Ofbeldisefni í fjölmiðlum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:45:04 (2588)

1996-01-31 14:45:04# 120. lþ. 80.6 fundur 235. mál: #A ofbeldisefni í fjölmiðlum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:45]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda spurninguna en vek um leið athygli á því sjónarmiði að þótt vissulega sé ástæða til að stemma stigu við ofbeldisefni fjölmiðla þá er það að öllum líkindum mikil einföldun að ofbeldiskennd barna og unglinga eigi fyrst og fremst rætur að rekja til fjölmiðla. Að mínu mati spila þar mjög margir þættir saman, ekki síst sú staðreynd að vinnuálag á foreldra hefur verið mjög mikið hér á landi á undanförnum árum og losaralega löggjöf varðandi börn, t.d. það að miða sjálfræðisaldur við 16 ár. Ég tel því að það beri vissulega að taka þetta mál, fjölmiðla og ofbeldi í fjölmiðlum, föstum tökum. En til þess að ráðast gegn sjálfu meininu, ofbeldiskennd barna og unglinga, verður að líta á málið í mun víðara samhengi.