Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:00:13 (2614)

1996-02-01 12:00:13# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:00]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að lánastofnanir óski eftir því um leið og þær taka veð fyrir einhverjum lánum að veðinu fylgi yfirlýsing frá lántaka um að hann muni gera þetta eða gera hitt til að tryggja veðið betur þó svo að þær yfirlýsingar í sjálfu sér séu ekki veðhæfar. Það eru mörg dæmi um að lánastofnanir veiti lán með þeim hætti. Ég veit ekki um nokkur ákvæði sem banna þeim það. Ef lánastofnanir vilja veita útgerðum lán og tryggja þau með einhverjum yfirlýsingum umfram þau veð sem hægt er að taka, sé ég enga ástæðu til þess að banna þeim það enda verða lánastofnanirnar þá að taka sjálfar áhættuna á því hvort yfirlýsingarnar muni standast eða ekki. Ég sé enga ástæðu til þess að banna þeim það en ég vek athygli á því eins og hæstv. ráðherra segir sjálfur, að það er engin trygging fyrir því að yfirlýsingin sé nokkurs virði. Þetta er sú áhætta sem lánastofnunin verður að taka í þessu sambandi. En ég vil ekki heimila lánastofnun með lögum að taka veð í aflaheimildum skips. Það væri breyting frá því ástandi sem nú er, breyting sem ég samþykki ekki og breyting sem hv. þingmenn Framsfl. samþykkja ekki. Þá spyr ég: Ef málið er aftur orðið svona stórt í augum hæstv. sjútvrh., hvernig stendur þá á því að hann segir í viðtali við Morgunblaðið í morgun að það skipti svo sem engu hvort þetta ákvæði er í lögum eða ekki? (Gripið fram í: Að réttu.) Það skipti svo sem engu. Hæstv. ráðherra, sveiflast þannig algerlega á milli öfganna. Í öðru orðinu segir hann að það sé úrslitaatriði fyrir útgerð í landinu og starfsemi lánastofnana að heimilt sé að taka veð í aflaheimildum. Í hinu orðinu segir hann að það skipti ekki máli.