Upptökumannvirki til skipaviðgerða

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:09:13 (2573)

1996-01-31 14:09:13# 120. lþ. 80.3 fundur 223. mál: #A upptökumannvirki til skipaviðgerða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:09]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan þakka hæstv. samgrh. þau svör sem hann gaf hér. Heyrn hef ég góða en verð að viðurkenna að svo fljótmæltur var hæstv. samgrh. að það var illt að greina öll þau atriði hin merku sem hann lagði fram.

Meginatriði málsins er að sjálfsögðu það að við getum ekki ætlað skipasmíðaiðnaðinum að búa við þau skilyrði að samkeppnisstaðan sé skekkt. En ég tel að samkeppnisstaðan hafi svo sannarlega verið skekkt þegar ekki er horft til þess að hér í Reykjavík hefur verið full afkastageta til að ráða við langstærstan hluta skipaviðgerða í landinu. Þær viðbætur sem hafa verið gerðar á öðrum stöðum hefði svo sannarlega mátt gera hér í Reykjavík. Ég vil vekja athygli á því að gerðar eru fyllstu arðsemiskröfur til skipasmíðastöðvarinnar sem er í Reykjavík, þeirrar stærstu, Stálsmiðjunnar, þegar aðrar skipasmíðastöðvar búa við það að greiða mun lægri leigu og ekki eru gerðar sömu arðsemiskröfur til fjárfestinga sem þar eru til staðar. Það er líka meginatriði þessa máls ef svo er að bæjarfélög fari langt fram úr því sem fjárveitingar til hafna frá Alþingi og fjárveitingavaldinu gefa tilefni til og skapi þar með vissan þrýsting á fjárveitingavaldið um fjárveitingar. Þetta tel ég að sé varhugaverð þróun, ekki aðeins í hafnamálum heldur einnig á öðrum sviðum.

Hér í Reykjavík eru um 1.000 manns sem vinna við skipasmíði og þjónustu og atvinnu tengda skipasmíðum. Það er ekki hægt að sætta sig við það að byggðamál séu leyst með því að skekkja þennan samkeppnisgrundvöll sem hefur verið nefndur. Ef styrkja á byggðirnar þarf að gera það með beinum hætti en ekki að grípa inn í atvinnuvegina og valda þar með því óhagræði sem ég tel að hafi orðið í skipasmíðaiðnaðinum að undanförnu.