Vaxtahækkanir bankanna

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:13:32 (2879)

1996-02-12 15:13:32# 120. lþ. 88.1 fundur 180#B vaxtahækkanir bankanna# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:13]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Þau náðu kannski ekki nema fyrst og fremst til þess að hæstv. ráðherra endurtók svipað og ég hafði gert að það væru forsendur fyrir vaxtalækkun í landinu. Allar eðlilegar efnahagslegar forsendur fyrir vaxtalækkun væru nú til staðar. Það hafði ég út af fyrir sig bent á í máli mínu en mér fannst hins vegar nokkuð skorta á að hæstv. ráðherra svaraði skilmerkilegar en hann gerði hér áðan hvernig farið yrði í það mál að reyna að laða fram þá vaxtalækkun sem hæstv. ráðherra sagði mjög réttilega að væri til staðar í landinu.

Það hefur verið að koma í ljós að fjármagnsmarkaður okkar er þrátt fyrir allt svo sérkennilegur að hann bregst mjög einkennilega við skýrum boðum frá markaðnum í landinu. Það eru að berast mjög skýr boð inn á fjármagnsmarkaðinn um möguleika til vaxtalækkunar en fákeppnin á þessum markaði gerir það m.a. að verkum að þessarar vaxtalækkunar sér ekki stað. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann muni reyna að laða fram og opna augun á þeim mönnum sem hafa sannarlega yfir því að ráða að stýra vaxtastiginu í landinu því hér ríkir fákeppni eins og ég hef þegar rakið.