Vaxtahækkanir bankanna

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:15:10 (2880)

1996-02-12 15:15:10# 120. lþ. 88.1 fundur 180#B vaxtahækkanir bankanna# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:15]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það mikilvægasta í þessu er auðvitað að menn eru sammála um að aðstæðurnar séu til staðar til þess að vextir geti farið niður á við. Seðlabankinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki í því að hafa áhrif á skammtímavexti. Af þeirri ástæðu er stefnt að því að halda fundi með Seðlabankanum til þess að leita leiða í þessum efnum. Langtímavextirnir gætu hins vegar fylgt þar í kjölfarið. Ég tek undir það með hv. þm. að það er gríðarlega mikilvægt að ná þessu fram núna. Ef íslenskt atvinnulíf þarf að búa við að vera með allt upp í 4% hærri vexti en atvinnulífið í nágrannalöndunum skekkjum við allar samkeppnisaðstæður. Ef við ætlum okkur að búa við þetta til frambúðar erum við með öðrum orðum að sigla aftur inn í það kyrrstöðu- og stöðnunartímabil sem dregur úr fjárfestingunni, dregur úr hagvextinum og ýtir okkur aftur út í atvinnuleysi sem við höfum núna verið að burðast við að komast út úr á síðustu mánuðum og missirum. Þess vegna er enn mikilvægra en nokkru sinni fyrr að ríkisstjórnin leiti samstarfs við aðila á vinnumarkaðnum og á fjármagnsmarkaðnum til að ná þessu fram.