Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:07:37 (2817)

1996-02-08 16:07:37# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:07]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. kvartar undan því að það hafi ekki verið hægt að ræða málefni Ríkisspítalanna og stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu við 2. umr. fjárlaga. Ég verð að minna hann á það af því að hann virðist hafa gleymt því að aðgerðir í heilbrigðismálum voru kynntar við 2. umr fjárlaga. Hins vegar hafa málefni stóru spítalanna verið stöðugt viðfangsefni í fjárlagaumræðu síðustu 4--5 árin og lengur. Vandkvæði þeirra eru ekki nýtt vandamál, komið til vegna þess að núverandi stjórnarliðar vilji níðast á fólki í landinu. Það er mikil útgjaldaaukning í þessum málaflokki og mikil fjárþörf. Svo hefur alltaf verið og umræður hafa snúist um það hvernig best sé að mæta því, hvernig hægt sé að hagræða í þessum málaflokki og sú umræða heldur áfram. Það verður viðfangsefni yfirstandandi árs og það verður viðfangsefni næstu fjárlaga að reyna að ná landi í þessum efnum.

Það er alveg ljóst að á síðasta ári hafa fjárframlög til spítalanna á höfuðborgarsvæðinu vaxið þótt útgjaldaþörfin sé enn meiri. Það er því stöðugt viðfangsefni hvernig eigi að mæta þessum vanda.