Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:05:43 (2866)

1996-02-08 19:05:43# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:05]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hafa staðið umræður um ástand heilbrigðismála í allan dag og ég vil þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Ég tel að umræðan hafi sýnt að mönnum liggur margt á hjarta í þessum málum en sjónarmiðin eru afar ólík eftir því frá hvoru sjónarhorninu við nálgumst málið, stjórn og stjórnarandstaða. Þótt ýmsir stjórnarsinnar hafi viðurkennt að við stöndum frammi fyrir miklum vanda í okkar samfélagi, þá ber það líka við í þessari umræðu að menn neita að horfast í augu við staðreyndirnar.

Það kom fram í upphafi umræðunnar í dag að við búum um margt við mjög gott heilbrigðiskerfi og það er hárrétt. Það er margt mjög gott í heilbrigðiskerfi okkar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem við getum valið um það að fara til okkar heimilislæknis eða leita beint til sérfræðinga. Mörgum þykir þetta gagnrýnivert og segja að þetta sé afar dýrt kerfi en þar á móti kemur að við sem einstaklingar fáum að velja. Ég hef lagt á það mikla áherslu í málflutningi mínum, m.a. síðasta ár þegar umræðan stóð um tilvísanakerfið, að það væru réttindi einstaklingsins að fá að velja og t.d. sé ég enga ástæðu fyrir því að við konur þurfum að leita til heimilislæknis fyrst ef við þurfum að komast til kvensjúkdómalæknis og ég veit að það eru fleiri sem deila þeirri skoðun með mér.

Hæstv. forseti. Okkur hlýtur öllum að vera ljóst að við stöndum frammi fyrir miklum vanda í heilbrigðismálum. Íslendingar hafa gengið í gegnum nokkrar efnahagsþrengingar á undanförnum árum og ríkissjóður hefur um árabil verið rekinn með halla og við erum þjóð sem skuldar býsna mikið. Ef ég man rétt fer um það bil ein af hverjum þremur krónum sem við öflum í það að borga skuldir og vexti. Ekki ber að misvirða það að ríkisstjórnin reyni að glíma við þennan halla og það þarf ekki að undrast það þegar menn horfa yfir fjármál ríkisins að menn leiti fanga í heilbrigðiskerfinu. Eins og hér hefur margsinnis komið fram í dag eru það hvorki meira né minna en 40% af ríkisútgjöldum sem fara til heilbrigðis- og tryggingamála. En það er ekki sama hvernig menn nálgast þennan niðurskurð og sparnað. Það er ekki sama hvað er gert. Að mínum dómi hafa þau mistök sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum annars vegar falist í því hve vinnubrögð hafa verið handahófskennd og vanhugsuð og hvernig hefur verið vaðið áfram með flötum niðurskurði og hins vegar að það hefur ekki verið leitað samstarfs við þá sem best þekkja til mála.

Ég hrósa hæstv. núv. heilbrrh. fyrir það að hún hefur leitað ráða, hún hefur kallað stjórnarandstöðuna til til stefnumótunar enda er hér um slík stórmál að ræða að það verður að nást bærileg samstaða um það hvernig við rekum heilbrigðiskerfi okkar. Við stöndum frammi fyrir sama vanda og aðrar Evrópuþjóðir að við horfum fram á gífurlega aukin útgjöld á næstu árum af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar og ég ætla ekki að endurtaka, kom m.a. fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Guðna Ágústssonar. Það er óhjákvæmilegt að færri og færri þurfa að standa undir dýrri þjónustu við fleiri og fleiri. Það er myndin sem blasir við. En eins og menn hafa nálgast þessi mál er það svona álíka og að setja lok á pott með sjóðandi vatni þar sem allt bullsýður undir. Það er ekki hægt að kæfa suðuna með því. Það verður að lækka strauminn. Það er einmitt sá vandi og sú glíma sem við stöndum frammi fyrir þ.e. hvernig við drögum úr ferðinni fyrir aukna þjónustu.

Hér hefur verið vitnað í kenningar um það að því meiri þjónusta sem er í boði því meiri sé eftirspurnin og að eftirspurnin elti framboðið eins og hér var komist að orði. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétt. Er fólk alltaf að leita sér lækninga og leita til lækna bara af því að þeir eru til staðar? Ég leyfi mér að efast um það þó að auðvitað séu þekkt dæmi um það. Það kann að vera til í dæminu eins og ég nefndi í dag að það séu stundaðar oflækningar, að menn búa sér til ákveðna eftirspurn. En ég hygg að það sé í afar lítill hluti af þessu stóra dæmi. Málið er að draga úr eftirspurninni og það verður best gert með því að auka forvarnir og þar tek ég undir með hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Guðna Ágústssyni og reyndar gerði ég það að einu meginatriðinu í ræðu minni í dag. Ég legg mikla áherslu á að þessi leið verði farin til þess að draga úr útgjöldum í heilbrigðiskerfinu.

Ég var á fundi nokkru fyrir jól með hjúkrunarforstjórum og framkvæmdastjórum sjúkrahúsanna og þar var einnig aðstoðarmaður hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem stóð í þessari glímu á síðasta kjörtímabili sem heilbrrh. Hann vitnaði mjög í máli sínu til kenninga um það að eina leiðin til þess að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið sé að taka fyrst og fremst á þeim sem hafa hag af því að selja heilbrigðiskerfinu þjónustu sína. Þetta eru þekktar kenningar og þarna er einkum verið að tala um þá sem framleiða tæki til heilbrigðiskerfisins, lyfjaframleiðendur og svo lækna. Menn taka læknana alltaf út úr en þeir hafa vissulega nokkra sérstöðu, t.d. í okkar kerfi. Eflaust er nokkuð til í þessu og þá einkum á þann veg að það þarf að veita strangt aðhald. Það hefur t.d. komið fram í umræðum og kom fram á fundi heilbr.- og trn. sl. mánudag að menn eru að leita leiða til þess að fara svolítið bakdyramegin að lyfjakaupum, að kaupa lyf á Spáni vegna þess að lyfjaframleiðendur skipta Evrópu niður í verðsvæði og við sem tilheyrum Norðurlöndunum erum á langdýrasta svæðinu. Hér eru lyfin dýrust af því að hér eru ríkustu þjóðirnar. Það sama gildir um ýmis tæki og það er þekkt staðreynd að menn eru alltaf að reyna að græða á ríkinu og veita ríkisstofnunum ekki þann afslátt sem aðrir fá. Þarna þarf að veita mjög strangt aðhald en ég held að þó að menn beittu ýtrustu aðgætni varðandi öll slík kaup, alla slíka samninga, þá stöndum við samt sem áður frammi fyrir þeirri meginstaðreynd að þörfin fyrir þjónustu kemur til með að aukast stöðugt. Það er óhjákvæmilegt og þess vegna segi ég enn og aftur að við verðum að horfast í augu við það að heilbrigðiskerfið kallar á meira fjármagn og þá kemur spurningin: Hvar á að sækja það?

[19:15]

Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson spurði okkur þingmenn að því hvernig við ætlum að spara. Ég rakti það í mínu máli í dag. Ég tel að með auknum forvörnum sé hægt að ná miklum sparnaði. En ég vil líka að við spyrjum okkur þeirrar spurningar hvernig við getum aflað meiri tekna. Það eru fleiri hliðar á málinu en sú að skera niður, menn verða líka að velta því fyrir sér hvernig hægt er að afla meiri tekna. Á meðan við látum skattsvik upp á marga milljarða viðgangast samfélagi okkar, á meðan ekki er komið á fjármagnstekjuskatti o.s.frv., er ansi erfitt að rökstyðja að peningar séu ekki til og ekki hægt að verja meira fjármagni til heilbrigðiskerfisins. Það þarf nefnilega líka að forgangsraða í ríkisfjármálunum. Hér erum við að tala um grundvallarþarfir þess hóps fólks sem búið er að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og á rétt á góðri þjónustu og öryggi. Það er einfaldlega skylda okkar að búa vel að sjúkum og öldruðum. Ég er reiðubúin til að leita allra leiða til að halda því góða þjónustustigi sem hér var en hefur því miður verið að versna og versnar enn ef svo heldur fram sem horfir. Ég er sannarlega reiðubúin til að leggja hæstv. heilbrrh. lið í leit hennar að leiðum. Mér fundust það athyglisverðar hugmyndir sem komu fram hjá hv. þm., Guðna Ágústssyni. Mér finnst alveg sjálfsagt þegar við stöndum frammi fyrir þessum mikla vanda að skoða leiðir eins og þær að taka upp einhvers konar tryggingagjöld í atvinnulífinu eða hvað við viljum kalla það til þess að leysa þennan vanda.

Það er aðeins tvennt að lokum sem ég vil nefna. Við höfum mikið horft á sjúkrahúsin í þessari umræðu í dag, minna á sérfræðingana og það sem þar hefur verið að gerst. Ég vil ekki láta hjá líða að vekja athygli á því að það er líka verið að reyna að koma böndum á sérfræðingana, ef svo má að orði komast. Þar hljóta einnig að vakna spurningar um forgangsröðun og um það hvort þær takmarkanir sem þar er verið að setja geti ekki leitt til meiri veikinda og meiri erfiðleika. Þar vil ég sérstaklega nefna að kvensjúkdómalæknar hafa nú fengið á sig kvóta varðandi ómskoðanir á konum. Það eru 50 skoðanir á ári, tæplega ein skoðun á viku fyrir hvern sérfræðing. Það væri gaman að hafa tölur yfir það hversu margar konur leita til kvensjúkdómalækna á ári og hversu margar þessar skoðanir eru. Ég þyrfti hreinlega að koma þessu í fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. En ég er þegar farin að heyra miklar kvartanir yfir þessu. Það verður gaman að vita hvað gerist þegar líða tekur á árið og kvensjúkdómalæknar verða að neita konum um þessa skoðun. Í bréfi frá einum þeirra sagði hann að það væri auðvitað algerlega óviðunandi að verið væri að vísa þeim aftur á þær gömlu aðferðir að þukla og þreifa og meta ástand kvenna samkvæmt því þegar þeir hefðu þessi tæki á stofunum hjá sér sem veita gífurlega mikið öryggi og leiða til þess að ýmiss konar fyrirbæri sjást miklu fyrr og finnast miklu fyrr en ella, t.d. í leginu. Þetta finnst mér vera mál sem snertir okkur konur alveg sérstaklega og ég vil nota tækifærið til að vekja sérstaka athygli á þessu. Ég vil líka vekja athygli á því að landlæknir lýsti því yfir á fundi fjárln. nokkru fyrir jól að beinþynning meðal kvenna yrði faraldur á næstu öld. Þarna er líka dæmi um mál sem þarf að taka á núna til að fyrirbyggja að einmitt þetta sem á sér rætur í breyttum neysluvenjum valdi gífurlegum kostnaði hér eftir tvo til þrjá áratugi.

Þar er ég komin að því sem ég ætla að reyna að láta verða minn lokapunkt, hæstv. forseti. Það snertir það sem fram kom í ræðu forseta vors rétt áðan þar sem hann talaði um málflutning stjórnarandstöðunnar, þ.e. að við töluðum eins og þjóðin væri að farast úr veikindum. Hann hélt því fram að Íslendingar væru heilbrigðasta þjóð í heimi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin heldur því fram að heilsu kvenna um allan heim fari hrakandi. Það er vegna þess að konur veikjast í síauknum mæli af þeim sjúkdómum sem áður lögðust einkum á karla á ákveðnum aldri, þ.e. hjarta- og æðasjúkdómum. Þeim fjölgar meðal kvenna. Og ýmsir aðrir velferðarsjúkdómar sækja því miður í sig veðrið. Konum gengur verr en körlum að hætta að reykja o.s.frv. Ég vara því við því að menn tali eins og við séum búin að leysa öll heimsins vandamál í heilbrigðismálum með þeirri miklu tækni sem við höfum. Við megum ekki vera andvaralaus og kannski er einmitt alnæmisfaraldurinn sem gengið hefur yfir heiminn eitt besta dæmi um það hvað getur gerst. Nýir sjúkdómar koma fram. Menn eru aftur farnir að glíma við berkla og svo mætti lengi telja. Þess vegna þurfum við að halda vöku okkar og vera stöðugt að fræða og byggja upp forvarnir til þess að við ráðum betur við þá og getum veitt þá góðu þjónustu sem við viljum veita í heilbrigðiskerfi okkar.