrslum.

Eftir mikið flóð sem varð í óveðri hinn 9. janúar 1990 voru skýrslurnar endurskoðaðar og gefin út ný skýrsla í ágúst 1990 sem náði til verkefna í báðum kjördæmunum. Í framhaldi af því var ráðist í stórframkvæmdir við endurbyggingu sjóvarnargarða á Eyrarbakka og Stokkseyri á árunum 1990 og 1991 og kostuðu þær framkvæmdir um 120 millj. kr. framreiknað til verðlags í dag.

Á árinu 1993 hóf Vita- og hafnamálastofnun samstarf við Skipulag ríkisins og Viðlagatryggingu Íslands um úttekt á sjóvörnum og skipulags- og byggingaráðstöfunum á lágsvæðum. Í framhaldi af því kostuðu þessir þrír aðilar gerð tveggja skýrslna. Sú fyrri kom út í nóvember 1994 og fjallaði um Vík í Mýrdal en hin síðari kom út í ágúst 1995 og fjallaði á almennari hátt um málið en þó voru verkefni í nokkrum sveitarfélögum svo sem Eyrarbakka, Stokkseyri og Bessastaðahreppi tekin sérstaklega fyrir. Eftir að skýrslan um Vík í Mýrdal lá fyrir fékkst fjárveiting á fjáraukalögum 1994 til að byggja upp flóðvarnargarð framan við þorpið. Flóðvarnargarðurinn var byggður síðastliðinn vetur og kostaði um 12 millj. kr. Í ágúst 1995 gaf Vita- og hafnamálastofnun út yfirlitsskýrslu um sjóvarnir og náði hún til alls landsins. Í skýrslunni er gerð tilraun til að gefa innsýn í heildarframkvæmdaþörf við sjóvarnir á næstu 10 árum. Niðurstaða skýrslunnar er sú að verja þurfi 860--1.000 millj. kr. til sjóvarnargarða á tímabilinu eða 90--100 millj. að meðaltali á ári. Þá er átt við framlög til verkefna sem nú þegar eru þekkt, framlög til að bæta tjón vegna hugsanlegra áfalla í óveðrum og framlög til viðhalds sjóvarnargarða.

Verkefni í Suðurlands- og Reykjaneskjördæmum vega þungt í þessum tölum, með um 60%. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er veitt 51 millj. kr. til sjóvarnargarða og tillaga samgrn. um skiptingu fjárhæðar byggir á umræddri skýrslu. Samgrn. mun jafnframt beita sér fyrir að farið verði eftir niðurstöðum skýrslunnar við fjárlagagerð á næstu árum.

Nú vita bæði ég og hv. fyrirspyrjendur að kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Við höfum komið okkar saman um það í þessari ríkisstjórn sem nú situr og stuðningsmenn hennar á Alþingi að draga heldur úr framkvæmdum til samgöngumannvirkja og þess sér auðvitað stað þegar við tölum um sjóvarnargarða á Reykjanesi og sjóvarnargarða á Suðurlandi og raunar líka í öðrum kjördæmum landsins. Ég held að það sé rétt að tala um þetta í svo víðu samhengi að nái til landsins alls. Vissulega yrði ég þakklátur hv. þingmönnum ef þeir vildu reyna að standa með mér í næstu fjárlagagerð og okkur tækist í sameiningu að hnika upp þessum fjárveitingum sem eru til sjóvarnargarða.