Skattareglur gagnvart listamönnum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 15:04:42 (2591)

1996-01-31 15:04:42# 120. lþ. 80.7 fundur 239. mál: #A skattareglur gagnvart listamönnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[15:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í íslenskum skattalögum er ekki farið í manngreinarálit og eru allir menn skattlagðir með sama hætti með hliðsjón af tekjum þeirra og eignum án tillits til mannkosta, mannvirðinga, þjóðfélagsstöðu og þess háttar ef frá er talinn forseti Íslands sem er skattfrjáls samkvæmt sérstökum lögum um laun forseta. Ég tel ekki ráðlegt að víkja frá þessari meginreglu og skattleggja menn eingöngu eftir efnum og aðstæðum. Reyndar kom það fram hjá hv. fyrirspyrjanda að hann er sömu skoðunar hvað það snertir.

Skattareglur einstaklinga hér á landi, hvort sem um er að ræða listamenn eða aðra, eru fyllilega sambærilegar við þær sem almennt gerist í löndum umhverfis okkur. Skattstofninn er sambærilegur og hæstu jaðarskattar yfirleitt lægri hér á landi. Velji menn að koma list sinni á framfæri með milligöngu lögaðila, t.d. hlutafélaga, er skattalegt umhverfi slíkra aðila ekki síðra en það sem best gerist annars staðar. Íslenskir listamenn sem starfa erlendis eiga þess yfirleitt ekki kost að ákveða hvar þeir eru skattskyldir sem einstaklingar. Samkvæmt viðurkenndum reglum milli ríkja sem m. a. koma fram í tvísköttunarsamningum er réttur til fullrar skattlagningar hjá því ríki þar sem einstaklingurinn hefur dvalið í meira en 183 daga á sama ári. Réttur til skattlagningar tekur þá til allra tekna viðkomandi einstaklings hvar sem þeirra tekna er aflað. Með gerð tvísköttunarsamninga er verið að tryggja að tekjur manna verði ekki skattlagðar í tveimur löndum samtímis, þ.e. í því landi þar sem einstaklingurinn er búsettur og er skattskyldur og í því landi þar sem teknanna er aflað ef um annað land er að ræða. Íslensk stjórnvöld hafa gert tvísköttunarsamninga við allmörg lönd og í gangi er sérstakt átak til að fjölga þeim. Í tvísköttunarsamningum er m.a. fjallað um skattlagningu á þóknun listamanna og greiðslum fyrir höfundarrétt. Eru meginreglurnar þær að slíkar greiðslur eru skattlagðar með 0--10% skatti í því landi þar sem þær eru upprunnar og kemur sá skattur til frádráttar við skattlagningu í búsetulandinu. Skattlagning íslenskra listamanna sem vegna starfsemi sinnar eru búsettir erlendis ræðst því yfirleitt ekki af íslenskum skattalögum heldur lögum þess lands þar sem þeir hafa aðsetur. Til þess að komast hjá skattlagningu aðseturslandsins kjósa þessir aðilar þó oft að skrá starfsstöð sína utan þess lands og leita þá til skattavinja svo sem Mónakó eða Bahamaeyja sem beitt hafa skattívilnunum og tekist með því að beina til sín fjármagni af ýmsum uppruna. Á hitt er sjaldnar minnst að þeir sem eru í aðstöðu til að nýta sér þessar ívilnanir njóta þar með ekki þeirra félagslegu réttinda sem skattgreiðslur í heimalandinu standa undir. Eru þess ófá dæmi að þegar á bjátar leiti þeir til heimalandsins eftir slíkri þjónustu, bæði heilbrigðisþjónustu og tryggingum.

Vestur-Evrópulönd og önnur sambærileg lönd hafa ekki talið rétt að sporna við þessu með því að beita sambærilegum ívilnunum en hafa gert aðrar ráðstafanir til að takmarka áhrif þessara skattavinja m.a. með því að útiloka að tekjur frá þeim njóti ívilnana samkvæmt tvísköttunarsamningum eða með sérstakri löggjöf sem oft eru í gildi í löndum hér í kringum okkur.

Hvað varðar þessa tvo ágætu Íslendinga sem nefndir eru í fyrirspurninni er ekki vitað til þess að þeir eða aðrir einstaklingar í þeirra sporum njóti sérstakra skattfríðinda sem einstaklingar í aðseturslöndum þeirra. Líklegt er þó að þeir eins og margir aðrir listamenn nýti sér hlutafélagaformið í rekstri sínum en slík félög er hægt að starfrækja í ýmsum löndum. Ekki hafa verið í gildi sérstakar skattareglur fyrir listamenn hér á landi ef talið er frá skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og annarra sambærilegra norrænna menningarverðlauna. Eins og hér hefur komið fram og reyndar margoft áður höfum við breytt íslenskum skattalögum þannig að þau eru fyllilega sambærileg þeim lögum sem gilda annars staðar, ekki síst þegar um er að ræða hlutafélög en þar hefur skatthlutfallið lækkað mjög mikið á undanförnum árum. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að gera frekari breytingar á skattalögum að þessu leyti.