Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:00:32 (2864)

1996-02-08 19:00:32# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið sammála flestu því sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur sagt í dag. (Gripið fram í: Ertu í andsvari við ...?) Ekki því síðasta sem hún sagði um ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar um að það hafi verið frábærlega góð ræða. Hún var ekki málefnaleg. Hún var mjög vel flutt, þingmaðurinn er vel máli farinn og hann kemur sínum hugmyndum og boðskap vel á framfæri. Hins vegar fannst mér ræðan og málflutningurinn óhugnanlegur um margt.

Í dag hefur farið fram mikil umræða um heilbrigðismál. Hæstv. fjmrh. landsins hefur boðað ákveðnar kerfisbreytingar sem hann vill koma á inn í velferðar- og heilbrigðiskerfinu þar sem hann vill innleiða í ríkari mæli en verið hefur að sjúklingar borgi fyrir sig. Menn hafa tekið undir kostnaðarþátttöku fyrirtækja í heilbrigðiskerfinu. Við erum að tala um ýmsar grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Síðan koma stjórnarþingmenn upp eins og hv. þm. Guðni Ágústsson til að verja sína menn í ríkisstjórn og segja að þetta sé allt í góðu gengi og hann voni að þessar andstyggilegu raddir og þessi andstyggilega umræða hljóðni.

Hér er búið að gera grein fyrir því í dag að það sem í rauninni hafi verið að gerast á undanförnum árum og hafi verið staðfest af hálfu Þjóðhagsstofnunar sé mikil tilfærsla á fjármunum innan heilbrigðiskerfisins. Sjúklingar borgi t.d. núna 2 milljörðum meira en þeir gerðu árið 1990 og boðað er að áfram skuli haldið á þeirri braut. Þess vegna sá ég ástæðu til þess að koma þessari gagnrýni á framfæri við annars ágætan þingmann, hv. þm. Guðna Ágústsson.