Frumvarp um orku fallvatna og jarðhita

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:04:13 (2874)

1996-02-12 15:04:13# 120. lþ. 88.1 fundur 179#B #, HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Í umræðum á þinginu 27. nóv. sl., þar sem rædd voru frv. um virkjunarrétt fallvatna og jarðhitaréttindi, kom fram hjá hæstv. iðnrh. að ríkisstjórnin hefði ákveðið 17. okt. að skipa vinnuhóp til að undirbúa löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna. Ráðherra boðaði jafnframt að vinnuhópurinn mundi skila af sér ekki síðar en 15. des. nk. og störf hans og tillögur yrðu lagðar til grundvallar við framhaldsmeðferð. Hæstv. ráðherra gerði ekki ráð fyrir að lokið yrði við að ganga frá löggjöf um þessi efni fyrir áramót en hafði vonir um að það tækist á yfirstandandi þingi. Í því sambandi er vert að minna á að allir fyrirvarar samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði varðandi þessi efni að því er Ísland varðar féllu úr gildi við síðustu áramót og málið er því í rauninni brennheitt. Í iðnn. þingsins liggja nefnd frv. sem ég og þingmenn Alþb. erum flutningsmenn að og hefur að ég hygg verið beðið með umfjöllun um málið eftir tillögum frá ríkisstjórn. Því spyr ég hæstv. iðnrh. hver sé staða málsins í ljósi yfirlýsinga hans í nóvembermánuði.