Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:30:41 (2739)

1996-02-06 14:30:41# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:30]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla að fjalla í örstuttu máli um þessa tillögu og þakka hv. 1. flm. fyrir það frumkvæði sem hún átti að samningu hennar. Öllum má ljóst vera að hér er um mjög spennandi og þarft mál að ræða sem varð til í kjölfar rannsóknar og dóma yfir blaðamanni. Hér er um grundvallaratriði í blaðamennsku að ræða, þ.e. rétt blaðamannsins til þess að virða trúnað við heimildarmenn sína.

Eins og sjá má af hópi flutningsmanna er þar um fyrrv. blaðamenn að ræða, fólk sem hefur reynslu af því að vera í blaðamennsku og skilur því vel hver þörf er á tillögu um að hér verði breyting á lögum til þess að það sé alveg skýrt hver réttur fjölmiðlamanna er.

Vert er að minnast þess að þegar stjórnarskráin var endurskoðuð, en þær breytingar urðu að lögum í fyrravor, var m.a. tekið á tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi sem auðvitað er grundvallarréttur en að öðru leyti er lítið vikið að hlutverki fjölmiðla. Í þjóðfélagsfræðum er fjallað um fjórða valdið við hliðina á framkvæmdarvaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi. Öllum má ljóst vera að fjölmiðlar hafa gífurlega þýðingu og gífurleg áhrif í öllum samfélögum, eiginlega hvort sem þeir njóta þess frelsis og þeirra réttinda sem við gerum kröfum til í þeim ríkjum sem vilja kenna sig við lýðræði eða öðrum ríkjum svo við nefnum t.d. Kína. Þeir ófrjálsu fjölmiðlar sem þar eru hafa gífurleg áhrif vegna þess að menn lesa í gegnum þá stefnu stjórnvalda hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt. En það má geta þess að í alþjóðasamþykktum á undanförnum árum, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum, og er mér þá t.d. í huga framkvæmdaáætlunin til að ná fram jafnrétti kynjanna, er mjög víða vísað til hlutverks fjölmiðlanna og til skoðanafrelsis og réttar fjölmiðla til þess að láta skoðanir sínar og þekkingu í ljós. Þessi hugsun er komin víða inn í alþjóðasáttmála en ég hygg að við eigum eftir að fylgja þeim miklu betur eftir inn í íslensk lög.

Það eru tvær hliðar á þessu máli eins og öðrum. Annars vegar grundvallarréttur blaðamannsins sem m.a. er kveðið á um í siðareglum íslenskra blaðamanna. Í 2. gr. siðareglnanna segir, með leyfi forseta: ,,Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.``

Þetta er grundvallarregla allra þeirra sem vinna við fjölmiðla. Ef hægt á að vera að sinna því hlutverki að veita stjórnvöldum aðhald, sem er eitt af hinum stóru hlutverkum fjölmiðla, þarf að vera nauðsynlegt að geta varið heimildarmennina. Í greinargerð er einmitt rifjað upp eitthvert frægasta dæmi um slík mál, þ.e. Watergate-málið í Bandaríkjunum. Mér vitanlega hefur enn ekki verið sannað hver heimildarmaðurinn var sem kallaður var Deep Throat. Eflaust eru fjöldamörg dæmi um að embættismönnum hefur verið nóg boðið og hafa lekið til fjölmiðla mikilvægum upplýsingum þegar spillingin var orðin slík að mönnum fannst að eitthvað yrði að gera en stundum er slíkur leki í öðrum tilgangi.

Annars vegar er nauðsynlegt að verja rétt fjölmiðlanna en hins vegar er nauðsynlegt að vernda borgarana fyrir fjölmiðlum og því hvað fjölmiðlar geta verið ósvífnir og raunar gengið langt í fréttamennsku sinni. Þetta þarf að hafa í huga. Ég get rifjað í því samhengi upp tillögur sem legið hafa fyrir hér á þingi en hafa ekki verið afgreiddar. Þar átti í hlut hv. fyrrv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, klerkurinn fyrir austan, sem var hér á síðasta kjörtímabili. Hann lagði ítrekað fram tillögur um reglur um myndbirtingar og jafnvel bann við myndbirtingum þannig að margt er að athuga í þessu samhengi. Enda þótt hv. 1. flm. veki fyrst og fremst athygli á ákveðnu atriði er margt annað sem væri vert að athuga í þessu samhengi og ég varpa því fram hvort hér þurfi að verða til einhver samfelld löggjöf um fjölmiðla. Ég viðurkenni að ég þekki nægilega ekki til hvort menn hafa sett löggjöf um fjölmiðla í öðrum ríkjum m.a. til þess að vernda þennan rétt og skilgreina hlutverk fjölmiðla í samfélaginu eða hvort menn styðjast fyrst og fremst við stjórnarskrá eða aðildarreglur og hafa sótt rétt til með dómum. Það er íhugunarefni hvort rétt sé að setja slíka löggjöf en vissulega hefur löggjöf verið mjög forneskjuleg hér á landi, t.d. varðandi opinbera starfsmenn, hlutverk þeirra og þagnarskyldu og það hvernig þeir hafa verið ofvarðir með lögum þannig að það hefur verið erfitt að sækja til þeirra upplýsingar.

Þetta vekur upp enn eina spurninguna um það hvað líður frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda sem samkvæmt nýjustu fréttum er einhvers staðar á leiðinni í kerfinu. (Gripið fram í: Það er búið að vera þar í þrjú ár.) Já, sú leið er ansi löng og verður forvitnilegt að sjá afurðina þegar hún lítur loksins dagsins ljós en hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að frv. verði lagt fram á þessu þingi hvort sem það verður raunin ekki.

Hæstv. forseti. Ég ítreka að hér er um mjög gott mál að ræða sem kallar á spennandi umfjöllun í allshn. og ég hvet nefndina til þess að skoða það í þessu samhengi hvort ástæða sé til þess að setja löggjöf um hlutverk og rétt fjölmiðla.