Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:49:37 (2751)

1996-02-06 15:49:37# 120. lþ. 84.12 fundur 280. mál: #A réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi till. til þál. er komin fram í þinginu. Ég tek undir þá miklu nauðsyn sem er á því að gerður verði fræðslubæklingur um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð.

Ég þekki að ótrúlega mikil vanþekking er hjá almenningi um réttarstöðu sína bæði í vígðri og óvígðri sambúð. Ég þekki það mjög vel frá fyrra starfi mínu þar sem fólk kom iðulega til mín til að leita ráða við fráfall maka og einnig ef mikil veikindi voru hjá fjölskyldum. Við fráfall maka kom oft í ljós að fólk hafði ekki hugmynd um réttarstöðu sína og oft var mikill misskilningur á ferðinni. Eins og kemur fram í greinargerð flutningsmanna þáltill. er löggjöf oft mjög misvísandi, sérstaklega hvað varðar tryggingalöggjöfina. Þar er rétturinn meiri en í annarri löggjöf, sérstaklega hvað varðar óvígða sambúð. Í greinargerðinni segir að hafi sambúð varað í a.m.k. tvö ár eða hafi sambúðarfólk átt barn saman á það sama rétt og fólk í vígðri sambúð. Þar sem ég sé að þessi þáltill. hefur verið lögð fram tvívegis áður og þetta er þarna inn í greinargerð áreiðanlega frá því að hún var lögð fram fyrr þá langar mig til að leiðrétta þetta því það hafa orðið breytingar á almannatryggingalögunum. Í almannatryggingalögum, nr. 117/1993, varð breyting þar á og rétturinn aukinn, þ.e. að hafi fólk verið í sambúð í eitt ár öðlast það sama rétt. En það er bara til að auka þá misskilninginn því að margt fólk telur að það eigi sama rétt hvað varðar eignir og ýmsa aðra hluti og miðar þá við tryggingalöggjöfina. Ég hef t.d. lagt það til þegar fólk hefur komið til mín og leitað ráða að fólk láti skrá sig bæði fyrir húseignum, bifreiðum og þeim eignum sem það á í sameiningu. Ég legg áherslu á að engar heildarupplýsingar eru til um réttarstöðuna, enginn bæklingur og það var yfirleitt ekki hægt að vísa fólki á neinn ákveðinn stað til að leita heildarupplýsinganna. Þegar fram undan er lögfesting á því að samkynhneigðir eigi sama rétt og gagnkynhneigðir hvað varðar sambúð tel ég enn þá meiri ástæðu til þess að farið verði í að útbúa fræðslubækling af þessu tagi og það yrði þá gert um leið og réttarstaða samkynhneigðra verður tryggð.

Þessir bæklingar mættu liggja frammi á þeim stöðum sem tilteknir eru í greinargerðinni en einnig á sjúkrahúsum, sýsluskrifstofum og mun víðar þar sem upplýsingar og bæklingar frá hinu opinbera liggja frammi.

Í þessu sambandi langar mig til að benda á að árið 1981 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Hún fólst í því að gerð yrði könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð og einnig að sett yrði nefnd á laggirnar til að gera tillögur um hvernig réttindum þess verði best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eignarréttar og erfðaréttar. Eins og segir í þingsályktuninni: ,,Nefndin skal hraða störfum sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.`` Þetta var 17. febr. 1981 og þetta er þingsályktunartillaga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti á þingi það ár. Ekkert hefur komið út úr þessari vinnu og ég ítreka að farið verði í þá vinnu sem hér er lögð til. Það er orðið tímabært að eitthvað komi út úr þessari nefndarvinnu ef nefndin hefur þá einhvern tímann verið sett á laggirnar og farið í þessa vinnu.

Ég ítreka að þetta er mjög mikilvægt mál og yrði til mikilla hagsbóta fyrir alla þá sem þurfa að kynna sér réttarstöðu sína en þeir eru alls ekki svo fáir eins og augljóst er.